Skírnir - 01.04.2010, Blaðsíða 216
ritskoðun til að styggja ekki eigendur fjölmiðilsins. Ella má búast við að
þeim verði í fyllingu tímans vikið frá undir einhverju, stundum óskyldu,
yfirskini. Og þá má spyrja: er það virkt lýðræði þegar fjármagnseigendur
hafa öll yfirtök í kynningu á eigin sjónarmiðum ellegar útúrsnúningi á sjón-
armiðum annarra, sem er líklega enn áhrifameira?
Rétt er að taka fram að eigendum stórra fjölmiðla finnst nú á dögum
oftast sniðugra að ástunda ekki beinan áróður. Miklu frekar er um óbeina
innrætingu að ræða undir yfirvarpi hlutlægni, þar sem gengið er út frá því
sem sjálfsögðum hlut að ríkjandi kerfi sé hið eina rétta og sjálfsagða, eins-
konar náttúrulögmál. Opinberir fjöl miðlar lúta auk þess næstum allir yfir-
stjórn ríkisvalds og er stjórnað af flokkum sem eru bein eða óbein verkfæri
þessara sömu hagsmunahópa. Hinum opinberu ,hlutlausu‘ fjölmiðlum leyf-
ist því ekki vera mjög gagnrýnir á ráðandi kerfi.
Hugsum okkur að stofnaðir yrðu flokkar víðsvegar í heimi sem hefðu
það á stefnuskrá sinni að breyta því gildismati markaðskerfisins, sem gerir
fjármálaviti margfalt hærra undir höfði en öllum öðrum vitsmunum manns-
ins. Hvaða umfjöllun ætli þeir fengju í áhrifamiklum fjölmiðlum sem gefnir
eru út af risafyrirtækjum eða ríkisvaldi þeirra? Svari hver sem vill.
Að dreifa huganum
Eitt helsta hlutverk fjölmiðla nútímans virðist reyndar vera að halda venju-
legu fólki frá því að hugsa sjálfstætt, meðal annars með því að leiða athygli
frá hagsmunamálum þess í átt að yfirborðslegu efni. Önnur óbein innræting
er sú að pólitík sé ekkert fyrir óbreytt heiðarlegt fólk. Það er sjálfsblekking
fjölmargra að þeir séu ,ópólitískir‘ með því að vera óvirkir. Í reynd eru þeir
ekki síður pólitískir en aðrir, því með ,ópólitískri‘ afstöðu sinni viðurkenna
þeir status quo eða óbreytt ástand og styðja því í reynd ríkjandi kerfi.
Afþreyingariðnaðurinn hefur lengi gegnt líku hlutverki og fjöl miðlar
þótt það sé skemmtikröftunum sjálfum væntanlega ómeð vitað. Síbyljan
sljóvgar. Sem áður sagði er það ráðandi öflum þókn an legt að fjöldanum sé
ekki gefið færi á að hugsa sjálfstætt. Því er nánast brjóstumkennanlegt, að
listamenn sem vilja eða segjast að minnsta kosti vilja breyta ástandinu al-
menningi heimsins og friðar öflum í hag, þeir verða oft óviljandi til þess að
slæva fólk í hinni daglegu baráttu. Það eru haldnir risatónleikar í þágu góðs
málefnis. Fólk kemst í vímu. Síðan ekki söguna meir, nema hvað fólkið
hefur fengið tímabundna útrás. Það hefur tekið þátt í mótmælum. Það er
sáttara við sjálft sig. En svo gerist ekkert þangað til á næstu uppákomu.
Stofnanir helstu trúarbragðakerfa gegndu áður þessu hlutverki sérstaklega,
216 árni björnsson skírnir
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 216