Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.04.2018, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.04.2018, Blaðsíða 18
VIÐTAL 18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.4. 2018 Það er ekki á hverjum degi sem maður ástefnumót við konu sem prýtt hefur for-síður helstu tískublaða heims og er í sambúð með dönskum prinsi sem býr í kastala. Á kaffihúsið mætir falleg dökkhærð kona með skemmtilegt frekjuskarð. Carina Axelsson er hálfmexíkósk og hálfsænsk, fædd og uppalin í Kaliforníu. Hún verður fimmtug á árinu en lít- ur ekki út fyrir að vera deginum eldri en fertug, jafnvel þrítug! Við erum samt ekkert að fara að ræða um út- lit, danska prinsa eða demanstskórónur því hér er á ferð rithöfundur sem hefur frá mörgu að segja. Nú geta íslenskar unglingsstúlkur lesið eftir hana bókina Glæpi í tískuheiminum sem kom út í vikunni hjá bókaútgáfunni Tindi í þýð- ingu Svövu Jónsdóttur. Er það fyrsta bók henn- ar sem kemur út á íslensku. Gagntekin af bóklestri Foreldrar hennar voru dugleg að halda bókum að börnum sínum og sökkti Carina sér ofan í ævintýraheim bóka á unga aldri. „Ég hef alltaf elskað bækur og að lesa; hef eiginlega verið gagntekin af lestri. Ég hafði samt ekki hugmynd um hvernig maður yrði rit- höfundur á mínum yngri árum.“ Þegar Carina var um tvítugt flutti hún til New York-borgar þar sem hún starfaði sem fyrirsæta og þaðan lá leiðin í frekari fyr- irsætustörf í París þar sem hún bjó í rúman ára- tug. Í starfi sínu sem fyrirsæta vann hún fyrir Vogue, Elle og fleiri þekkt tímarit og þeyttist á milli heimshorna í endalausum myndatökum. Er líf fyrirsætunnar jafn glæst og ævintýralegt og maður ímyndar sér? „Ég fæ mjög oft þessa spurningu. Og margir spyrja mig hvað hafi verið það besta við fyr- irsætustarfið. Ég svara alltaf: Þú getur aldrei giskað á það. Og þú, Ásdís, getur ekki giskað á það!“ Blaðamaður giskar eitthvað út í loftið en gefst svo upp. Carina ljóstrar því upp: „Besti hlutinn við starfið var öll biðin; biðin á milli ljósmyndataka, bið eftir flugvélum, bið eft- ir réttu birtunni eða bið eftir leigubílum, því þá gafst tími til að lesa. Ég las stöðugt þegar ég vann sem módel. Svo voru launin ágæt þannig að ég gat keypt allar þær bækur sem mig lang- aði í,“ segir Carina. Þannig að á meðan þú lifðir glæstu lífi fyr- irsætunnar varstu líka bókanörd? „Já,“ segir Carina og brosir breitt. Barnabók um lítinn dreka Á Parísarárunum, þegar Carina sá fyrir endann á fyrirsætustarfinu, ákvað hún að setjast við skriftir. „Vinir mínir ýttu mér út í það, vinir sem sáu hvað ég las mikið. En ég hafði aldrei verið nógu sjálfsörugg til að skrifa sjálf. Ég lærði ekki ritlist en ég tók myndlistarkúrsa á kvöldin í París. Allan tímann sem ég var fyr- irsæta hafði ég engan áhuga á tísku og hugsaði oft um að mig langaði einhvern tímann að gera eitthvað sem stóð hjarta mínu nær. Ég naut þess að vera í myndlistarskólanum og þegar ég lauk náminu eftir tvö ár bað einn vinur minn mig að teikna fyrir sig lógó á sjampólínu sem hann hafði þróað, en ég hafði verið mikið í því að hanna alls kyns boðskort og merkimiða á vín- flöskur. Hann bað mig að teikna lítið dýr sem hann ætlaði að nota á miða á barnasjampó. Ég teiknaði nokkur dýr og hann valdi kanínu en ég hafði líka teiknað lítinn dreka sem honum leist vel á. Hann stakk upp á því að ég skrifaði barnabók um drekann. Og þegar hann sagði þetta var eins og kviknaði á peru í höfðinu á mér!“ segir Carina sem settist niður og skrifaði barnabók um drekann. Þar með var hún orðin rithöfundur. Agatha Christie og Scooby Doo Hún lagði fyrirsætuskóna á hilluna og hóf að starfa hjá Christian Dior þar sem hún vann sem aðstoðarmaður tískuhönnuðar. „Ég vann þar í hálft ár og þetta var mjög gef- andi tími því nú var ég bak við tjöldin, bak við myndavélina en ekki fyrir framan hana. Og þegar ég fór heim á kvöldin í íbúðina mína í París byrjaði ég að skrifa um unglingsstúlku sem leysti glæpi innan tískuheimsins. Og þar með var ég byrjuð á þessari seríu!