Morgunblaðið - 15.12.2016, Blaðsíða 71
MINNINGAR 71
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. DESEMBER 2016
Árið 1977 gerðu kennaranemar
„menningarbyltingu“, höfnuðu
ítroðsluaðferðum og kröfðust
sjálfræðis. Loftur lagðist á sveif
með nemendum og fór fyrir um-
bótasinnuðum kennurum. Breyt-
ingar voru gerðar á náminu, og af-
raksturinn varð samþætting náms
og kennslu, þemað var: Skóli og
samfélag. Ég var við framhalds-
nám erlendis á þessum tíma en
deildi vinnuherbergi með Lofti
þess á milli og fékk því að fylgjast
með skrifum bókarinnar Bernska,
ungdómur og uppeldi á einveldis-
öld. Sú bók er merkilegt braut-
ryðjandaverk á sviði íslenskrar fé-
lagssögu og loksins væntanleg í
enskri þýðingu. Loftur hafði hrif-
ist af hreyfingu franskra sagn-
fræðinga og félagsfræðinga sem
kenndu sig við „annales“, en þeir
hvöttu til samtals og samvinnu
ólíkra fræðigreina, meðal annars
félagsfræði og sagnfræði, og ber
bókin þessa merki. Loftur skráði
gögn sín upp úr kirkjubókum og
sóknarmannatölum á pappaspjöld
í ýmsum litum, spurði sjálfan sig
stundum spurninga upphátt, og
skrifaði bókina með blýanti, milli
þess sem hann sinnti öðrum
skyldustörfum, ekki síst okkur
kennurum og nemendum sem vor-
um að glíma við þemað.
Um líkt leyti og Bernskubókin
kom út var stöðu Lofts breytt og
hann ráðinn dósent í sagnfræði.
Hann hellti sér heils hugar út í
sagnfræðina og við unnum minna
saman dags daglega. Vináttan við
Loft og Hönnu Kristínu dafnaði í
gleði og sorg og hefur fleytti mér
yfir mörg boðaföll lífsins. Ég
sakna Lofts af alhug og verð hon-
um ávallt þakklát fyrir að vera
traustur vinur og farsæll örlaga-
valdur í ævintýri lífs míns.
Dóra S. Bjarnason.
Við viljum minnast góðvinar
okkar, Lofts Guttormssonar,
nokkrum orðum. Leiðir okkar
lágu fyrst saman snemma á átt-
unda áratug síðustu aldar í skóla-
rannsóknadeild menntamálaráðu-
neytisins. Verkefni okkar var að
endurskoða námskrá, námsefni og
kennsluhætti í átthagafræði,
landafræði, sögu og félagsfræði
undir merkjum nýrrar náms-
greinar sem hlaut heitið sam-
félagsfræði. Að þessu verkefni
unnum við saman um tíu ára skeið
ásamt góðum hópi sem gekk undir
heitinu samfélagsfræðihópurinn. Í
hópnum voru framsæknir kennar-
ar, skólastjórnendur og sérfræð-
ingar fyrir allar samfélagsgrein-
arnar. Loftur hafði mjög mótandi
áhrif á þetta starf.
Loftur vakti strax athygli okk-
ar vegna mikillar þekkingar sinn-
ar og skarps skilnings á sögu og
samfélagi, en áhugasvið hans inn-
an sögunnar var ekki síst fé-
lagssaga. Loftur hafði á þessum
tíma verið ráðinn að Kennaraskól-
anum og síðar Kennaraháskólan-
um og vann þar við kennslu og
þróun kennaramenntunar. Ráð-
gjöf hans beindist því hvort
tveggja að sögunni og skólakerf-
inu. Hugsjón hans var að kennslu-
aðferðir í sögu tækju mið af vinnu-
brögðum sagnfræðinga; að
nemendur ynnu með raunveruleg-
ar heimildir, sem þeir greindu og
túlkuðu og drægju ályktanir af, í
stað þess að sitja óvirkir undir ein-
stefnumiðlun kennara sinna.
