Skírnir - 01.04.2010, Blaðsíða 68
heyrðist því fleygt, bæði þá og síðar, að þetta hefðu forverar Vig -
dísar ekki leyft sér.25
Og svo komst Ólafur Ragnar Grímsson til valda. Frá upphafi
fannst honum sumir embættismenn ráðuneyta bundnir í viðjar
regluverks og sinna því lítt að kynna Ísland og opna íslenskum at-
hafnamönnum dyr. Að sama skapi kom fyrir að ráðherrum og emb-
ættismönnum fannst forsetinn fara freklega út fyrir valdsvið sitt.26
Fyrstu árin höfðu þeir yfirhöndina þegar í odda skarst en svo
færðist forsetinn í aukana, fór sinna ferða, samdi ræður og svaraði
spurningum án samráðs við ráðuneyti. Sumir embættismenn dáðust
að dugnaði forsetans og hæfni í samskiptum við útlendinga, en
öðrum gramdist sem fyrr hvað hann væri fyrirferðarmikill. Enn
kom líka fyrir að ráðherrar og þingmenn reiddust og í ársbyrjun
2007 mótmæltu Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Hall-
dór Blöndal, formaður utanríkismálanefndar, því harðlega að forseti
Íslands skyldi taka sæti í Þróunarráði Indlands án þess að spyrja
kóng eða prest. Ólafur Ragnar Grímsson hélt því fram að seta hans
væri bundin við hans eigin persónu en ekki embættið. Andstæð -
ingum þótti það slæleg skýring og í raun hlaut að teljast vafasamt
að sú skipting fengi staðist.27
Allar þessar deilur vöktu upp spurningar um völd og ábyrgð
forseta á erlendum vettvangi. Síðla árs 1944 var því til dæmis haldið
fram að samkvæmt lýðveldisstjórnarskránni bæru „ráðherrar ábyrgð
á ræðum sem hann flytur opinberlega á vegum ríkisins, og erindum
til annarra þjóðhöfðingja“.28 Eftir skelegga ræðu Ólafs Ragnars á
ráðstefnu um smáríki í Andorra í apríl 2008 tók Þorsteinn Pálsson,
þá ritstjóri Fréttablaðsins, í sama streng og sagði að þótt forseti væri
að formi til „æðsti handhafi framkvæmdavalds í utanríkismálum“
68 guðni th. jóhannesson skírnir
25 „Forseta ber að forðast deilur“, DV, 18. ágúst 1998 (forystugrein); „Starfshættir
forseta“, Morgunblaðið, 20. ágúst 1998 („Staksteinar“). Um heimsókn Vigdísar
Finnbogadóttur og kvennaráðstefnuna, sjá Pál Valsson 2009: 393–401; sjá einnig
Kristínu Ástgeirsdóttur 1995.
26 Sjá t.d. Ragnhildi Sverrisdóttir 1997; sjá einnig Árna Þórarinsson 2004: 17–18.
27 „Ráðherra krefur forsetann skýringar“, www.ruv.is, 28. janúar 2007; „Sæti
forseta í Þróunarráði Indlands bundið við persónu“, www.ruv.is, 29. janúar 2007;
„Þingnefnd vill skýringar frá forsetaembættinu“, www.ruv.is, 1. febrúar 2007.
28 Þorvaldur Þórarinsson 1944: 180.
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:23 Page 68