Skírnir - 01.04.2010, Blaðsíða 237
237brot úr ævi
gamlar hugsjónir? Hvers vegna þessi, að mörgu leyti, sérkennilega hegðun?
Halldór Guðmundsson leiðir að því líkur í Skáldalífi að Þórbergur hafi
haft ýmis einkenni Aspergerheilkennis. Pétur ræðir ekki þá hugmynd í sínu
verki og sumir endar hanga í lausu lofti — annað tekst ævisagnaritarinn
lítið á við, eins og áhuga Þórbergs á draugum, handanheimum og hindur-
vitnum. Það samræmist svo illa fræðimanninum og rithöfundinum, að það
er eiginlega ekki pláss fyrir það í ævisögunni.
Eins og Pétur lýsir, þá birtist Þórbergur stundum á efri árum sem eins
konar fígúra í sjónvarpi, dæmi um skrítið skáld, sem hermdi eftir og aðrir
hermdu svo eftir. Á Þórbergssetri hefur ævi hans verið breytt í safn, ,ÞÞ
the experience‘. Það sker sig að nokkru leyti úr öðrum höfundasöfnum á
Íslandi, því ólíkt Gljúfrasteini og Skriðuklaustri er þetta ekki húsið sem
hann bjó í, heldur eins konar dæmi tekin af húsum sem hann bjó í. Þessum
brotum eða dæmum er haganlega fyrir komið eins og í leikmynd sem safn-
gesturinn gengur um og getur ,lifað sig inn í‘. Til verður eins konar karde-
mommubæjarútgáfa af ævi Þórbergs, sem hefur þó stöðuga vísun í veruleika
sem annaðhvort er horfinn eða er í öðrum landshluta (húsin flest rifin eða
að minnsta kosti umbreytt að einhverju leyti). Þá verður til einhvers konar
eftirmynd af því sem var þó mögulega aldrei til, og það er kannski vandinn
við söfn sem fátæk eru af eigin fortíð (eins og Guðni Elísson bendir til
dæmis á í grein um Þjóðminjasafnið í Ritinu 2004/2). Að standa á svölunum
á Hringbraut sem endurgerðar eru á Þórbergssetri er þá á einhvern hátt
raunverulegra en að standa á svölunum sjálfum á Hringbraut, (svo minnir
á vangaveltur Umbertos Eco í Travels in Hyperreality um hvað er ekta við
eftirmyndir). Getur verið að Þórbergur sjálfur hafi verið orðinn eins konar
eftirmynd af sjálfum sér í hugum fólks? ,Fígúra‘ frekar en stórskáld? Ævi-
saga Péturs færir okkur þá kannski einhvern hluta af manninum aftur —
sem var orðinn okkur framandi í klisju sinni. Tónninn í verkinu er tónn
samlíðunar og skilnings, en þó ekki laus við gagnrýni. Pétri tekst best upp
á sínum sviðum, ef svo má segja, þar sem Þórbergur stendur honum næst
og færir okkur innsæi rithöfundarins í líf annars rithöfundar. Ekki er
ólíklegt að þegar fram líði stundir verði verkið einnig lesið sem heimild um
Pétur sjálfan, rétt eins og ævisaga Árna Þórarinssonar er saga Þórbergs
sjálfs. Sjálfs/ævisögurnar sem sprottið hafa í kringum Þórberg Þórðarson,
geyma allar ævi hans, en ekkert verk geymir hana alla; við höfum ,óteljandi
myndbrot‘ og því er kostur að eiga fjölbreytta mynd af margbrotnum og
mótsagnakenndum manni, í ýmsu formi og ólíkum miðlum.
skírnir
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 237