Skírnir - 01.04.2015, Blaðsíða 257
257af guttormi
Frumleiki Guttorms J. Guttormssonar sem skálds birtist þó fyrst og
fremst í leikritum hans og má undur heita, að í heildarútgáfu Arn-
órs Sigurjónssonar og inngangi að áðurnefndu Kvæðasafni Gutt-
orms skuli leikritin ekki nefnd á nafn.15 Fimmtán þeirra hafa birst
á prenti, þar af tvö þriggja þátta, eitt fimm þátta, hin einþáttungar.
Annars vegar er um að ræða áðurnefnda bók, Tíu leikrit, sem kom
út á Íslandi alþingishátíðarárið 1930, hins vegar fimm leikrit sem
birtust í tímaritum síðar, þrjú í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslend-
inga, tvö i Óðni. Tvö þau fyrstu af þeim síðarnefndu eru samin að
því er virðist 1935 og 1936, tvö á stríðsárunum, en hið síðasta birt-
ist 1962, skömmu fyrir lát skáldsins. Safninu í Tíu leikrit fylgir eng-
inn inngangur og verkin eru ekki ársett. Nokkur þeirra höfðu þó
birst áður í tímaritum, Skugginn í Skírni (1917) og Hinir höltu í
Óðni (1917) sem og Spegillinn (1918), Hvar er sá vondi? (1918–19)
og loks Hringurinn (1921).16 Í Óðni 1918 birtist einnig grein um
skáldið eftir Jón frá Sleðbrjót, alþingismann sem fluttist vestur.17
Hætt er við að Guttormur hafi verið fáum kunnur hér heima fram
til þess. Og ekki síður er þess að vænta að leikritin hafi komið mönn -
um nýstárlega fyrir sjónir.
Í þessum verkum eru sem sagt slegnir nýir tónar, að minnsta
kosti hvað Ísland áhrærir. Skal nú reynt að finna þeirri fullyrðingu
stað með því að rýna nánar í verkin.
Í gagnrýni sem Lárus Sigurbjörnsson (1935: 38) birti í Lögrjettu
1935 um Tíu leikrit og var lengi nálega eina faglega umfjöllunin um
þessi verk, segir Lárus meðal annars að í leikjunum birtist hið „ex-
pressíóníska viðhorf skáldsins til efnisins, eða öllu heldur til leik-
menntarinnar, leikhússins í heild“. Lárus vitnar í tímaritið Der
Sturm 1910, þar sem segir: „Expressíónisminn er ekki tískufyrir-
brigði. Hann er heimsskoðun.“ Og ennfremur: „Expressíónism-
skírnir
15 Um Guttorm, sjá m.a. Richard Beck 1950: 27–29, 1958, 7, 1967; Stefán Einars-
son 1950: 7; Sveinn Skorri Höskuldsson 1980; Kirkconnell 1939, 1968. Sjá einnig
Helgi Sæmundsson 1963; „Vestanhafs er sómi …“ 1938; Elín Pálmadóttir 1967.
Til yfirlits, sjá Viðar Hreinsson 1996: 758–761, ennfremur tilvitnanir bls. 964.
16 Endurprentað í breyttu formi í Vestan um haf, sýnisbók um íslenskan skáldskap
í Vesturheimi (Einar H. Kvaran og Guðmundur Finnbogason 1930).
17 Jón frá Sleðbrjót var einnig náinn bréfavinur Stephans G. Stephanssonar.
Skírnir vor 2015.qxp_Layout 1 16.4.2015 15:47 Page 257