Loftur var einstakur sam-
starfsmaður. Við nutum ekki að-
eins þekkingar hans á sagnfræði
því hann var víðlesinn á mörgum
öðrum sviðum og að segja má
áhugamaður um alla hluti, ekki
síst náttúru- og umhverfismál,
menningu og tungu. Þegar við
rifjum upp fyrstu kynni okkar
minnumst við þess að við urðum
strax snortnir af kostum hans;
íhygli hans, brennandi og smit-
andi áhuga, virðingunni sem hann
jafnan bar fyrir sjónarmiðum ann-
arra, sannfæringarkraftinum og
eldmóðnum. Loftur var gagnrýn-
inn, óþreytandi hugsjónamaður
sem yndi var að ræða við og starfa
með.
Kynnin við Loft hafa verið okk-
ur mikils virði. Dýrmætar eru
stundirnar sem við höfum rætt og
hugsað saman, sem og aðrar sem
við höfum átt með þeim Hönnu
Kristínu og Lofti í Hvassaleitinu.
Þar höfum við notið einstakrar
gestrisni þeirra hjóna í góðra vina
hópi og samræðna þar sem smá og
stór mál hafa verið krufin. Sam-
starf okkar við ritun og útgáfu er
okkur einnig hugstætt. Þá nutum
við ekki aðeins samstarfs við
fræðimann heldur einnig mál-
vöndunarmann því Loftur var öðr-
um fremri við að orða flóknar hug-
myndir með skiljanlegum hætti.
Við, Monika og Lilja sendum
Hönnu Kristínu, börnum og
barnabörnum okkar dýpstu sam-
úðarkveðjur. Við minnumst vinar
og mikillar manneskju í sorg en
um leið með þakklæti fyrir gef-
andi kynni.
Wolfgang Edelstein,
Ingvar Sigurgeirsson.
Aðrir menn kunna betur en ég
að gera grein fyrir margskonar af-
rekum Lofts Guttormssonar í
fræðum hans, framlagi hans til
uppeldis- og menntasögu, kirkju-
sögu og fleiri sviða. En hvort sem
talið barst að þeim hlutum eða
nauðsynjamálum mannlegs félags
á okkar dögum og í framtíðinni
hlaut viðmælandi Lofts að hrífast
af því hve vel honum tókst jafnan
að sameina þekkingu, yfirsýn og
frjóa ályktunargáfu. Komast að
kjarna hvers máls. Ég spurði
hann eitt sinn um þær bylgjur sem
rísa í sagnfræði og verða að freist-
andi tísku. Loftur sá ýmislegt gott
við þær, þær kæmu hver um sig
með sitthvað nýtt að borði. En,
sagði hann, „þegar á líður fer
manni að ofbjóða sú þröngsýni
sem þessar bylgjur bera með sér
um leið. Ákafi þeirra að afskrifa
allt sem fyrir var“. Hann gaf lítið
fyrir þá hvinleiðu stýringu á hug-
myndamarkaði „sem stillir allt inn
á eitt á hverjum tíma“. Eitt árið,
sagði hann, er sem engin félags-
vísindi séu til án marxisma,
skömmu síðar er sem Marx karl-
inn hafi aldrei verið til. Hann var
frjáls undan vitleysum.
Svo vildi til að Loftur og Hanna
Kristín byrjuðu sinn farsæla bú-
skap í lítilli risíbúð sem ég hafði þá
fest mér til að hýsa mína litlu hálf-
rússnesku fjölskyldu. Við vorum
báðir á heimleið, hvor til sinna
verka. Og áttum upp frá því ótal
margt sameiginlegt í hugðarefn-
um jafnt sem þeirri list að gera sér
dagamun á góðra vina fundum.
Við töluðum margt saman um
lands og heims gagn og nauðsynj-
ar, um töfra þess að ná áttum í
horfnum tíma, um það hvaða leiðir
væru enn færar í þeirri vinstri-
mennsku sem vill ná árangri í því
að gera jörð okkar að betri stað.
