Orð og tunga - 01.06.2013, Page 12
2
Orð og tunga
ingar á þeim með tilliti til lýsingar á notkunareinkennum og notk-
unarumhverfi orðanna og vali notkunardæma. Þá er vikið að sér-
kennum íslensks orðabókarefnis þar sem íslenska er markmálið, bent
á hversu merkingarþátturinn er gildur við meðferð þess og greiningu
og færð rök að því að rækileg forgreining eigi jafnt við hvort sem
fengist er við íslensku sem viðfangsmál eða markmál. Loks er fjallað
stuttlega um kosti þess að víkja frá hinum orðbundnu venslum mál-
anna og viðhafa hugtakslega nálgun við orðabókarlýsinguna þar sem
meira jafnvægi getur orðið með málunum.
2 Orðabók milli mála
Það er eðlilegt metnaðarmál hverju málsamfélagi að bera mál sitt
og orðaforða að öðrum tungumálum í mynd orðabóka. Aðstæður
til framtaks á því sviði eru vissulega ólíkar frá einu málsamfélagi til
annars og mótast m.a. af stærð og krafti málsamfélagsins og hvernig
menningar- og félagslegum tengslum þess við önnur málsamfélög
er háttað. Landfræðilegt nágrenni, söguleg tengsl og málsögulegur
skyldleiki eru virkir hvatar í þessu sambandi en áhrifavald stórra mál-
samfélaga segir einnig til sín eins og best sést á því hversu orðabækur
gagnvart ensku eru almennt fyrirferðarmiklar.
Gerð nýrrar tvímála orðabókar er gjarna a.m.k. öðrum þræði
menningarlegt framtak þar sem atbeini beggja málsamfélaga kemur
til. Orðabókinni er þá ætlað að styrkja tengsl viðkomandi þjóða, efla
viðskipti þeirra, styðja við ferðamennsku o.s.frv. í öðrum tilvikum
skírskotar verkið fremur inn á við, t.d. þegar orðabókin hefur það
hlutverk að greiða götu innflytjenda og einstakra innflytjendahópa í
nýju samfélagi. Enn önnur verk snúa beinlínis að námi og menntun í
viðkomandi tungumáli á ólíkum stigum.
Margt hefur breyst í umhverfi orðabókagerðar og orðabókanotk-
unar á undanförnum árum. Með tilkomu netsins hefur aðgengi að
hvers konar upplýsingum orðið stórum betra en áður og að sama
skapi hefur orðið auðveldara að koma upplýsingum á framfæri.
Upplýsingar um orð og orðanotkun þurfa hér minni umbúnað en í
prentheimi, og þær geta átt gilt erindi í ýmsu formi, t.d. í mynd ein-
faldra orðalista sem auka má í eftir þörfum og aðstæðum, án þess að
um sé að ræða frágengið eða fullbúið orðabókarverk í hefðbundnum
skilningi. Notendur netsins njóta góðs af þessu en geta þó stundum
átt erfitt með að meta gildi þeiri'a verka sem ratað er að, hversu vel