Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.04.2018, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.04.2018, Blaðsíða 17
efa Norður-Írar árið 1958 en þjóðin stóð saman af 1,4 milljónum manna þegar mótið fór fram í Svíþjóð. Fyrir það fyrsta áttu Norður-Írar aldrei að komast í lokakeppnina enda í riðli með tvö- földum heimsmeisturum Ítala, Portúgal og fleiri hærra skrifuðum þjóðum. En gerðu það samt. Í Svíþjóð beið þeirra annar þrítugur hamar; ríkjandi heimsmeistarar Vestur- Þjóðverjar, Argentínumenn og Tékkar. Öllum að óvörum lögðu Norður-Írar Tékka í fyrsta leiknum með marki frá hinum fjöl- hæfa Wilbur Cush. Eftir það kom skellur gegn Argentínu, 1:3. Jafntefli gegn Vestur- Þjóðverjum í lokaleiknum, 2:2, þýddi að Norður-Írar og Tékkar þurftu að leika auka- leik til að skera úr um það hvor þjóð fylgdi Vestur-Þjóðverjum í átta liða úrslit. Hvorki tíðkaðist að styðjast við niðurstöðu í innbyrð- isviðureignum né markatölu liða á þessum tíma. Þegar hér var komið móts voru Norður- Írar orðnir býsna vígmóðir og enginn eins og markvörðurinn Harry Gregg sem mættur var til Svíþjóðar eftir að hafa lifað af flugslysið hörmulega í München fyrr á árinu, þar sem margir félagar hans í Manchester United týndu lífi. Sjálfur vann Gregg mikið björg- unarafrek þegar hann dró nokkra farþega út úr brennandi braki vélarinnar; þeirra á meðal Bobby Charlton, Dennis Viollet og stórslas- aðan sir Matt Busby. Gregg treysti sér ekki til að leika aukaleik- inn í Málmey vegna meiðsla og enn syrti í ál- inn þegar staðgengill hans, Norman Uprich- ard, sneri sig á ökkla og handarbrotnaði snemma í leiknum. Ekki var þó um annað að ræða en að halda áfram enda varamenn óþekkt stærð á þessum árum. Norður-Írar lentu undir í fyrri hálfleik en Peter McParland jafnaði. Framlengja þurfti leikinn og á 97. mínútu skoraði McParland annað mark eftir að hver tékkneska sóknar- aldan af annarri hafði brotnað á skeri. Hann gerði alls fimm mörk á HM 1958 og var ein af hetjum mótsins. Með einhverjum ráðum tókst Norður-Írum að verja forystuna til enda, jafnvel þótt aðeins átta menn af ellefu hafi gengið óhaltir í leikslok. Gregg beit í skjaldarrendurnar fyrir viður- eignina við Frakka í átta liða úrslitum og tók sér stöðu milli stanganna enda þótt hann staulaðist um með staf utan vallar. Loks mætti spútnikliðið, sem eignast hafði aðdá- endur vítt og breitt um heiminn, ofjörlum sínum og tapaði, 4:0. Just Fontaine, marka- kóngur HM 1958, gerði tvö markanna. Sú niðurstaða breytti ekki því að Harry Gregg var valinn markvörður mótsins og munaði þar mest um frammistöðu hans gegn Vestur-Þjóðverjum, sem þykir ein sú besta sem sögur fara af á HM. Þess má geta að Gregg er enn á lífi, orðinn 85 ára gamall. Norður-Írar sneru aftur á HM á Spáni 1982 og léku þá afrekið eftir; komust upp úr frumriðlinum en féllu úr leik í milliriðli. Það sumar tefldu Norður-Írar fram yngsta leik- manninum í sögu lokakeppni HM, Norman Whiteside, sem var aðeins 17 ára og 41 dags gamall í fyrsta leiknum. Skaut þar með sjálf- um Pelé ref fyrir rass. Enn voru þeir grænu með á HM í Mexíkó 1986 en héldu heim að riðlakeppni lokinni, með aðeins eitt stig í far- teskinu. Allt í sjeik Það eru ýmsar leiðir til að tryggja sér varan- legan sess í sögu HM í knattspyrnu; sú auð- veldasta er líklega að vinna mótið, næla í gullskóinn eða heilla heiminn með almennum töfrum á vellinum. Landslið Kúveit, arabaþjóðar sem státaði af aðeins 1,5 milljónum íbúa, gerði ekkert af þessu á HM á Spáni 1982 – en samt eiga sparkunnendur erfitt með að gleyma liðinu. Þökk sé atviki sem hlýtur að vera með þeim kostulegri í sögu mótsins. Kúveitar lentu í snúnum riðli með stórveld- unum Englandi og Frakklandi og eftir að hafa aðeins náð jafntefli í opnunarleiknum gegn Tékkum sáu stuðningsmenn liðsins sæng sína upp reidda. Enda fór það svo að Frakkar léku sér að þeim; voru komnir í 3:0 í byrjun seinni hálfleiks. Þá byrjaði ballið. Ala- in Giresse, miðvellingurinn knái, gerði fjórða markið með bylmingsskoti. Markið var dæmt gott og gilt en Kúveitar hreyfðu andmælum; töldu sig hafa heyrt dómarann flauta og þess vegna lagt niður vopnin. Mögulega var þar einhver æringi á áhorfendapöllunum að verki. Mögulega