Við fórum líka ásamt konum okk-
ar, Lenu heitinni og Hönnu Krist-
ínu, í góðar ferðir til Vestfjarða,
Norðurlands og Austurlands.
Einu sinni gengum við upp á Snæ-
fell, horfðum yfir hálft landið í
miklu sólskini og komum niður
saman betri menn.
Góður vinur verður fyrr en var-
ir svo sjálfsagður hluti af lífi okkar
að við munum of sjaldan að hann
er eitt af þeim hljóðlátu undrum
sem gera veröldina byggilega. Nú
þegar við kveðjum Loft Guttorms-
son rifjast upp fyrir mér kvæði
rússneska skáldsins Zhúkovskijs
um þá „kæru förunauta“ sem
glæddu heim okkar lífi með nær-
veru sinni, en það endar á þessum
línum:
Segðu ekki hryggur: þeir eru
horfnir, heldur með þökkum: þeir
voru til.
Árni J. Bergmann.
Loftur nam sagnfræði í Frakk-
landi, fyrst við háskólann í Aix-en-
Provence þar sem hann sat við fót-
skör Georges Duby, eins áhrifa-
mesta sagnfræðings Frakka eftir
stríð. Þaðan færði hann sig upp til
Parísar þar sem hann var í návígi
við hina gróskumiklu frönsku
sagnfræði sem m.a. er kunn af því
að hafa fært athyglina af kóngum
og fyrirfólki yfir á lífshætti al-
mennings. Um þau efni fjallaði
Loftur í ræðu og riti og ber þar
hæst verkið „Bernska, ungdómur
og uppeldi á einveldisöld“ frá
árinu 1983, brautryðjendaverk í
beitingu franska skólans á íslensk
efni. En áður hafði hann þýtt stór-
virki Alberts Mathiez um frönsku
stjórnarbyltinguna sem út kom í
tveimur bindum árin 1972 og 1973.
Leiðir okkar og Lofts lágu fljót-
lega saman eftir heimkomu frá
námi sumarið 7́6, en Hrafnhildur
og hann voru alla tíð samkennarar
við Kennaraháskóla Íslands. Og
ekki dró úr samgangi eftir að við
fluttum nánast í túnfótinn hjá
þeim hjónum í Hvassaleitinu.
Fáir stóðu þeim Lofti og Hönnu
á sporði í hlutverki gestgjafans og
víðfrægar voru áramótaveislurnar
í Hvassaleiti 83 þar sem stefnt var
saman fjölmennum vinahópi
þeirra hjóna – tilhlökkunarefni
allt árið. En það þurfti ekki
stórhátíðir til, líka þegar maður
leit inn beint af götunni voru
gjarnan drifin fram rauðvín og
ostar og tekið til við samræður.
Með öðru sem einkenndi þau hjón
var ástríða fyrir kvikmyndalist,
þau voru „sínefílar“ Íslands nr.
eitt og tvö og létu aldrei góða
mynd fram hjá sér fara en lögðust
út ef kvikmyndahátíðir voru í boði.
Mikið sem var gaman þegar við
mæltum okkur mót í Suður-
Frakklandi vorið 2010 með píla-
grímsför til Aix á námsmanna-
slóðir Lofts með ökuferðum um
þær sælu sveitir. Það var upplifun
að vera með Lofti á franskri
grund, hve fyrirhafnarlaust hann
féll inn í bæjarbraginn og hið höfð-
inglega fas þessa mikla jafnrétt-
issinna gerði að verkum að alltaf
var reikningurinn færður honum,
hvar sem við settumst niður.
Loftur var glæsimenni á velli,
grannur og íþróttamannslega vax-
inn, vaskur í framgöngu að hverju
sem gekk. Við nágrannar hans
getum borið vitni um að hann var
ævinlega kominn úr að ofan óðar
og sólar naut við, snar í snúning-
um hvort sem var við sláttuvél,
klippur eða uppkomu sólhlífar. Í
einkalífi var hann ástríkur fjöl-
skyldufaðir og ástir þeirra hjóna
heitar, hún svört á brún og brá,
hann glókollur, hún skapheit og
ör, hann yfirvegaður og kíminn.
