Bókasafnið - 01.06.2015, Blaðsíða 60
60
Bókasafnið 39. árg. 2015
Bækur og líf
uppreisn: sögur
eftir Jakob Ejersbo (1968-2008)
Páll Baldvin Baldvinsson þýddi
Reykjavík: JPV, 2014
Það er gott að lesa. Það hefur mér alltaf fundist en eftir að hafa
orðið „fullorðin“ er þetta því miður dægradvöl sem ég leyfi mér
alltof sjaldan. Að lesa þykir mér algjör munaður en gef mér
hvorki tíma né næði til að sinna þessari þörf að ráði. Sem barn
var ég mikill lestrarhestur en nú til dags tel ég mig góða ef ég
næ að lesa eins og eina til tvær bækur á ári og þá nýti ég helst
sumrin til að lesa. Jólafríslestur er ekki á dagskrá á barnmörgum
heimilum. Því prísaði ég mig sæla síðastliðið sumar þegar
móðir mín, sem er mín helsta bókaveita, lánaði mér bókina
Uppreisn eftir danska höfundinn Jakob Ejersbo.
Uppreisn er skáldsaga, byggð upp af nokkrum styttri frá-
sögnum ýmissa sögupersóna. Tímabilið er 9. áratugurinn. Upp-
hafl ega ætlaði ég að skrifa að þær tengdust allar á ákveðinn
hátt, í gegnum heimsálfuna Afríku en við nánari eftirgrennslan
er ljóst að málið er ekki svo einfalt, þar sem ein frásögnin gerist
á Grænlandi. Bókin er hluti af stærri heild, þríleik, sem var síð-
asta verk höfundarins en hann lést árið 2008 aðeins fertugur
að aldri. Persónur úr fyrri bókinni, Útlagar, skjóta upp kollinum
í þessari bók. Frásagnirnar eru allar ákafl ega heillandi, grípandi,
djarfar og óvægnar. Þær spanna allt litróf mannlegs eðlis.
Dregnar eru upp myndir af fólki í mismunandi aðstæðum sem
þarf að hafa sig allt við til að lifa af í heimi sem því er skapaður.
En það er sá veruleiki sem tengir persónurnar saman, þær eru
á einhvern hátt ýmist í minnihluta, eða undirmáls. Fátækt, kyn
og kynþáttahyggja eru mikilvægar breytur í þeim heimi sem
hér er fj allað um. Ung stúlka af grænlenskum ættum fl yst til
Danmerkur og kemst þar í tygi við vafasaman mann sem hún á
í ástarsambandi við og gengur á ýmsu. Sem Grænlendingur
býr hún við stöðuga fordóma frá samferðafólki sínu. Indversk
stúlka í Kenýa leitar mannsefnis frá Indlandi með því að fl etta
myndamöppum, samkvæmt hefðum um hjónabönd verður
hún að giftast manni af indverskum ættum. Ung afrísk stúlka
sér sitt eina haldreipi út úr nöturlegri fátækt að eignast hvítan
kærasta á mótorhjóli, eftir að hafa alið barn og skilið eftir hjá
föður sínum sem stritar hvern dag fyrir brauði sínu. Í heimi þar
sem tilvistin snýst um að komast af verða lygar að daglegu
brauði og allt eða að minnsta kosti fl est er lagt í sölurnar fyrir
vonina um betra líf. Verkamaður grefur allan daginn ofan í kol-
dimmri námu – fi nni einhver eðalstein sem er einhvers virði
reynir hann sem mest hann má að eiga hann, selja hjá Indverj-
anum og kaupa sér almennilega máltíð og kannski vændis-
konu.
Sagan gerist að mestu leyti í austanverðri Afríku og lýsir vel
lífsbaráttu fólks í þessu gjöfula landi sem er þó gegnsýrt af
stéttaskiptingu og spillingu. Þessi saga snerti mig djúpt, er
lystavel skrifuð og frábærlega þýdd. Stíllinn er fumlaus og
frísklegur og persónurnar allar vel skapaðar og áhugaverðar,
hver á sinn hátt. Þessi bók er átakanlegt og ævintýralegt
ferðalag um heima sem standa okkur svo fj arri, en þó nærri og
er góð áminning um hversu misskipt gæðunum er í heiminum
og fær mann til að velta fyrir sér hvers vegna það sé og hversu
langt maður væri tilbúinn að ganga í von um mannsæmandi líf.
Tinna Sigurðardóttir er með B.A. próf í íslensku og M.A. próf í talmeinafræði og starfar sem
talmeinafræðingur hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts auk þess að sinna fj artalþjálfun í hlutastarfi í
gegnum sprotafyrirtækið Tröppu ehf. Hún á þrjú börn á grunnskólaaldri og nýtur þess að lesa sér til
yndis þá sjaldan að færi gefst.