Orð og tunga - 01.06.2015, Page 147
Sigurður R. Helgason: Gullbrá og Menglöð
135
Skeggi hét bóndi sá er bjó í Hvammi undir lok heiðni samkvæmt
sögunni. Hann mátti þola að Gullbrá dræpi fyrir honum bæði fé og
menn. Skeggi hafði ágirnd á gulli Gullbrár. Gekk hann því í fossinn
og glímdi við Gullbrá. Lauk þeirri viðureign þannig að Skeggi komst
undan við illan leik en með hluta gullsins:
Af Skeggja er það að segja að hann varð aldrei samur eftir að
hann gekk í fossinn; fékk honum það svo mikils og smala-
mannadrápið að hann lagðist í rekkju. En þegar svo var komið
að enginn fékkst til fjárgæzlu reis Skeggi úr rekkju einn dag
og gekk til kinda sinna. Leið svo dagurinn og nóttin með að
Skeggi kom eigi heim, en seint næsta dag kom hann heim
nær dauða en lífi því enginn þorði að vitja hans. Bar hann þá
kistu Gullbrár á bakinu. Sagði hann að eigi mundi mein verða
framar að afturgöngu hennar, en sjálfur mundi hann líka á
eftir fara. Lagðist hann þá aftur og stóð ekki upp framar. Mælti
hann svo fyrir áður en hann lézt að gulli því sem í katlinum
var skyldi verja til að kaupa fyrir kirkjuvið svo kirkja yrði reist
í Hvammi. Sagðist hann í fyrra sinn er hann gekk í fossinn
og tókst á við Gullbrá hafa heitið á Þór vin sinn, en hann hafi
brugðizt sér, en í seinna sinn hafi hann, ennþá nauðuglegar á
vegi staddur, unnið það heit að leggja fé til kirkjubyggingar í
Hvammi ef hann frelsaðist úr klóm Gullbrár; við það kom ljós
mikið í glyrnur hennar svo hann vissi eigi [fyrr] en hún var
orðin að steini þar niður í gljúfrinu og sést drangurinn enn í
dag í Gullbrárfossi. (Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson
(útg.) 1961:143-144)
Önnur gerð sögunnar birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags
1940 (Magnús Friðriksson 1940:106-108). Sagan um Gullbrá er þar
skráð með öðrum sögnum undir fyrirsögninni „Gamlar sagnir frá
Hvammi". Nefna ber að sagan af Gullbrá var þekkt á sautjándu öld.
Árni Magnússon handritasafnari, sem sjálfur ólst upp í Hvammi,
nefnir söguna í bréfi til Þormóðs Torfasonar árið 1690. Virðist Árni
hafa heyrt söguna á þann veg að Gullbrá hafi búið í Dalasýslu þegar
Auður (LFnnur) kom þar (Bjarni Einarsson (útg.) 1955:vii).
Af Menglöðu er eftirfarandi saga sem birtist í þjóðsagnasafninu
Grítnu og ber heitið „Menglöð tröllkona":
Þar sem Hamarsá fellur niður í efstu drög Hamarsdals í Suður-
Múlasýslu, er fremur lítill foss, sem heitir Menglaðarfoss.