Enda voru samræður oft fjörugar
að frönskum hætti.
Það er merkilegt eins og siða-
skiptin og Lúther voru ríkulegt
viðfangsefni Lofts hin síðari ár,
samanber stórvirkið „Frá siða-
skiptum til upplýsingar“, þá minn-
umst við þess ekki að hafa orðið
vör við trúhneigð hjá honum né
trúariðkun neins konar. En svo á
hinn bóginn var vandfundinn sá
maður sem starfaði jafn heilshug-
ar og ósjálfrátt í nánast frum-
kristnum anda af óþreytandi
greiðasemi og umhyggju fyrir
þeim sem voru hjálpar þurfi.
„Það syrtir að er sumir kveðja“
og vinahópurinn er fjölmennur
sem nú drúpir höfði. Gönguhóp-
urinn sem gekk vikulega um
Öskjuhlíðarhálendið saknar vinar
í stað. Höggið kom óvænt og
snöggt í júlí síðastliðnum og sárt
að sjá þennan vaska mann fjötr-
aðan af veikindum sínum. Nú hafa
þeir fjötrar verið leystir og Loftur
er aftur okkar á meðal eins og við
munum aldrei gleyma honum.
Pétur Gunnarsson og Hrafn-
hildur Ragnarsdóttir.
Kveðja frá Sögufélagi
Loftur Guttormsson var forseti
Sögufélags á árunum 2001-2005.
Hann hafði áður verið gjaldkeri
félagsins frá 1988, eða í 13 ár.
Hann lagði drjúgan skerf til upp-
byggingar félagsins á þeim 17 ár-
um sem hann lagði þeim til starfs-
krafta sína. Loftur var forseti
félagsins á aldarafmæli þess árið
2002. Þá voru hátíðarhöld í af-
greiðslu félagsins Fischersundi,
félagsins var minnst í tímaritinu
Sögu auk þess sem vefur var opn-
aður.
Útgáfustarfið á þessum árum
var að eflast og ýmsum áföngum
var náð. Tímaritið Saga hafði ver-
ið gefið út síðan 1949. Árið 1995
bættist tímaritið Ný saga við flór-
una, en árið 2002 var ákveðið að í
stað þess að gefa út tvö tímarit
kæmi Saga út tvisvar á ári.
Í útgáfumálum var lögð áhersla
á að sinna heimildaútgáfum, en
þær höfðu verið ákveðinn kjarni í
starfsemi félagsins allt frá fyrstu
árum þess. Útgáfu Alþingisbók-
anna var lokið árið 1990, haldið
var áfram við útgáfu sýslu- og
sóknalýsinga og þýðingar ferða-
lýsinga fyrri alda voru gefnar út í
Safni Sögufélags. Að auki komu
ýmsar aðrar bækur út. Árið 2002
hóf félagið þátttöku í íslensku
söguþingunum og hefur tekið þátt
í þeim síðan. Stærsta verkefnið á
þessu tímabili var þó án efa að
gefa út Íslandssögu fyrir almenn-
ing í tveimur bindum, annars veg-
ar Íslandssögu til okkar daga og
hins vegar Íslandssögu á 20. öld.
Þar var farið inn á nýjar brautir í
útgáfumálum félagsins.
Loftur tók virkan þátt í fræði-
legri umræðu um sagnfræði á
starfsferli sínum, sem og í fé-
lagsstarfi sagnfræðinga, hvort
heldur var á fundum, ráðstefnum
eða í skrifum. Rit hans og fræði-
störf höfðu alþjóðlega skírskotun
og hann var frumkvöðull í að
byggja upp félagssögurannsóknir
á Íslandi. Mikill fengur var fyrir
Sögufélag að búa að starfskröft-
um hans í uppbyggingarstarfi fé-
lagsins.
