Morgunblaðið - 15.12.2016, Blaðsíða 66
66
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. DESEMBER 2016
Gulltryggðu jólagleðina í
Ekkert jólastress, nú getur þú
verslað í nýrri glæsilegri
netverslun okkar carat.is
Sendum frítt um land allt.
Gull, hvítagull, rauðagull, rósagull, platína, með eða án demanta.
CARAT Haukur gullsmiður O Hátúni 6a O s. 577 7740 O carat.is
BÆKUR
Margir þekkja tilfinn-inguna góðu sem þvífylgir að fá gæludýr inná heimili sitt. Það er
manninum eðlislægt að finna hlýju í
sinn garð, en ekki síður að gefa af
sér hlýju, kærleika eða hvaða orð
svo sem við notum yfir þessa löngun.
Þegar börnin eru vaxin úr grasi,
a.m.k. orðin sjálfstæð og hændari að
jafnöldrum og hinum spennandi um-
heimi en foreldrunum, getur gælu-
dýr verið eins konar sárabót fyrir
það tóm sem myndast. Hver sem
hvatinn var í tilviki Hallgríms Helga-
sonar hefur hann sagt frá því að tík-
in Lukka hafi komið inn í líf hans
fyrir þremur árum, og áhrifin sem
nýi íbúi heimilisins hafði séu m.a.
þau að skáldið sjái umhverfi sitt á
aðeins annan hátt; í það minnsta í
gönguferðum með Lukku, og ljóð,
óbundin, verði ósjaldan til. Og þau
séu nú komin út í bókinni Lukka.
Á fyrstu síðu er tíkin kynnt til
sögunnar; fædd í Árbænum í janúar,
fyrst af sjö systkinum og það sagt
ástæða nafngiftarinnar „Lucky“,
sem Hallgrímur íslenskaði er hund-
urinn komst í hans eigu þremur
mánuðum síðar. Og útlitslýsingin er
svört með hvítar loppur og rauða ól.
Á höfundarmynd bókarinnar er
skáldið svartklætt með rauðan trefil.
Tekur þarna tvífaraminnið í sína
þjónustu, því varla er þetta tilviljun.
Svo hefst tólf mánaða tímabil
gönguferðanna, í október, hjá far-
fuglum sem leita á heitari slóðir.
Ljóðin í fyrsta fjórðungi bókarinnar
eru bundin við höfuðborgarsvæðið,
og byrja nánast undantekningar-
laust uppi í háloftum– hjá fuglum,
skýjum, sólinni – eða bara uppi í tré.
Ef ekki í blábyrjun þá er ljóðmæl-
andi kominn þangað í línu þrjú eða
fjögur, og einatt fallegum línum. En
viðsnúningur verður á síðu 32, þegar
Lukka fylgir eðli sínu:
Hægðir annarra
hennar helsta áhugamál
Þefar þær uppi
metur og vegur
[….] Ég bíð eins og illa teiknaður
eiginmaður með hatt
á eftirstríðsára –skopmynd
úti fyrir lífsstykkjabúð í London
Í öðru ljóði verður enn ljósara að
hundurinn ræður för, eins og líkast
kann bestri lukku að stýra þegar
þessi besti vinur mannsins er viðr-
aður. Skottinu er líkt við veldis-
sprota, „eða trommukjuði alheims-
trommu / taktur lífsins // Jæja / Ég
sigli út í daginn á tvílyftu steinhúsi /
knúnu hundskotti“ (48).
Sögusviðið hefur þarna víkkað út;
tvíeykið gengur mikið um Hrísey, en
fleiri staðir heimsins lauma sér þó
inn í ljóðin: París, Perth, Siglu-
fjörður og Arkansas – jafnvel Malí.
Sagt er bæði frá stöðum og fólki sem
verða á vegi þeirra, og sem fyrr
blandast lýrískar lýsingar við nokk-
uð groddalegar. HH og Lukka mæta
t.d. öðrum hundaeigendum, fyrrver-
andi ráðherra í hlaupaskóm með
göngustaf „á hraða ljóðsins“ og stór-
stígri stúlku sem gengur „þvert yfir
bensínstöðvarplanið / Rauðhærð á
þykkbotna skóm / með þykk titrandi
læri / Í þröngum svörtum buxum /
með SMS-bros á vör // Og heldur á
símanum eins og blómvendi“ (95). Ef
frá er talin nútímatæknin í þessum
línum minna þær á einhvern undar-
legan máta á skáldsöguna ljóðrænu
og margslungnu, Lolitu, þar sem
titilpersónan og Humbert Humbert
eru á nokkuð ólíku ferðalagi en Hall-
grímur og Lukka, en bensínstöðvar
og útlitslýsingar ungra kvenna koma
heldur betur við sögu. Öllu augljós-
ari nikk, a.m.k. meðvitaðri, eru til
annarra skálda en Nabokovs, t.a.m.
