Náttúrufræðingurinn - 2014, Blaðsíða 68
Náttúrufræðingurinn
68
Í Flatey kynntist Guðmundur Ingunni (Ingu) Krist-
ínu Jakobsdóttur kennara og tóku þau upp sambúð 1976,
þegar hann var 35 ára, en hún sjö árum yngri. „Hún varð
Guðmundi það akkeri sem hann þurfti, en jafnframt gaf
hún honum það rými, sem andi hans og viðfangsefni
kröfðust. Verk hans eru því einnig hennar verk.“ Þannig
komst Þröstur bróðir hans að orði í minningargrein sinni
(Mbl. 6. sept. 2012), og hygg ég það hverju orði sannara.
Ingunn er kennari að mennt og hefur starfað við barna-
kennslu síðan 1969, síðast við Grunnskóla Stykkishólms,
en er nú komin á eftirlaun. Þau eignuðust tvær dætur,
Ingibjörgu Snædal, f. 1981, og Höllu Brynhildi, f. 1984.
Árið 1978 gaf Ríkisútgáfa námsbóka (Námsgagna-
stofnun) út tvö smárit eftir Guðmund: Líf í sjó (auk
fylgirits) og Þörungalykil, bækling með teikningum af
26 tegundum sæþörunga, og 1986 bæklinginn Algeng
fjörudýr: handbók, einnig með teikningum, eins konar
framhald af hinum. Þessi ritverk tengdust námsefninu
Líf og umhverfi, sem fyrr var getið, en ekki var gefið út.
Sumurin 1979 og 1981 ferðaðist Guðmundur Páll um
Vestfirði, að beiðni Vestfirskra náttúruverndarsamtaka, til
að skrá og mynda náttúru- og söguminjar. Þá kom hann
á um 150 bæi, og safnaði miklu efni, sem ekki hafði áður
komist á blað, einkum af þjóðtrúartagi, sem reyndist
mjög ríkulegt á Vestfjörðum. Áður höfðu náttúruminjar
verið skráðar í öðrum landshlutum, en þjóðtrúin setið á
hakanum, nema það sem ritari þessa pistils hafði skráð
í Eyjafirði. Í bréfi til mín 7. maí 1987 kemur fram að
hann langaði til að semja bók um dularheim Vestfjarða,
hún varð aldrei að veruleika, en þarna kynntist hann
hjátrúnni, er síðar varð drjúgur þáttur í ritverkum hans
(Viðtal S.dór í jólablaði Þjóðviljans II,1982).
Veturinn 1984–1985 dvöldu Inga og Guðmundur og
dætur þeirra í Bandaríkjunum. Hann stundaði nám í
myndlist við Columbus College of Art and Design í Ohio,
og segir um það í viðtali árið 2000:
„Mér var boðin skólavist. Hún hentaði mér ákaflega vel, því
ég stóð á ákveðnum tímamótum. Ég hafði lengi gælt við þá hug-
mynd að skrifa fræðandi efni og myndskreyta, bæði með ljós-
myndum og teikningum, og hafði loks ákveðið að hrökkva eða
stökkva í þeim efnum. … Mér gekk mjög vel og nýr heimur
opnaðist. Ég var tilbúinn að hætta skrifum og halda áfram list-
námi, ef bókahugmyndin dytti úr skaftinu “ (Mbl. 22. okt., 2000).
Á Stokkseyri og í Stykkishólmi
Eftir Ameríkudvölina settust þau að á Stokkseyri 1985,
þar sem Ingunn gerðist kennari við grunnskólann, og
fylgdi lítil íbúð með góðum kjörum, en Guðmundur
fékk ágætis vinnupláss í Hraðfrystihúsi staðarins, sem
hætt var að nota sem slíkt. Guðmundur vann upp frá því
næstum eingöngu við ritstörf og ferðalög í því sambandi,
og hafði með tímanum af því sæmilegar tekjur, sem er
fátítt hér á landi, en þá skal því ekki gleymt að Ingunn
hafði sín föstu laun. Í árslok 1985 ritar hann mér:
„Nú er ég byrjaður á stórvirki um náttúru landsins.
Þetta er nokkurra ára verk og mikið að vöxtum að máli og
myndum. Þetta er ritverk ætlað alþýðu þessa lands, í því
verður allt milli fjalls og fjöru og himins og jarðar. Seinna
mun ég skýra þér frá efni og umfangi verksins, en þú getur
nærri að hugmyndir að slíku verki hafa verið að þróast
síðan ég var á Sólbakkanum forðum.“
Í næsta bréfi, 9. apríl 1986, var niðurstaðan orðin sú, að
byrja á fuglabók, sem þá var komin vel á veg, og ætlaði
Guðmundur að nota sumarið til að ferðast um landið og
taka fuglamyndir.
„En það er aðeins væntanlegt upphaf á viðamiklu verki um
náttúru Íslands …. Annað efni sem tekið verður fyrir er fjaran
og ströndin, hraun og sandar, heiðar og fjöll, blóm, móar og tún, lyng,
kjarr og skógar, mýrar og flóar, ár og vötn. Kjarni hugsjónarinnar …
er að gera fræðilegt efni um náttúru Íslands aðgengilegt þorra
landsmanna, og færa það inn á heimilin og í skóla landsins.
Um leið er ætlunin að vekja landann til vitundar um stórbrotna
náttúru og viðkvæmt lífríki landsins, og kenna komandi kyn-
slóðum að meta náttúru og sögu þess. Efnið verður því ekki
einskorðað við náttúrufræði, heldur matreitt á fjölbreyttan og
vonandi skemmtilegan máta.“
Upphaflega var gert ráð fyrir að bækurnar yrðu í
tvenns konar formi, annars vegar glæsilegar stórbækur
og hins vegar „handbækur í vasabroti“, sem taka mætti
með í ferðir. Raunin varð sú að aðeins þær fyrrnefndu
urðu að veruleika, kannski vegna þess að forlagið Örn og
Örlygur byrjaði um sama leyti að gefa út litlar handbækur
um náttúruna.
Laust fyrir 1990 fluttu Guðmundur og fjölskylda til
Stykkishólms, og keyptu þar stórt hús sem hann kallaði
Iðavelli, í útjaðri bæjarins, Neskinn 1. Ingunn gerðist þar
kennari. Ástæða flutningsins var m.a. þær rætur sem þau
höfðu skotið í Flatey, þar sem þau áttu húsið Vorsali, og
þar dvöldu þau síðan öll sumur. Vann Ingunn þar m.a.
við hótelrekstur í sumarfríi sínu.
Fjölskyldumynd tekin á sjötugsafmæli Guðmundar Páls, 2. júní 2011.
Frá vinstri: Halla Brynhildur, Mads, Inga, Ragnar, Guðmundur Páll,
Salka Finnsdóttir, Rökkvi Steinn Finnsson, Ingibjörg Snædal með Þór-
kötlu Ragnarsdóttur, Blær og Finni. Á myndina vantar yngri dóttur
Ingibjargar og Ragnars, Steinunni Pálu. Ljósm.: Leifur Rögnvaldsson.