Margs er að minnast og á Sögu-
félag Lofti margt að þakka fyrir
áralöng störf hans í þágu félagsins
og sendir Hönnu Kristínu og öðr-
um aðstandendum innilegustu
samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Sögufélags,
Hrefna Róbertsdóttir forseti.
Ég kynntist Lofti Guttorms-
syni þegar ég hóf nám við Kenn-
araháskóla Íslands snemma á ní-
unda áratugnum. Loftur hafði þá
átt ríkan þátt í uppbyggingu
kennaranáms á háskólastigi og
verið einn af brautryðjendum í
mótun samfélagsgreinamenntun-
ar á grunnskólastigi. Það er til
vitnis um áhuga hans á mennta-
málum að fyrir ári birtist grein
eftir hann í tímaritinu Uppeldi og
menntun þar sem hann fjallar um
samstarf kennaranema og kenn-
ara í því umbótaferli sem spratt
upp úr átökum um kennaranám
eftir að það hafði verið fært á há-
skólastig.
Samræðulist var aðalsmerki
Lofts sem kennara og úr kennara-
náminu er hann mér sérstaklega
minnisstæður fyrir umræður um
hin yfirlýstu en ekki síður hin
duldu markmið skólans í sam-
félaginu. Leiðir okkar Lofts lágu
aftur saman á námskeiði um
frönsku annálahreyfinguna en
hann átti ríkan þátt í því að ég
ákvað að leggja félagssöguna fyrir
mig.
Loftur var mikilvirkur fræði-
maður. Framan af háskólakenn-
araferlinum lagði hann áherslu á
umbætur í kennslumálum en sem
sagnfræðingur blómstraði hann
ekki fyrr en eftir 1980. Engu að
síður átti hann óvenju farsælan
fræðimannsferil og var brautryðj-
andi á ýmsum sviðum félagssög-
unnar hér á landi og erlendis. Árið
1979 hóf hann rannsóknarsamstaf
um sögu læsis og fór þar fyrir hópi
norrænna fræðimanna sem hag-
nýttu kirkjubækur í rannsóknum
á sögu uppeldis og menntunar.
Rannsóknir tengdar fjölskyldu-
sögu fylgdu í kjölfarið. Eitt af
grundvallarritum Lofts frá þess-
um tíma var Bernska, ungdómur
og uppeldi á einveldisöld en sú bók
kemur um þessar mundir út í
enskri þýðingu. Þar gerir Loftur
grein fyrir helstu rannsóknum á
sviði fjölskyldusögu og mátar þær
við íslenskar aðstæður. Síðan þá
hefur hann leitt fjölmörg rann-
sóknarverkefni og er höfundur og
ritstjóri ýmissa grundvallarrita í
íslenskri sagnfræði. Nægir þar að
nefna Sögu kristni á Íslandi og Al-
menningsfræðslu á Íslandi.
Þegar ég var á lokaári í BA-
námi í sagnfræði komu þeir Loft-
ur og Gísli Ágúst Gunnlaugsson
heitinn að máli við mig og buðu
mér að taka þátt í norrænu rann-
sóknarverkefni um þróun fjöl-
skyldu- og heimilisgerða í norræn-
um strandbyggðum. Fyrir ungan
fræðimann voru það mikil forrétt-
indi að fá að starfa náið með þess-
um tveimur sagnfræðingum. Gísli
Ágúst féll frá langt um aldur fram
en samstarf okkar Lofts hefur allt
frá þessum tíma verið afar far-
sælt; við höfum deilt mörgum
rannsóknarverkefnum, skrifað
saman greinar og sótt ráðstefnur.
Þau eru ófá bréfin sem fóru okkar
á milli á meðan ég dvaldi erlendis í
doktorsnámi og með tímanum
eignaðist ég í Lofti náinn og góðan
vin. Mér eru afar minnisstæð öll
heimboðin sem ég hef þegið hjá
Lofti og Hönnu Kristínu en sam-
rýndari hjónum hef ég ekki
kynnst.
