Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.04.2016, Blaðsíða 42
42 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.4. 2016
LESBÓK
Ingva Þór Kormáksson þekkjaflestir sem tónlistarmann, endahefur hann verið iðinn við tón-
smíðar og flutning frá því fyrsta lag
hans kom út á plötu fyrir rúmum
þrjátíu árum. Undanfarin ár hefur
hann líka fengist við ritstörf, vann
meðal annars Gaddakylfuna 2009,
verðlaun fyrir bestu glæpasmásögu
ársins, og gaf út smásagnasafnið
Raddir úr fjarlægð ári síðar. Í síð-
ustu viku kom svo út fyrsta skáld-
saga hans, Níunda sporið, en á kápu
má lesa að bókin fjalli um hefnd, fyr-
irgefningu og dularfull dauðsföll.
Ingvi Þór játar því að Níunda
sporið sé sakamálasaga, en bætir við
að hún sé að sumu leyti óvenjuleg
sem slík.
„Þetta er fyrst og fremst skemmti-
saga, eins og glæpasögur eru reynd-
ar, en hún á sér alvarlegan undirtón.
Alkóhólismi kemur við sögu og vissu-
lega er hann alvarlegt mál og getur
verið alvarlegt samfélagslegt vanda-
mál sem margir hafa reynt á eigin
skinni, en svo á þessi sjúkdómur líka
sínar spaugilegu hliðar.
Ég er aðallega að fjalla um batann
í bókinni, svonefnda tólf spora vinnu
sem fylgir meðferðinni, og þegar
aðalpersónan tekur níunda sporið þá
fer ýmislegt úrskeiðis.“
Grúi glæpasagana hefur komið út
hér á landi á síðustu árum, þýddar og
frumsamdar bækur, en að sögn
Ingva er Níunda sporið dálítið önnur
nálgun á glæpasagnaformið.
„Glæpasögur nú til dags eru svo mik-
ið löggusögur, en það er lítið um
löggur í bókinni þó þeim bregði fyrir
þegar dauðsföll verða. Ég var eig-
inlega búinn að lesa yfir mig af
löggusögum og þegar skrifin þróuð-
ust út í glæpasögu hafði ég ekki
áhuga á lögguleik,“ segir Ingvi og
bætir við að kannski hafi það líka
ekki verið hægt þegar þar var komið
sögu.
Af þessu má ráða að Ingvi lagði
ekki upp með það að skrifa glæpa-
sögu, þó eitthvað glæpsamlegt hafi
kannski legið í loftinu. „Það var lík-
legt að bókin færi eitthvað í þá áttina
en ég vissi eiginlega ekki alveg hvað
ég væri að gera,“ segir hann og skell-
ir uppúr. „Þetta byrjaði með sögu
um tvo unga pilta sem verða fyrir
slæmri framkomu fullorðinna og það
dregur dilk á eftir sér. Ég vissi þó
ekki frekar en þeir hvað myndi ger-
ast þegar ég byrjaði á bókinni.“
Það er talsverð tónlist í bókinni og
Ingvi segir að það sé eðlilegt í ljósi
þess að hann þekkir svo vel til í þeim
heimi. „Það getur verið gott að fjalla
um eitthvað sem maður hefur vit á,
en svo er tónlist svo stór partur af
mínu lífi.“
Vonandi er ég ég ekki að upplýsa
of mikið þegar ég nefni að á síðustu
blaðsíðu bókarinnar er ófyrir-
sjáanlegur snúningur sem setur það
sem á undan er komið í óvænt ljós.
Ingvi Þór hlær þegar ég rifja þann
snúning upp og segist ekki hafa haft
hann í huga á meðan bókinni vatt
fram, hann hafi bara birst undir það
síðasta. „Umgjörð sögunnar er tveir
menn sem sitja að tali og annar
þeirra segir frá. Frásögnin flakkar
svo fram og aftur í tíma og til þess að
hún verði ekki of einsleit fyrstu per-
sónu frásögn þá endursegir sögu-
maður, sá sem hlustar, stundum
sögu hins í þriðju persónu. Það er
ekki alvanaleg frásagnaðferð en þó
nokkuð algeng í skáldsögum og líka í
glæpasögum,“ segir Ingvi.
- Þetta er þín fyrsta skáldsaga,
hvernig tilfinning var að fá bókina í
hendurnar?
„Þetta var svipað og það þegar ég
hef verið að gefa út plötur – þá eru
þeir síðustu sem hlusta hljóðbland-
arinn og mastermaðurinn og þegar
maður fær sjálfur í hendurnar disk-
inn þá er maður alltaf að finna ein-
hver smáatriði sem hefðu mátt betur
fara og stundum get ég ekki hlustað
á disk fyrr en hálfu ári eftir að hann
kemur út. Það er svipað í þessu, ég
sá strax einhver smáatriði sem fóru í
taugarnar á mér, en lesendur hafa
tekið bókinni vel, flestir segjast hafa
gleypt hana í sig á tiltölulega
skömmum tíma og ég er ánægður
með það.
