Orð og tunga - 01.06.2015, Page 48
36
Orð og tnnga
fengið úr frönsku (1989:702). Samkvæmt dönskum heimildum er pas
eða passe komið úr frönsku pass og spænsku paso. Pas er spilasögn í
dönsku og merkir að viðkomandi spilari hefur engin spil á hendi eða
óskar ekki eftir spili; orðið kemur fyrir í fyrstu dönsku spilabókinni
frá 1786 (Melbye 1786:9; ODS). Orðið er tekið úr frönsku je passe eða
spænsku paso (ODS), fyrstu persónu eintölu af sögnunum passer í
frönsku og pasar í spænsku. I spænsku er orðið paso að finna í ýmsum
textum frá upphafi 17. aldar í sömu merkingu og hér er til umfjöllunar
(Chamorro Fernández 2005:121).
3.9 Ponti
í tímaritinu Múlaþing frá 1985 er gerð grein fyrir orðinu ponti og
það sagt vera 'rauður ás' eins og fram kemur í tilvitnuninni hér á
eftir: „þegar rauðu litirnir eru tromp, hækkar gildi rauðu ásanna og
verða þeir þá fjórða hæsta trompspilið hvor í sínum lit, næstir á eftir
laufaás (basta) að gildi og nefnast þá - sá rauði ás, ponti" (Sigurður
Magnússon (þýð.) 1985:191). Ásgeir Blöndal Magnússon segir að
ponti, 'rauður trompás í lomber', sé líklega tökuorð úr dönsku -ponte
eða ponto - og að upprunalega sé um spænskt orð að ræða, punta, 'ás,
punktur' (1989:719). Danska orðabókin (ODS) bendir á að orðið sé úr
frönsku ponto eða spænsku punto. Ponte kemur fyrst fyrir í orðabók
Matthiasar Moth frá því um 1700 í merkingunni 'et af de rode esser i
velten, i á lombre spil' (ODS; Moth ca 1700) en elsta dæmið með ponto
er frá 1786 og kemur fyrir í Nye og fuldstændi? dansk Spillebog ... eftir
Melbye (1786:3; ODS).
Ponto kemur ekki fyrir í frönskum orðabókum en hins vegar er
þar orðið ponte í merkingunni „Au jeu de l'hombre, as de coeur ou de
carreau quand on joue dans l'une ou l'autre de ces couleurs" (TLF),
það er 'hjarta- og tígulás í lomber'. Elsta ritdæmi orðmyndarinnar
ponte kemur fyrir í lýsingu á lomberspili í spilabókinni Le Jeu de
l'hombre, comme on le joiie ... frá árinu 1682 (TLF, Cioranescu 1987:235).
í Le jeu de l'hombre frá 1679 er orðmyndin ponto notuð í merkingunni
'hjartaás' eða 'tígulás' (Hagen (útg.) 1679:10-11).
í spænsku merkir punto 'ásarnir í spilastokknum' (DUE 2004:815;
DRAE) og í þessari merkingu kemur orðið fyrir í ýmsum lausavísum,
þulum og söngbókum frá 16. og 17. öld (Étienvre 1990:20).