Nýlega greindist Loftur með
illvígan sjúkdóm og frá upphafi
var ljóst að sjúkdómurinn myndi
draga hann til dauða á stuttum
tíma. Hann tókst á við sjúkdóminn
af æðruleysi og hélt ótrauður
áfram rannsóknum sínum og nú
að honum látnum bíða nokkur rit
hans útgáfu. Ég hitti Loft síðast
nokkrum dögum áður en hann féll
frá. Þrátt fyrir hin erfiðu veikindi
gátum við rætt saman um sam-
starf okkar og vináttuna sem við
deildum. Þakklæti er mér ofarlega
í huga nú þegar ég kveð góðan vin
og samverkamann til margra ára.
Ég sendi Hönnu Kristínu, Hrafni,
Arnaldi, Hönnu og fjölskyldum
þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Ólöf Garðarsdóttir.
Mig langar til að minnast leið-
beinanda míns í sagnfræði í
nokkrum orðum. Loftur var
lengst af prófessor við Kenn-
araháskólann en var um fimm ára
skeið prófessor í sagnfræði við
Háskóla Íslands, þar sem ég
kynntist honum. Má segja að þau
námskeið sem hann hélt í MA-
náminu hafi endurspeglað vel
áhugasvið hans í sagnfræði, en
þau fjölluðu um barnadauða og
uppeldi á Íslandi, fjölskyldu- og
félagssögu, almenningsfræðslu og
skólahald. Loftur skilur eftir sig
fjölda merkra greina og rita á sviði
félagssögu og lýðfræði. Það duld-
ist engum að hann hafði unun af
því að kenna og tókst með miklum
ágætum að miðla efninu til nem-
enda sinna. Eftir að hafa sótt
nokkur námskeið hjá Lofti lá
beint við að skrifa MA-ritgerð hjá
honum. Dráttur varð hins vegar á
að ég næði að klára vegna annarra
starfa og var Loft tekið að lengja
eftir námslokum. Haustið 2015
sendi hann mér línu og sagði að nú
væri að hrökkva eða stökkva með
ritgerðina. Upphófst mikil vinna
við handritalestur og skrif og afar
ánægjuleg samskipti við Loft.
Hann fylgdist grannt með fram-
vindunni og einlægur áhugi hans á
rannsókninni skein í gegn. Sem
leiðbeinandi var Loftur hvetjandi
og hlýr í viðmóti en einnig afar ná-
kvæmur og kröfuharður. Það var
mikið reiðarslag þegar Loftur
greindist með illvígt mein síðast-
liðið sumar þegar langt var liðið á
samstarf okkar. Þrátt fyrir erfið
veikindi tók hann ekki annað í mál
en að ljúka hlutverki sínu sem
leiðbeinandi og jafnframt síðasta
embættisverki sínu við Háskóla
Íslands. Ég er afar þakklát Lofti
fyrir hvatninguna og að hafa notið
leiðsagnar hans. Ég vil votta
Hönnu Kristínu og fjölskyldu
hans mína dýpstu samúð.
Kristrún Halla Helgadóttir.
Lofti og Hönnu kynntumst við
þegar við fluttum í Hvassaleitið
fyrir hartnær tuttugu árum. Höfð-
um vitað af Lofti áður enda mað-
urinn gefið út bækur um sögu og
þjóðfélagsmál. Í allri umræðu við
Loft, og Hönnu, urðum við þess
fljótt vör að þau létu sig samfélag
og umhverfi varða á þann hátt að
okkur hefur ávallt fundist það til
eftirbreytni. Grannafundir í garði
eða stofu eða á plani fyrir utan,
gleðilegir og gefandi. Þeir fundir
takmörkuðust ekki við Hvassaleit-
ið því við urðum fljótt grannar í
sveitinni líka. Þau byggðu sér góð-
an bústað í landi Stóru Merkur
undir Eyjafjöllum og þaðan er
ekki nema stuttur gangur til okk-
ar í Syðstu Mörk. Allt er það
rammað inn af náttúru sem lætur
engan ósnortinn, neðan hlíða er
Markarfljót, ofan við er Eyja-
fjallajökull, og í norðri og suðri
Fljótshlíð og Eyjar. Að Loftur
hyrfi okkur og frá öllu þessu eins
fljótt og raun ber vitni óraði engan
fyrir. Ellimörk sáust enda ekki á
honum; léttur á fæti, gangandi og
hjólandi. Unglingur í okkar huga
þrátt fyrir árin 78. Í hugsun og
samræðum var Loftur ekki síður
kvikur, en þar fóru saman húmor
og alvara, þroski, þekking og gáf-
ur. Góður granni er genginn; við
þökkum Lofti góða fundi og sam-
veru. Vottum þér Hanna og þínu
fólki samúð.
