Morgunblaðið - 02.01.2016, Qupperneq 72
72 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 2.1. 2016
Gróskan í íslenskri leikritun var mikil á árinu
2015 og sérstakt ánægjuefni hversu vel verkin
voru skrifuð. Af þeim ríflega þrjátíu leiksýn-
ingum sem undirrituð sá frá desemberlokum
2014 fram í miðjan desember 2015 hjá stóru at-
vinnuleikhúsunum tveimur í höfuðborginni sem
og sjálfstæðum leikhópum voru tuttugu íslensk
verk, þar af fimmtán ný íslensk leikrit í fullri
lengd, tvær uppfærslur á eldri íslenskum leik-
ritum, ein leikgerð og tvær tónlistarsýningar.
Íslensk verk voru í reynd fleiri, en hér er aðeins
miðað við þau sem greinarhöfundur sá. Þriðja
almanaksárið í röð helst hlutfall íslenskra verka
svipað og annað árið í röð er mikill meirihluti
verkanna frumsamin leikrit sem er mjög já-
kvætt, enda bráðnauðsynlegt að fá íslensk leik-
skáld til að kljást við og kryfja íslenskan raun-
veruleika og þjóðarsál.
Veðjað á sköpunarkraft kvenna
Það er vel við hæfi að á árinu sem 100 ára af-
mæli kosningaréttar kvenna var minnst hafi
konur verið í áberandi hlutverkum í leikhúsinu
hvort heldur er innan eða utan sviðs í mörgum
þeirra sýninga sem standa upp úr fyrir frum-
leika og gæði. Óhætt er að segja að Tinna Gunn-
laugsdóttir, þáverandi þjóðleikhússtjóri, hafi
sett tóninn þegar hún haustið 2014 kynnti al-
íslenskt leikár 2014-2015 auk þess sem hún
valdi að veðja sérstaklega á sköpunarkraft
kvenna og fela þeim aukna ábyrgð sem höf-
undum og leikstjórum. Eftirmaður hennar í
starfi, Ari Matthíasson, hefur sagt að hann
hyggist gæta þess að tækifæri fyrir karla og
konur verði jöfn í hópi listrænna stjórnenda og
er það ánægjuefni. Að þessu hefur Kristín Ey-
steinsdóttir borgarleikhússtjóri einnig gætt frá
því hún tók við störfum.
Enn er þó langt frá því að hlutfall kynjanna
sé jafnt þegar kemur að t.d. leikstjórn og leik-
ritun. Af þeim leiksýningunum sem undirrituð
sá var um 34% þeirra leikstýrt af konum, þ.e.
konur í hópi leikstjóra voru 11 meðan karlarnir
voru 22, en einni sýningu var leikstýrt af báðum
kynjum og annarri af tveimur körlum. Mun
verri var kynjahallinn þegar kom að leik-
skáldum, því sex leiksýningar voru eftir kven-
kyns leikskáld meðan 25 sýningar voru eftir
karlkyns leikskáld en þess ber að geta að höf-
undar í hópi karla voru í reynd fleiri vegna þess
að í þremur sýningum voru höfundar tveir karl-
ar eða fleiri. Þetta þýðir að aðeins rétt rúm 19%
leiksýninga byggðu á leiktextum eftir konur.
Eðlilega vaknar sú spurning hvort leikhúsið
geti endurspeglað samfélagið þegar hallar jafn
ískyggilega á annað kynið í hópi höfunda.
Í upphafi árs var frumsýnt mest abstrakt
sviðsverk Auðar Övu Ólafsdóttur til þessa, Ekki
hætta að anda, í leikstjórn Stefáns Jónssonar og
uppfærslu Háaloftsins í Borgarleikhúsinu. Leit
fjögurra kvenna að skilningi og ljósi var leið-
arstef sýningar sem fól í sér vel heppnaða sam-
bræðslu ólíkra listforma.
