Skírnir - 01.04.2010, Blaðsíða 247
„Hengi þolinmæði mína upp á vegg“
Þrír myndvefnaðir Hildar Hákonardóttur1
Þolinmæði vefarans, sem sinnir einum tímafrekasta myndmiðl -
in um, hefur í aldanna rás verið rómuð í heimsbókmenntunum. Allt
frá Penelópu hinni grísku sem sló vefinn á daginn en rakti hann upp
um nætur og enn lengra aftur til Aröknu frá Maóníu, sem var þekkt-
asti vefari fornaldar og sögð hafa ofið fyrsta listvefnaðinn. Hún
hafði betur þegar hún keppti við gyðjuna Mínervu um fegursta
vefnaðinn, en þar brá hún upp mynd af fjörugu ástarlífi hinna
mann legu og breysku guða sem sátu á fjallinu Ólympus. Mínerva
fylltist reiði og afbrýði og reif vefnað Aröknu í tætlur, en það varð
til þess að sú síðarnefnda brá snöru um hálsinn og hengdi sig.
Mínerva sá aumur á henni og lífgaði hana við, en hefnd hennar fólst
í því að hún endurskapaði Aröknu í mynd kóngulóar, sem var
dæmd til að hanga í vef sínum og spinna hann um alla eilífð. En
goðsagan lifir bæði í grískunni og latínunni og dætrum hennar, því
að þar ber kóngulóin nafn Aröknu.2
Hildur Hákonardóttir (f. 1938) kom með eftirminnilegum hætti
inn í íslenska myndlist með fyrstu einkasýningu sinni í Gallerí SÚM
í upphafi árs 1971. Þar sýndi hún verk sem unnin voru í ull og hamp
og öllu nýstárlegri efni á borð við tré og plast, en vefstóllinn var
hins vegar búinn til úr járnrörum sem notuð eru til stuðnings þegar
steypt er upp milligólf í húsum. Sýningin hlaut bæði lof gesta og
gagnrýnenda, hér þótti kveða við nýjan tón þar sem gaf að líta
tilraun til að losa textílinn frá sínum hefðbundna bakhjarli, veggn -
um, og láta hann stíga fram á gólfið sem sjálfstætt, þrívítt form.3
Skírn ir, 184. ár (vor 2010)
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
1 Tilvitnunin í fyrirsögn greinarinnar er sótt í viðtal við listakonuna, Morgunblaðið,
8. nóvember 1985.
2 Sögu hennar má lesa í Ummyndunum Óvíds, bls. 167–170 (Kristján Árnason
þýddi. Forlagið, 2009).
3 Morgunblaðið, 20. febrúar 1971; Vísir, 24. febrúar 1971.
Skírnir vor 2010 með Guðna-NOTA_Layout 1 19.4.2010 15:24 Page 247