ekki. Alltént. Formaður kúveiska knattspyrnusambandsins, sjeik Fahad Al- Ahmed Al-Jaber Al-Sabah, var ekki á því að kyngja markinu. Baðaði út öllum öngum í stúkunni og tók strauið niður á grasflötina. Upphófst þar mikil rekistefna, þar sem sjeik- inn skipaði dómaranum, Myroslav Stupar frá Sovétríkjunum, að dæma markið af, ellegar kallaði hann lið sitt af velli. Hvort sem það var sjeiknum að þakka eður ei dæmdi dómarinn markið á endanum af, frönsku leikmönnunum til ómældrar undr- unar. Leikar hófust að nýju og Frakkar unnu sigur, 4:1. Átta árum síðar bauð sjeik Fahad Al-Ahmed Al-Jaber Al-Sabah fyrirliða Frakka í leiknum, Michel Platini, í heimsókn, þar sem hann baðst velvirðingar á hegðun sinni. Fljótlega eftir það féll sjeikinn í átök- um í heimalandi sínu. Blessuð sé minning hans. FIFA var ekki skemmt yfir uppákomunni. Það sektaði sjeikinn um eina milljón króna, eða svo, sem hann hefur sennilega hrist fram úr kuflinum, og Stupar dæmdi aldrei aftur á HM. Kúveitar töpuðu lokaleiknum fyrir Eng- lendingum og hafa ekki átt afturkvæmt á lokamót HM. Eru raunar í skammarkróknum þessi misserin vegna afskipta yfirvalda af málefnum FIFA. Þú segir ekki? Önnur fámenn arabaþjóð, Sameinuðu arab- ísku furstadæmin, sendi lið í fyrsta og eina sinn á HM á Ítalíu 1990. Þá bjuggu í ríkinu 1,9 milljónir manna. Það var engin Bjarma- landsför; kapparnir töpuðu öllum leikjum sín- um þremur, fyrir Kólumbíu, Vestur- Þýskalandi og Júgóslavíu. Og enginn sjeik reyndi að hrista upp í mannskapnum. Taktuða sló, venur Slóvenía er þriðja Evrópuríkið á topp tíu- listanum yfir fámennustu ríkin til að vera með á lokamóti HM. Slóvenar þreyttu frum- raun sína á mótinu í Japan og Suður-Kóreu árið 2002, aðeins áratug eftir að þjóðin tefldi fyrst fram landsliði eftir viðskilnaðinn við Júgóslavíu. Þá bjuggu í landinu tvær millj- ónir manna. Synd væri að segja að þeir hefðu riðið feit- um hesti frá mótinu; töpuðu öllum leikjum sínum í riðlakeppninni, fyrir Spáni, Suður- Afríku og Paragvæ. Náðu þó að bora tuðr- unni í tvígang í netið. Fyrra markið gerði Sebastjan Cimirotić gegn Spánverjum og Mi- lenko Acimovic það síðara gegn Paragvæjum. Slóvenar snéru aftur á HM 2010 í Suður- Afríku og vegnaði þá betur. Féllu naumlega úr leik eftir að hafa lagt Alsír, gert jafntefli við Bandaríkin og tapað hreinum úrslitaleik um áframhaldandi þátttöku fyrir Englandi. Slóvenum tókst hvorki að tryggja sér sæti á HM 2014 né 2018. Tap fyrir Króatíu og Argentínu Tíunda fámennasta þjóðin til að taka þátt í lokamóti HM, og sú síðasta til að fá umfjöll- un hér, er Jamaíka sem sendi sveit sína í fyrsta og eina skipti til Frakklands sumarið 1998. Þá bjuggu á eyjunni í Karíbahafinu um 2,6 milljónir manna. Jamaíkumenn voru svo ólánsamir að drag- ast í riðil með Króötum og Argentínumönn- um (hmm?) og töpuðu báðum leikjum, 1:3 og 0:5. Vonandi er það enginn fyrirboði fyrir næsta smáríki á HM! Fyrsta mark Jamaíku á HM gerði gamli refurinn Robbie Earle, sem lengi lék með „nötturunum“ í Wimbledon í ensku úrvals- deildinni. Jamaíka kvaddi HM með stæl; lagði Japan í lokaleiknum, 2:1, og gerði Theodore Whit- more, núverandi landsliðsþjálfari þjóðarinnar, bæði mörkin. Það var og. Þetta var saga smáþjóðanna á HM í knattspyrnu. Til þessa. Í sumar er komið að okkur Íslendingum að eiga sviðið. Nú, eða iðjagrænt grasið. Sagan er þarna til að breyta henni! Miðherjinn Peter Crouch var og er líklega ennþá hataðasti Englendingurinn á Trínidad og Tóbagó eftir viðskipti sín við Brent Sancho á HM 2006. Hafði hann hag af því að þrífa í dreddlokkana? Sjeik Fahad Al-Ahmed Al- Jaber Al-Sabah, formaður Knattspyrnusambands Kúveit, saltvondur og hót- ar að kalla lið sitt af velli eftir að Frakkar skoruðu umdeilt mark gegn Kúveit á HM á Spáni 1982. AP Morgunblaðið/Eggert Hvað gera Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Ein- ar Gunnarsson og félagar á HM í Rússlandi í sumar? Fjölmörg tækifæri eru til að end- urskrifa sögu þessa vinsæla móts. Frá úrslitaleik Úrúgvæ og Argentínu á HM 1930. Úrúgvæ vann 4:2 á heimavelli og er langfámenn- asta þjóðin til að lyfta heimsbikarnum. Endurtók raunar leikinn tuttugu árum síðar í Brasilíu. AP 29.4. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.