Áður hafði Borgarleikhúsið sýnt áhrifamikla
útfærslu Hörpu Arnardóttur á Dúkkuheimili
Henriks Ibsen þar sem Unni Ösp Stefánsdóttur
í hlutverki Nóru tókst frábærlega að miðla sárs-
auka og örvæntingu konu sem á sífellt erfiðara
með að leika það hlutverk sem eiginmaður og
samfélag krefst af henni. Sú krafa eiginmanns
að kona hans sé skrautmunur meðan hann hafi
vit fyrir báðum sveif einnig yfir vötnum í Loka-
æfingu Svövu Jakobsdóttur í leikstjórn Tinnu
Hrafnsdóttur sem Háaloftið setti upp í Tjarn-
arbíói. Sérstakt ánægjuefni var að upplifa
hversu vel hinn margslungni leiktexti Svövu
hafði elst.
Með Hystory sem Sokkabandið setti upp í
Borgarleikhúsinu sýndi Kristín Eiríksdóttir að
hún hefur meistaralega góð tök á leikritunar-
forminu. Meinfyndinn texti hennar og átak-
anlegt innihaldið skilaði magnaðri sýningu und-
ir styrkri stjórn Ólafs Egils Egilssonar, sem
mætti sannarlega gera meira af því að leikstýra.
Í 4:48 Psychosis eftir Söruh Kane í leikstjórn
Friðriks Friðrikssonar sem Edda Productions
og Aldrei óstelandi settu upp í Þjóðleikhúsinu
birtist örvæntingarfull leit að ljósi og þrá eftir
að skilja og gera skiljanlegt óþolandi ástand
þunglyndis. Frumleg nálgun leikhópsins að efn-
inu skilaði sér í magnþrunginni sýningu sem
hvíldi á áhrifamikilli frammistöðu Eddu Bjarg-
ar Eyjólfsdóttur í mjög svo vandasömu hlut-
verki einleiksins.
Fáar barnasýningar áhyggjuefni
Stóru atvinnuleikhúsin tvö í höfuðborginni settu
upp sitt hvora fjölskyldusýninguna. Uppfærsla
Borgarleikhússins á söngleiknum Billy Elliot
eftir Lee Hall í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfs-
sonar minnti okkur á mikilvægi þess að hlúa að
hæfileikum svo listamenn geti blómstrað og
þannig auðgað samfélagið allt. Óhætt er að
segja að Bergur Þór hafi, í samstarfi við list-
ræna stjórnendur sína og samstarfsfólk, unnið
sannkallað þrekvirki með uppsetningunni. Ein-
staklega ánægjulegt var að sjá loks Í hjarta
Hróa hattar eftir David Farr í leikstjórn Gísla
Arnar Garðarssonar og Selmu Björnsdóttur í
Þjóðleikhúsinu fjórum árum eftir að Vesturport
setti verkið upp í samvinnu við Royal Shake-
speare Company í Bretlandi.
Athygli vekur að aðeins voru frumsýndar
fimm barnasýningar á árinu og allar voru þær á
fyrri hluta árs. Þeirra á meðal voru tvær sýn-
ingar í Tjarnarbíói, þ.e. hamfaraleikritið Eld-
barnið eftir Pétur Eggerz í leikstjórn Sigrúnar
Valbergsdóttur, sem Möguleikhúsið frumsýndi
í tilefni af 25 ára starfsafmæli sínu, og yndislegi
barnasöngleikurinn Björt í sumarhúsi eftir El-
ínu Gunnlaugsdóttur við texta Þórarins Eldjárn
í leikstjórn Ágústu Skúladóttur og uppsetningu
Töfrahurðar og Óperarctic. Augljóst er að leik-
húsin þurfa að spýta í lófana á komandi vori til
að koma í veg fyrir að hneykslið frá 2013 end-
urtaki sig, þegar ekki reyndist unnt að veita
Grímuna fyrir bestu barnasýningu ársins á sök-
um fæðar þeirra.
Kynbundið ofbeldi og náttúruvá
Að lokum verður að minnast á nokkra aðsóps-
mikla leikstjóra. Nálgun Yönu Ross á Mávinn
eftir Anton Tsjékov í Borgarleikhúsinu var rót-
tæk og leysti mikinn sköpunarkraft úr læðingi
hjá leikhópnum sem ánægjulegt var að verða
vitni að. Sama má segja um djarfa nálgun Þor-
leifs Arnar Arnarssonar í nýrri leikgerð á Sjálf-
stæðu fólki eftir Halldór Laxness í Þjóðleikhús-
inu.