Haukur Hjaltason,
Þóra Steingrímsdóttir.
Í dag kveðjum við elskulegan
samstarfsmann, Loft Guttorms-
son, prófessor emeritus við
Menntavísindasvið Háskóla Ís-
lands.
Loftur starfaði að menntun
kennara um fjögurra áratuga
skeið og er framlag hans til kenn-
aramenntunar í landinu ómetan-
legt. Hann var virkur þátttakandi
í þeim breytingum sem urðu á
menntun kennara, frá því að vera
fjögurra ára framhaldsskólanám
við Kennaraskólann, þá B.Ed.-
nám við Kennaraháskólann og
loks fimm ára háskólanám til
meistaragráðu innan Menntavís-
indasviðs HÍ.
Framlag Lofts til menntamála
þjóðarinnar var einnig á sviði
námsefnis og kennsluhátta í
grunnskólum. Á áttunda áratug
síðustu aldar gegndi hann lykil-
hlutverki við mótun nýrrar náms-
greinar, samfélagsfræði, þar sem
áhersla var lögð á samþættingu
námsgreina.
Loftur Guttormsson gegndi
ótal trúnaðarstörfum innan Kenn-
araháskólans og Menntavísinda-
sviðs og var mikilvirkur í rann-
sóknum og ritstörfum. Hann var
ritstjóri tímaritsins Uppeldi og
menntun um árabil og veitti
menntarannsóknum brautargengi
með jákvæðum stuðningi við höf-
unda. Hann var áhrifamikill rann-
sakandi á sviði fjölskyldu- og
fræðslusögu á innlendum og al-
þjóðlegum vettvangi. Loftur starf-
aði sem prófessor emeritus við
Menntavísindasvið Háskóla Ís-
lands allt til dauðadags.
Loftur var í senn náttúrubarn
og heimsmaður. Hann ólst upp í
mesta skóglendi landsins, Hall-
ormsstað, og hafði ætíð sterk
tengsl við heimahagana og nátt-
úru landsins. En hann var einnig
heimsborgari sem hélt ungur til
náms til stórborgarinnar Parísar.
Þar dvaldi hann á miklum um-
brotatímum, nam sagnfræði og
félagsfræði við Sorbonne-háskól-
ann og upplifði róttækar sam-
félagsbreytingar sjöunda áratug-
arins.
Við sem störfuðum með Lofti
minnumst hans sem einstaks
prúðmennis. Hann hafði víðtæka
þekkingu, reynslu og samfélags-
sýn sem hann af hófsemi og hóg-
vær miðlaði þeim sem yngri voru.
Hann hafði greinandi og gagn-
rýna afstöðu í fræðum sínum, en
hafði lag á leita lausna og byggja
upp á jákvæðan hátt.
Við minnumst með hlýhug og
söknuði góðs félaga og sendum
Hönnu Kristínu, Hrafni, Arnaldi,
Hönnu og fjölskyldum þeirra inni-
legar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd samstarfsfólks við
Menntavísindasvið Háskóla Ís-
lands,
Jóhanna Einarsdóttir.
Fleiri minningargreinar
um Loft Guttormsson bíða
birtingar og munu birtast í
blaðinu næstu daga.