Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.02.2016, Blaðsíða 43

Læknablaðið - 01.02.2016, Blaðsíða 43
LÆKNAblaðið 2016/102 103 M I N N I N G A R O R Ð Það voru skelfileg tíðindi að frétta af óvæntu fráfalli góðs vinar og náins sam­ starfsfélaga okkar beggja, Guðmundar Klemenzsonar, þann 8. desember síðast­ liðinn. Gummi Klem, eins og við kölluðum hann, mun skilja eftir sig stórt skarð á svæfinga­ og gjörgæsludeild Landspítala, og víðar, enda með eindæmum fær læknir og farsæll. Gummi var náinn samstarfs­ maður okkar til fjölda ára og bar aldrei skugga á það samstarf. Hann var einnig góður vinur og mátti ekkert aumt sjá. Allt­ af tilbúinn að rétta fram hjálparhönd og leggja sitt af mörkum, bæði á spítalanum og utan hans. Traustari samstarfsmann er varla hægt að hugsa sér. Einn helsti styrkur hans var hversu rólegur og og yfirvegaður hann var við erfiðar aðstæður, til dæmis þegar mikið gekk á í flóknum hjartaaðgerðum. Þetta er eitthvað sem fjölmargir læknar á skurðsviði Landspítala mátu mikils og var oft leitað til hans eftir ráðum við erfiðari tilfelli. Gummi var sérlega þægilegur í sam­ vinnu og vinsæll, bæði meðal lækna og annars starfsfólks á skurðstofum og gjör­ gæsludeildum spítalans. Hann var frábær námsmaður og var með best menntuðu læknum á Íslandi. Eftir stúdentspróf við Menntaskólann í Reykjavík og læknanám við læknadeild HÍ lagði hann stund á krefjandi framhaldsnám í svæfinga­ og gjörgæslulækningum við Madison­háskóla í Bandaríkjunum. Hann stundaði síðan frekara framhaldsnám í hjartasvæfingum við hina virtu Mayo Clinic í Rochester í Bandaríkjunum. Árið 2003 fékk hann starf við svæfinga­ og gjörgæsludeild Land­ spítala við Hringbraut. Þar sinnti hann til dauðadags störfum á bæði gjörgæsludeild og skurðstofugangi, þó sérstaklega við opnar hjarta­ og lungnaaðgerðir, en einnig lagði hann sig sérstaklega eftir svæfingum á fæðinga­ og kvennadeild spítalans. Stuttu fyrir andlát sitt átti Gummi þátt í stofnun Klíníkkurinnar í Ármúla og ætlaði hann sér að starfa á þeim vettvangi í hlutastarfi meðfram störfum á Landspít­ ala. Gummi var skarpgreindur og sérlega vel lesinn – alltaf með nýjustu greinar í New England og fleiri vísindaritum á hreinu, og ekki bara á sínu sérsviði heldur einnig í öðrum sérgreinum læknisfræði. En Gummi kom ekki bara við sögu á spítalanum heldur einnig við önnur störf sem tengdust sérgreinum okkar, til dæmis kom hann oft að málþingum á Læknadög­ um og skipulagningu fjölmargra árlegra vísindaþinga sem Félag svæfinga­ og gjör­ gæslulækna og Skurðlæknafélag Íslands stóðu að í sameiningu. Þar var framlag hans mikilvægt og óeigingjarnt starf hans fyrir þessi félög er ómetanlegt. Gummi var líka mikill húmoristi og hárbeittra og oft meinfyndinna athugasemda hans á morgunfundum verður sárt saknað. Hann var frábær kennari og unglæknar og læknanemar munu sakna ötuls leiðbein­ anda. Gummi gat haft sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og ekki vorum við alltaf sammála í pólitík. En hann bar þó alltaf virðingu fyrir skoðunum annarra og gaf sér tíma til að hlusta. Það er ljóst að íslensk læknastétt og Landspítali hafa misst einn af sínum bestu félögum. Missir nánustu ættingja er þó mestur og vottum við þeim samúð okkar. Tómas Guðbjartsson og Kári Hreinsson Minningarorð um Guðmund Klemenzson M yn d: Þ or ke ll Þo rk el ss on

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.