Jónasar, Heine og Stefáns Harðar.
Spurning hvað hinum síðastnefnda
fyndist um „sitt“ nikk:
Yfir heiðan morgun
ortu gömlu mennirnir
innanspíraðir og útúrdópaðir
Og fengu verðlaun fyrir
Hvernig fór maður yfir morg-
uninn?
spurði ungur maður
og lagðist brúnaþungur gegn
lyfjabulli í ljóðum (16)
Ungi maðurinn virðist eiga að
vera Hallgrímur á yngri árum. Og
talandi um þann HH þá fer lítið fyrir
hinum pólitíska gagnrýnanda sem
hann hefur getið sér orð fyrir í gegn-
um árin, og jafnvel kallaður á teppið
fyrir hjá ráðherra. Það rétt svo glitt-
ir í gagnrýnistennurnar í 2-3 ljóðum
af þeim rúmlega hundrað sem í bók-
inni eru. Frekar að þjóðin fái pillu en
pólitíkusarnir, eins og í ljóðinu um
konuna sem fór út að viðra stjórn-
málaskoðanir sínar því þær „rúmast
ekki í einbýlishúsinu / þótt risavaxið
sé“. En ljóðmælanda finnst hún samt
ekki gera nóg, enda gerum við ekki
nóg, sbr. lokalínurnar; „Við erum öll
umhverfissinnar / eina mínútu á dag
// Ef veður leyfir“.
Veðurfar og árstíðir eru yfir og
allt um kring, skiljanlega í verki sem
verður til útivið á Íslandi á tólf mán-
uðum. Skáldið leikur sér með and-
stæðurnar dökkt – ljóst í ýmsum út-
færslum; snjóinn, mjöllina,
dagsbirtu, kvið hundsins; andspænis
rökkrinu, myrkrinu og ýmsu svörtu
– kjólum, buxum, kalsvörtum trjá-
berki. En skvettir einnig öðrum lit-
um á ljóðmyndir sínar, þ. á m. í
formi blóðs og hundahlands, og al-
menningssamganga í þessum bítluðu
línum sem sýna hve næmir og skap-
andi fingur halda um pennann/
pensilinn:
Finnskur kuldi í Reykjavík
Og marrar þungt í snjónum
í stjörnum og logni
Allar hreyfingar hægar
dúðaðar
líkt og neðansjávar
Strætó þokast hjá
með kæfðu hljóði
gulur kafbátur
Við lítum upp til yfirborðsins
og sjáum hvar stirnir
á sól og sumar (35)
Hnjóður á sumum ljóðum finnst
mér vera skortur á tálgun. Til að
mynda er stundum óþarfur greinir,
sem gerir ljóðlínur lengri en þær
þurfa að vera og kemur þannig niður
á hrynjandi. Dæmi um þetta sést í
ljóðinu á síðu 74 („Liðin hafa stillt
sér upp í morgunsólinni“ og „Við
göngum til baka / alla leið að hliðar-
línunni“). Einstaka línur hefði einnig
mátt tálga, til dæmis á síðu 55 hefði
dugað: „[…] að reist var við hana
kirkja og skíðalyfta“ í stað „[…] að
búið er að reisa við hana kirkju og
skíðalyftu“. Og á síðu 82 veldur orðið
ó́neitanlegá bara verri hrynjandi
ljóðlínunnar því merkingarlega bæt-
ir það engu við.
Lukkulegt ljóðalabb
Morgunblaðið/Einar Falur
Ljóðhundur Hallgrímur Helgason á gönguferð með Lukku í Hrísey .
Ljóð
Lukka bbbmn
Eftir Hallgrím Helgason. Útgefandi: JPV,
128 bls.
KRISTJÁN HRAFN
GUÐMUNDSSON
BÆKUR