Þetta er skemmtisaga hvað sem
bókmenntalegum pælingum líður og
mér finnst skipta mestu að bók sé
skemmtileg og að hún sé kláruð,
frekar en að hún sé leiðinleg og mað-
ur geti ekki klárað hana.“
Hefnd og dularfull
dauðsföll
Níunda sporið heitir fyrsta skáldsaga Ingva Þórs Kormákssonar, sem hefur
helst verið þekktur fyrir tónsmíðar og tónlistarflutning fram til þessa. Bókin
er glæpasaga, en Ingvi lagði ekki endilega upp með það að skrifa slíka sögu,
þó eitthvað glæpsamlegt hafi legið í loftinu.
Árni Matthíasson arnim@mbl.is
Hermaður heitir skáldsaga Þórarins Freysson-
ar sem Skrudda gefur út. Bókin segir frá Jó-
hannesi Ara Zakaríasarsyni og Helgu Nótt
Maríudóttur sem alist hafa upp í heimi ótta, of-
beldis og morða. Þegar þau eru vaxin úr grasi
taka þau til sinna ráða og upphefst þá röð æsi-
legra atburða.
Hermaður er fyrsta skáldsaga Þórarins, en
hann er menntaður geðhjúkrunarfræðingur og
hefur starfað í fangelsum í Englandi.
Fyrsta sagan um bernskubrek Ævars vísinda-
manns hét Risaeðlur í Reykjavík og sló rækilega í
gegn.
Í Vélmennaárásinni rifjar Ævar það upp er
hann var ellefu ára og vildi helst hanga í tölvunni
allan daginn. Það gekk svo langt að hann skráði
sig í sumarskóla til að þurfa ekki að vera úti í sól-
inni, en það reyndist vera stórhættuleg ákvörðun,
enda var þetta enginn venjulegur sumarskóli sem
hann var lentur í.
Vélmennaárás!
Simona Ahrnstedt er menntaður sálfræðingur með
sérþjálfun í hugrænni atferlismeðferð. Hún sneri
sér snemma að ritstörfum og skrifaði þrjár sagn-
fræðilegar skáldsögur áður en hún byrjaði að
skirfa reyfara og sló rækilega í gegn. Fyrsta bók
hennar í þeim dúr heitir Aðeins ein nótt í íslenskri
þýðingu og kom út í vikunni. Þetta er fyrsta bókin í
bókaröð þar sem konur eru í aðalhlutverki og
spennan krydduð erótík og ástarþrá. Elín Guð-
mundsdóttir þýddi.
Aðeins ein nótt Simonu
Í bókaröðinni Smásögur heimsins gefur Bjartur
út íslenskar þýðingar á smásögum frá ýmsum
löndum. Í fyrsta bindinu, Norður-Ameríka, eru
m.a. smásögur eftir Sherwood Anderson, Ernest
Hemingway, William Faulkner, Ralph Ellison,
Philip Roth, Raymond Carver, Susan Sontag,
Amy Tan, Joyce Carol Oates, Sherman Alexie,
Jhumpa Lahiri og Alice Munro. Ritstjórar eru
Rúnar Helgi Vignisson, Kristín Guðrún Jóns-
dóttir og Jón Karl Helgason.
Þýddar smásögur
Í vikunni voru kynntar tilnefningar
til verðlauna vestan hafs fyrir bestu
þýddu skáldsögu síðasta árs.
Téð verðlaun eru bandarísk, var
komið á fót af háskólanum í Roc-
hester og fyrst veitt 2008 fyrir bæk-
ur sem komu út 2007.
Amazon hefur styrkt verðlaunin
undanfarin ár og veitir sigurveg-
aranum, höfundi og þýðanda, hálfa
þriðju milljón króna í verðlaunafé.
Að þessu sinni eru tilnefndar eftir-
farandi skáldsögur, en verðlaunin
eru einnig veitt fyrir ljóðabækur:
A General Theory of Oblivion eft-
ir José Eduardo Agualusa, Arvida
eftir Samuel Archibald, The Story
of the Lost Child eftir Elena Ferr-
ante, The Physics of Sorrow eftir
Georgi Gospodinov, Signs Preced-
ing the End of the World eftir Yuri
Herrera, Moods eftir Yoel Hoff-
mann, The Complete Stories eftir
Clarice Lispector, The Story of My
Teeth eftir Valeria Luiselli, War, So
Much War eftir Mercè Rodoreda og
Murder Most Serene eftir Gabrielle
Wittkop.
Brasilíski rithöfundurinn Clarice Lispector lést 1977. Hún er í dag talin einn
helsti brasilíski rithöfundur síðustu aldar.
Ljósmynd/New Directions Books
Besta þýdda bókin
VERÐLAUN VESTAN HAFS
Í heimi ofbeldis og ótta
SCREEN- OG RÚLLUGARDÍNUR
Henta vel þar sem sól er mikil en þú vilt geta séð út
Láttu sólina ekki trufla þig
Sendum frítt hvert á land sem er gegn staðgreiðslu
Íslensk framleiðsla eftir máli Álnabær
Allt fyrir gluggann… úrval, gæði og þjónusta.
40 ára
Síðumúla 32, Reykjavík. S. 588 5900 ■ Tjarnargötu 17, Keflavík. S. 421 2061 ■ Glerárgötu 32, Akureyri. S. 462 5900 ■ alnabaer.is
OPIÐ: VIRKA DAGA FRÁ 10-18
Hringdu núna og bókaðu tíma í máltöku