Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Blaðsíða 88
87KUMLIN Í SALTVÍK
með um 100 cm bili yfir allan hólinn, án árangurs. Ekki vottaði fyrir lausu
grjóti í jarðveginum, né hreyfðri mold. Á tveimur stöðum eru rofblettir, en
ekki var að sjá nein ummerki um greftrun þar heldur. Ekki er útilokað að
kuml séu á næstu hólum í grendinni, en það var ekki kannað.
Líkt og gerist með önnur kuml hér á landi er örðugt að fullyrða nokkuð
um hvaða bæ grafreiturinn í Saltvík gæti hafa tilheyrt í heiðni. Kumlin eru
rétt vestan við gamlar götur. Þær liggja til norðurs, nokkurn veginn í beina
stefnu að bænum Saltvík, og til suðurs yfir hæðarbrúnina ofan við hólinn
og suðvestan við hann. Fólkið í gröfunum gæti hafa átt heima á bænum
þar sem Saltvík stendur nú, eða bæjum nær kumlunum sem farnir eru í
eyði. Góðu heilli hafa allar þekktar fornleifar verið skráðar í Saltvík og
að auki hafa tóftaþyrpingarnar í nágrenni kumlateigsins verið athugaðar
lauslega með uppgrefti. Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um upphaf
byggðar í Saltvík, en tóftirnar nærri kumlunum eru a.m.k. afar fornar. Þar
eru m.a. mannvirkjaleifar sem svipar mjög til fornaldarskála, þ.e. aflöng hús,
með bogadregnum langveggjum. Við uppgröft 2003, í eina af tóftunum hjá
Gildrugili og tvær aðrar við Mýrarlág, komu í ljós veggjaleifar og gólflög sem
eru a.m.k. eldri en gjóskulagið V~1477, en í veggtorfi voru landnámslagið
sem og gjóskulag frá 950. Í syðri tóftinni sem grafið var í við Mýrarlág var
jafnframt gjóskulagið 1300 yfir mannvirkjaleifunum. Ljóst er að í Saltvík
hefur verið mikil byggð snemma, sem farið hefur í eyði eftir skamma búsetu,
jafnvel í lok heiðins tíma.11 Kumlateigurinn er um 160-220 m frá þessum
búsetuminjum, en um 650 m frá þeim stað þar sem Saltvíkurbærinn stendur
nú. Með hliðsjón af 120 öðrum stöðum á landinu sem sæmileg vitneskja er
til um, þá er t.d. langtum algengara að kuml séu um 150-250 m frá bæ (30%
(N = 40 staðir), fremur en t.d. 550-650 m (7,5%, N = 10 staðir).
Ekki vitum við í hvaða tilgangi gröfunum var raskað. Hin hefðbunda
skýring er að rótað hafi verið í heiðnum kumlum eftir einhverju fémætu, eða
fyrir forvitnissakir, en eflaust má tína til aðra möguleika. Engar athuganir hafa
verið gerðar á þessu efni, sem þó er ærið hér á landi, því nærri lætur að um ¾
af öllum þekktum kumlum hafi verið raskað með svipuðum hætti. Má vera
að kuml hafi verið opnuð á öllum tímum og af mismunandi ástæðum sem
aldrei verða skýrðar, en eftir stendur að kumlrof virðist hafa verið afskaplega
algengt, í öllum landshlutum og við hverskyns aðstæður. Eftir stendur að afla
vitneskju um hvenær allt þetta rof og rask var stundað, hvort það hafi tíðkast
þegar í heiðnum sið, verið algengt við kristnitöku eða á öðrum tímaskeiðum.
Tímasetning á raskinu gæti m.ö.o. leitt okkur á nýja slóð. Því miður er það
svo í langflestum tilfellum að ókunnugt er með öllu hvenær í fyrndinni það