“ segir Carina. „Ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á einka- spæjarasögum og hafði mikið dálæti á Agöthu Christie og horfði mikið á Scooby Doo sem krakki. Ég elska Scooby en teiknimyndin kynnti mig fyrir leynilögreglusögum á unga aldri. Síðan var það Nancy Drew,“ segir Carina og segir að síðan í barnæsku hafi glæpasögur átt hug hennar allan. Unglingsstúlka leysir sakamál Bækurnar í röðinni Módel í dulargervi (Model under cover) fjalla um hina sextán ára Axelle sem gerist einkaspæjari og leysir dularfull sakamál sem gerast innan tískuheimsins. Carina segir bækurnar höfða vel til krakka á aldrinum 9-13 ára, og e.t.v. frekar til stúlkna en drengja þar sem viðfangsefnið er tíska og sögu- hetjan stúlka. „Axelle er sextán ára stelpa sem býr í Lond- on og er heltekin af því að leysa glæpamál og er sífellt að leita að týnd- um gæludýrum eða njósna um grannana. Foreldrar hennar eru ekki hrifnir af þessum einkaspæjaradraumum og senda hana til Parísar þar sem hún á að verja viku með frænku sinni sem vinnur við tískuviku þar í borg. Fyrir Axelle er þetta refsing; hún hefur engan áhuga á tísku, en neyðist til að fara. Þegar hún kemur þangað kemst hún að því að ungur tískuhönnuður er horfinn. Þá hugsar hún með sér að kannski verði þessi vika ekki svo slæm eftir allt saman og ákveður að hún ætli sér að komast til botns í þessu dularfulla mannshvarfi. Þannig gæti hún líka sannað fyrir foreldrum sínum að einkaspæjarahlutverkið væri tilvalið fyrir hana. En til að leysa málið gerir hún sér grein fyrir að hún þarf að dulbúast sem fyr- irsæta,“ útskýrir Carina. Persónan Axelle heldur svo áfram að leysa dularfull mál í öðrum stórborgum í næstu þremur bókum í seríunni en fyrsta bókin heitir á íslensku Glæpur í tískuheiminum. „Hún er mjög klár og dálítið töff nörd. Miklu klárari, óhræddari og ákveðnari en ég var á hennar aldri,“ segir hún og hlær. Carina nýtir reynslu sína af tískuheiminum og af því að hafa sjálf búið í þessum stórborgum og sameinar það allt saman í bókunum. Að- spurð hvort við fáum eina bók sem gerist í Reykjavík skellihlær hún. „Það gæti verið ansi skemmtilegt. Góð hug- mynd!“ segir Carina. „Nú er ég að vinna að seríu sem er allt öðru- vísi en líka fyrir þennan aldurshóp. En að skrifa sögur um ráðgátur er ansi flókið; hver bútur þarf að passa og það mega ekki vera neinir laus- ir endar,“ segir Carina. Hún skrifar eina til tvær bækur á ári og vinn- ur nú við skriftir í fullu starfi. „Það þarf líka að kynna bækurnar á samfélagsmiðlum og ferðast á milli landa til að kynna þær,“ segir Carina sem segist setjast niður á hverjum degi og skrifa. „Ég þarf líka oft að skila handritum á réttum tíma þannig að stundum er pressa.“ Í sambúð með prinsi Á netinu má lesa um að Carina búi með prinsi. Kærastinn hennar, Gustav, er systursonur Danadrottningar, sjöundi prins af Sayn- Wittgenstein-Berleburg, elsta barn og eini son- ur Benediktu prinsessu af Danmörku og Rich- ards, sjötta prins af Sayn-Wittgenstein- Berleburg. Carina er guðmóðir Aþenu prins- essu af Danmörku, dóttur Jóakims prins og Marie. Carina og Gustav búa í kastala í Þýskalandi ásamt fjórum hundum en Carina segist skipta tíma sínum á milli London og þýsku sveitar- innar. Blaðamanni gengur illa að fá krassandi fréttir af prinsessulífinu því Carina segist lítið tala um þennan hluta lífs síns. Augljóslega lifir hún ekki alveg jafn dæmigerðu lífi og við hin en hún vill mun frekar tala um starfsframa sinn og bækurnar sem hún hefur gefið út og er afar spennt yfir því að fyrsta bók hennar skuli nú vera komin út á Íslandi. Blaðamaður kveður rithöfundinn og fyrrver- andi fyrirsætuna og segist bíða spenntur eftir Reykjavíkurglæpasögu frá þessari næstum prinsessu sem býr í kastala í þýskri sveit. Guðmóðir danskrar prinsessu Sakamál innan tískuheimsins eru viðfangsefni unglinga- bóka hinnar bandarísku Carinu Axelsson en í vikunni kom fyrsta bók seríunnar út á Íslandi. Carina þekkir tísku- heiminn vel enda starfaði hún sem fyrirsæta í New York og París. Í dag býr hún með dönskum prinsi og skrif- ar bækur í þýskum kastala. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is ’Besti hlutinn við starfið varöll biðin; biðin á milli ljós-myndataka, bið eftir flugvélum,bið eftir réttu birtunni eða bið eftir leigubílum, því þá gafst tími til að lesa. Ég las stöðugt þegar ég vann sem módel. Svo voru launin ágæt þannig að ég gat keypt allar þær bækur sem mig langaði í. Carina Axelsson skrifar um sakamál innan tísku- heimsins en hún þekkir þann heim af eigin raun. Bækurnar eiga að höfða til unglingsstúlkna. Morgunblaðið/Ásdís

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.