Atli Rafn Sigurðarson sýndi að hann á fullt
erindi í leikstjórnarstólinn þegar hann leikstýrði
afar vandaðri uppfærslu á Heimkomunni eftir
Nóbelsskáldið Harold Pinter í Þjóðleikhúsinu.
Eðli málsins samkvæmt fékk leikhópurinn úr
safaríkum texta að moða. Sá karllægi ofbeldis-
heimur sem mætir Ruth í verkinu kallaðist með
óþægilegum hætti á við samtímann þar sem um-
ræðan um kynbundið ofbeldi fór hátt á sam-
félagsmiðlum á liðnu ári að gefnu tilefni.
Uppfærslan á Endatafli eftir Nóbelsskáldið
Samuel Beckett, sem Svipir settu upp í Tjarn-
arbíói á Listahátíð í Reykjavík, var sérdeilis
áhrifarík. Kristín Jóhannesdóttir hefur einstakt
lag á því að ná því besta úr leikurum sínum og
Þór Tulinius og Þorsteinn Bachmann túlkuðu
Clov og Hamm af miklu öryggi og innlifun.
Kristín hannaði líka leikmyndina og tókst með
snjöllum hætti að vera trú leikskáldinu sam-
tímis því sem hún læddi inn sterkri ádeilu á um-
gengni mannsins við náttúruna sem leitt getur
til svo mikilla hamfara að heimurinn verði, líkt
og eftir kjarnorkuslys, óbyggilegur.
Óvæntur konfektmoli undir lok árs reyndist
síðan vera Vegbúar eftir KK og leikstjórann
Jón Gunnar Þórðarson í Borgarleikhúsinu.
Tónlistarmaðurinn rakti þar sögu gítara sinna
og um leið eigin sögu á fallegan og áhrifamikinn
hátt eins og sönnum sögumanni er einum lagið.
Arndís Hrönn Egilsdóttir var óhugnanlega góð þegar hún datt
inn í manískar einræður sínar í Hystory Kristínar Eiríksdóttur.
Ljósmynd/Þorbjörn Þorgeirsson
Edda Björg Eyjólfsdóttir var mögnuð í miðlun sinni á síðasta
leikriti Söruh Kane sem nefnist 4:48 Psychosis.
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Unnur Ösp Stefánsdóttir náði af einstakri leikni að sýna áhorf-
endum margbrotna Nóru í Dúkkuheimili eftir Henrik Ibsen.
Ljósmynd/Grímur Bjarnason
MIKIL GRÓSKA
Þrátt fyrir fögur áform um
jafnari hlut kynjanna í leik-
húsum landsins bera konur
enn skarðan hlut frá borði
þegar kemur að leikstjórn og
leikritun. Athygli vekur þó að
hlutur kvenna er áberandi í
mörgum þeirra sýninga sem
standa upp úr á árinu.
SILJA BJÖRK
HULDUDÓTTIR
hefur starfað sem blaða-
maður á Morgunblaðinu frá
árinu 2003. Hún er BA í
heimspeki og MA í bók-
menntafræði frá Háskóla Ís-
lands, en lokaverkefni
hennar fjallaði um leikstjór-
ann Peter Brook. Silja hefur
víðtæka reynslu á sviði leik-
listar og er annar tveggja
leiklistargagnrýnenda
Morgunblaðsins.
ÁNÆGJULEGT AÐ SJÁ HVERSU VEL KLASSÍSK LEIKRIT TÖLUÐU VIÐ SAMTÍMANN
ıTU
RN
IN TS ı 2014ı TU
P
O
INTSı20RNIN
G
PO
IN
14
TU
RNIN
G POINTS|TÍM
AM
Ó
T|2016|TURNINGPOI
TS
|T
ÍM
AM
Ó
T|
20
16
|