Orð og tunga - 01.06.2013, Blaðsíða 10
Orð og tunga
viii
endaþarfir í íslensk-frönsku Ijósi. Eins og nafnið gefur til kynna er sjónum
beint að hlutverki tvímála orðabóka og þörfum ólíkra notendahópa.
Fjallað er um áhrif þessara þátta á efnisöflun og framsetningu efnis-
ins, m.a. eftir því hvort orðabækur eru prentaðar eða miðlað rafrænt.
Dæmi eru tekin af orðabókum milli íslensku og frönsku og í bak-
grunni eru hugmyndir um gerð nýrrar íslensk-franskrar orðabókar.
Þrjár greinar utan þemans eru birtar í ritinu. Guðrún Kvaran ritar
greinina Orðabókarstörf Konráðs Gíslasonar þar sem hún rekur vinnu
Konráðs við ýmsar orðabækur þótt einungis ein þeirra, Dönsk orðabók
með íslenzkum þýðingum (1851), kæmi út í hans nafni. Aðild hans að
öðrum verkum, útgefnum og óútgefnum, er síður þekkt og greinin
er því þarft innlegg í sögu íslenskra orðabóka. Hinar greinarnar tvær
fjalla báðar um litarheiti í íslensku út frá kenningum mannfræðing-
anna Berlin og Kay um grunnliti í tungumálum. Grein Susan M.
Arthur, Are Oranges Yelloiv? Appelsínugulur as a Basic Color Term in
lcelandic, fjallar eins og nafnið bendir til um tilkomu og stöðu litarheit-
isins appelsínugulur í íslensku. Kirsten Wolf segir í sinni grein, Basic
Color Terms in Old Norse-Icelandic: A Quantitative Study, frá niðurstöð-
um rannsóknar á tíðni grunnlitarorða í fornu máli og fjallar um sam-
band tíðni og hugmynda um algild innbyrðis vensl slíkra litarorða
m.t.t. þess hvort og í hvaða röð þau birtast í tungumálum.
Einn ritdómur er í þessu hefti, umsögn Auðar Lorenzo um Islensk-
spænska orðabók (2011), en auk þess hefur ritstjóri tekið saman stuttar
ritfregnir um nokkrar nýlegar bækur á sviði tímaritsins. Loks eru
sagðar fréttir af áhugaverðum ráðstefnum og málþingum sem haldin
verða á næstu mánuðum.
Allar greinar í tímaritinu eru ritrýndar og til þess að svo megi vera
þarf stór hópur sérfræðinga að leggja hönd á plóginn. Ritrýnar njóta
nafnleyndar og verða því ekki taldir upp hér en þeim er öllum þakkað
fyrir vandaðan yfirlestur og gagnlegar athugasemdir. Allir aðrir sem
lagt hafa ritstjóra lið við frágang þessa heftis, einkum meðlimir rit-
nefndarinnar og samstarfsfólk á stofnuninni, fá þakkir fyrir sitt fram-
lag. Það gildir ekki síst um Bessa Aðalsteinsson sem annast hefur
umbrot tímaritsins um árabil.