Skírnir - 01.04.2015, Blaðsíða 222
fyrir urðu og hafi góðgerðastarfsemi hennar, sem og einnig Péturs
biskups, farið fram í kyrrþey. Þá segir Þorvaldur að Sigríður hafi
verið „siðavönd mjög og stundum berorð um það, sem henni þótti
miður fara“, hafi hún ekki gert sér neinn mannamun en sagt skoð -
anir sínar afdráttarlaust, hverjum sem í hlut átti.9
En frú Sigríður skrifaði ekki aðeins leikrit, heldur var hún „ein
hin fyrsta kona í Reykjavík, sem verulega ljet sjer annt um blómrækt
utanhúss […] og var garður hennar fyrirmynd, sem margir komu að
sjá“.10 Reynitrén tvö, sem stóðu við húsið, segir Þorvaldur, hafði
hún fengið smáplöntur úr Hafnarfjarðarhrauni og plantað þeim
sjálf. Einnig hafði hún fengið eyrarrós norðan úr landi sem flestar
aðrar eyrarrósir í Reykjavík voru komnar frá, og blóm frá Englandi
og Danmörku. Flest þetta dafnaði vel, „því frú Sigríður elskaði
blómin sín“ (Þorvaldur Thoroddsen 1908: 276). Um garðinn fór
svipað og leikritið, sem þó má segja að hafi lifað af, og Þorvaldur
ritar: „Eptir að frú Sigríður flutti sig úr Reykjavík var eðlilega, eins
og venja er á Íslandi, á fáum árum búið að skemma og eyðileggja
allt, er hún hafði plantað.“11
222 helga kress skírnir
9 Þorvaldur Thoroddsen 1908: 275. Þetta afdráttarleysi biskupsfrúarinnar sem lá
ekki á skoðunum sínum kann að vera skýringin á ummælum Jóns biskups Helga-
sonar (1941: 154) í síðasta kafla endurminninga sinna, þar sem hann fjallar um
reykvískar konur: „… biskupsfrú Sigríður Bogadóttir […] var merk kona og
mikilhæf og sómdi sér hið bezta við hlið síns ágæta eiginmanns, dr. Péturs bisk-
ups, þótt hún að ýmsu leyti þætti einkennileg í háttum og í mörgu öðruvísi en
fólk er flest.“
10 Þorvaldur Thoroddsen 1908: 276. Á sömu blaðsíðu er ljósmynd af öðru reyni-
trénu upp við bakhlið hússins. Það kemur því miður hvergi fram hvenær myndin
er tekin. Húsið stóð enn árið 1908 þegar bók Þorvalds kom út, en brann í brun-
anum mikla í Reykjavík í apríl 1915, sbr. Ísafold 29. apríl 1915: 1–2.
11 Þorvaldur Thoroddsen 1908: 276–277. Svipaðri tilfinningu lýsir Benedikt Grön-
dal í „Ferðasögu heimanað til Halldórs Þórðarsonar,“ ritaðri um aldamótin 1900.
Segir hann þar frá gönguferð sem hann fer snemma morguns frá heimili sínu við
Vesturgötu og upp í Þingholt. Hann kemur að „gamla húsinu, þar sem Pjetur
biskup sat, en nú er orðið að Ensku versluninni, og allir blómareitir biskupsfrú-
arinnar orðnir að stakkstæði fyrir vörukassa og saltketstunnur eða kol, enda eru
þetta ekki litlar framfarir, svona á það að vera, hugsaði jeg, svona á alt Ísland að
vera, steingólf fyrir kol handa gufuskipunum, sem bráðum eiga að koma inn á
hverja vík og að hverju koti, þegar járnbrautir eru komnar um alt landið og alt
er þakið steinkolum til að kynda í hinum stórkostlegu samgöngumeðölum fram-
faraberserkjanna“ (Benedikt Gröndal 1932: 119–120). Þannig sprettur úr blóma-
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 222