Morgunblaðið - 25.04.2018, Page 13
sitt með sér þegar hún fór þaðan til
höfuðborgarinnar San Jose.
„Ég lét það liggja og sótti það
þegar ég kom til baka, áður en ég
flaug heim til Íslands,“ segir Hrafn-
hildur sem gisti eina nótt í San Jose
hjá fjölskyldu á vegum sjálfboða-
samtakanna, áður en hún hélt til
fjalla.
„Þau töluðu ekki stakt orð í
ensku, og þótt ég sé með svolítinn
orðaforða í spænsku þá reyndi
þetta mjög á samskiptin. Ég þurfti
að fara með heimilisföðurnum í
verslunarferð til að græja mig upp
fyrir sjálfboðastarfið því það er
töluvert kaldara uppi í fjöllunum.
Þetta var sannarlega ögrandi verk-
efni með miklu handapati, en ég
bjargaði mér.“
Leiðin með rútunni frá San
Jose til fjallaþorpsins Monteverde
var malarvegur og engin vegrið í
miklum halla. „Mér leist ekkert á
blikuna. En ég hefði ekki viljað
missa af þessu, því á þessari leið er
ein mesta náttúrufegurð sem ég hef
augum litið.“
Aldur verður afstæður
Þegar Hrafnhildur kom á
leiðarenda á kaffibýlið reyndust að-
eins vera fjórar konur í sjálfboða-
starfinu, hún sjálf, tvær kanadískar
konur á sjötugsaldri og ein átján
ára stelpa.
„Konurnar sem voru rúmlega
sextugar reyndust vera frábærir
starfsmenn og gáfu öðrum ekk-
ert eftir. Ég vann með þeim
fyrri vikuna og það var ynd-
islegur tími og gaman að
kynnast þeim og þeirra lífi.
Aldur verður afstæður á
svona ferðalagi,“ segir
Hrafnhildur og bætir við
að seinni vikuna hennar
á kaffibýlinu hafi kom-
ið fjórtán sjálfboða-
liðar til viðbótar til
starfa.
Sjálfboðastarfið
segir hún á stundum
hafa verið lík-
amlega erfitt og þó nokkra áskorun.
„Við vorum með sveðjur að höggva
niður tré til að ryðja land. Kaffi-
framleiðsluferlið er 52 skref, frá því
að fræinu er plantað og þar til kaffi
er komið í bolla. Við kynntumst
ólíkustu störfum í þessu ferli og
stundum var þetta létt og fólst í að
reyta illgresi eða sortera kaffibaun-
ir. Þær voru ljósgráar þegar við
fengum þær til flokkunar, en þá er
búið að þurrka þær. Við þurftum að
taka svörtu baunirnar úr og henda
þeim, því þær eru ónýtar. Síðan eru
heilu baunirnar settar í vél sem tek-
ur skelina utan af þeim og eftir það
eru þær ristaðar. Þetta er algerlega
lífrænt kaffi og mikil gæðavara.
Núna á ég erfitt með að drekka
vont kaffi, ég er kannski ekki orðin
kaffisnobb, en ég læt ekki hvað sem
er ofan í mig,“ segir Hrafnhildur og
hlær.
Engin vinnuþrælkun
„Kaffibóndinn og hans
stórfjölskylda reiða sig á
sjálfboðaliða, enda
krefst það mikils
mannafla að handtína
baunirnar. En þetta
var engin vinnuþrælk-
un, við unnum aðeins í
fjóra tíma á dag. Öll
vinnuaðstaða var
mjög frumstæð
og þarna stund-
ar fólk sjálfs-
þurftarbúskap,
er með sínar
hænur og nýtir ávextina sem vaxa á
trjánum. Maturinn hjá þeim var al-
veg rosalega góður, enda allt hrá-
efni svo ferskt,“ segir Hrafnhildur
og bætir við að kaffibýlið hafi verið
frekar afskekkt, en í nokkurra kíló-
metra fjarlægð var þorp.
„Ég labbaði stundum í bæinn,
enda afar falleg leið. Ég notaði
minn frítíma til að lesa uppi í hengi-
rúmi og skoða náttúruna, þarna
voru kýr og kindur allt í kring,
engu líkt. Ég náði gríðarlegri slök-
un, sem var einmitt það sem ég
þurfti. Ég fór ekki í þessa ferð til að
djamma og ég vildi ekki vera í ein-
hverjum lúxus, ég vildi hafa þetta
hrátt og frumstætt. Ég er af þeirri
kynslóð þar sem samfélagsmiðlar
stjórna lífi manns og mig langaði til
að kúpla mig út úr því. Netsamband
var sem betur fer takmarkað þarna
svo ég lagðist í bóklestur, hafði
loksins tíma til að lesa bækur sem
mig hafði lengi langað að lesa, en
aldrei gefið mér tíma. Ég byrjaði
líka að hugleiða og tókst að njóta
þess að vera í núinu.“
Við Íslendingar höldum að
við þurfum að vera best í öllu
Í Hondúras dvaldi Hrafnhildur
á eyjunni Roatan, sem hún segir
vera paradís fyrir kafara, með
kóralrifi og fjölbreyttu lífríki neðan-
sjávar.
„Frænka mín hálfíslensk sem
býr þarna ætlaði aðeins að vera í
þrjá mánuði við köfun, en hún er
ekki enn komin heim, tíu árum síð-
ar. Það er auðvelt að ílengjast
þarna, þó svo að rafmagnið detti út
tvisvar á dag. Frænka mín rekur
þarna sitt eigið fyrirtæki og ég var
farin að velta því fyrir mér að flytja
bara til þessarar eyju. Ég er vissu-
lega búin að ákveða að fara í meist-
aranám, en ég get líka alveg frestað
því, ég er ung og barnlaus. Þær
skyldur sem ég hef sett sjálfri mér
hefur samfélagið ákveðið fyrir mig,
og kannski henta þær mér ekki
núna. Ég hafði það gott þarna, var
með eigin íbúð og kynntist fullt af
fólki, fór út á bátum og var að kafa.
Þarna er enginn að flýta sér, fólk
rólegt og vinalegt. Þegar fólk spyr
mig hvað ég hafi verið að gera í
Hondúras segi ég: Ekkert. Nema
slaka á og njóta lífsins. Þetta ferða-
lag setti hlutina í samhengi fyrir
mig, hvað við Íslendingar og vest-
rænar þjóðir erum drifin áfram af
hugmynd um árangur. Við Íslend-
ingar höldum að við þurfum að vera
best í öllu, best í íþróttum, eiga
mestan pening og svo framvegis.
En á sama tíma erum við heims-
meistarar í að nota þunglyndislyf,
allar að farast úr kvíða og stressi.
Við þurfum að læra að slaka á kröf-
unum. Ég á vini sem fara í lögfræði
eða viðskiptafræði í háskólanum til
að fara í eitthvað. Ég segi: Slakið á,
það er allt í lagi að bíða og fara í
nám seinna þegar maður veit hvað
maður vill.“
Kafað Hrafnhildur í hafdjúpunum, en hún segir köfunina hjá kóralrifinu í Hondúras og fjölskrúðugt dýralífið
neðansjávar eitt af því eftirminnilegasta úr ferðalaginu. Hún hitti meðal annars risastórar sæskjaldbökur.
Kaffivinnsla Hjónin Erci og Oldemar, en þeirra tekjulind er einfaldlega kaffi.Sjálfboðaliði að störfum Hrafnhildur á leið til vinnu með haka á öxl.
Heimasíða sjálfboðasamtak-
anna IVHQ: www.volunteerhq.orgHrafnhildur
með letidýri.
DAGLEGT LÍF 13
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. APRÍL 2018
Ísfell ehf, Óseyrarbraut 28
220 Hafnarfjörður, Sími 5200 500
www.isfell.is, isfell@isfell.is
Höfum á lager mikið úrval af alskyns vinnufatnaði, hífi- og festingabúnaði, krönum og talíum, snjókeðjum,
pökkunarlausnum og fallvarnarbúnaði. Í vörulistanum á www.isfell.is er að
finna ítarlegar upplýsingar um allar vörur.
Vinnufatnaður Hífilausnir Kranar og talíur Snjókeðjur Pökkunarlausnir Fallvarnarbúnaður
Hafðu samband og kynntu þér
vöruúrvalið og þjónustuna!