Skírnir - 01.04.2016, Blaðsíða 34
ljóðahefð og kunni ógrynni kvæða utanbókar. Það var arfur sem
hann hafði með sér að heiman þegar hann yfirgaf Suðursveit vorið
1906, og á fyrstu áratugum aldarinnar hélt hann áfram að rækta
þann arf, ekki síst í félagsskap ungra menntaskólapilta og félaga í
Ungmennafélagi Reykjavíkur. Innan UMFR starfaði félagsskapur,
svokallað málfundafélag, sem kenndi sig við skáldguðinn Braga og
hélt reglulega fundi þar sem gamall og nýr kveðskapur var brotinn
til mergjar. Á þeim fundum var Þórbergur atkvæðamikill, flutti fyrir-
lestra og gagnrýndi kveðskap félaga sinna, auk þess sem hann birti
greinar og gagnrýni í hinum handskrifuðu tímaritum UMFR, Skin-
faxa og Braga.
Fyrstu kvæði sín birti Þórbergur í dagblöðum; 19. október 1911
birtist kvæðið „Arfurinn“ í Vísi og rúmu hálfu ári síðar, 29. maí
1912, birtist svo kvæðið „Nótt“, sem frægt er af Íslenzkum aðli, á
forsíðu Ísafoldar. Það „þótti enginn smáræðis uppsláttur fyrir höf-
undinn,“ skrifar Þórbergur, enda fannst ungum skáldaspírum í
Reykjavík kvæðið „svo ískyggilegur bókmenntaviðburður, að þeir
[skutu] á formlegum fundi til þess að brjóta það til mergjar og ræða
framtíðarmöguleika þessa óboðna höfundar“ (Þórbergur Þórðar-
son 1938: 8). Skemmtilegt hefði verið að eiga fundargerð frá þeim
fundi þar sem meðal annarra var staddur Stefán Sigurðsson frá
Hvítadal sem Þórbergur kynntist nokkrum vikum síðar á Siglufirði.
Sérlega fróðlegt hefði verið að fregna hvað fundarmönnum sýndist
um „framtíðarmöguleika þessa óboðna höfundar“ og hvort Stefán
frá Hvítadal hafi þar verið sama sinnis og þegar þeir Þórbergur tók-
ust á fullir á hestbaki og svívirtu skáldskap hvor annars af miklu
kappi, eins og einnig segir af í Íslenzkum aðli. Stefán sakar þar Þór-
berg um að vera leirbullara og ritþjóf sem hafi stolið hugmynd að
myndmáli frá Bjarna frá Vogi, en Þórbergur bregst hart við og segir
skáldskap Stefáns ekki vera „annað en lipurleg orðafroða og ve-
sældarlegur bölsýnisvæll, sem [hann hafi tuggið] upp eftir Kristjáni
Jónssyni“ (Þórbergur Þórðarson 1938: 210–211). Orðaskakið stig-
magnast og endar í handalögmálum þar sem þeir félagarnir slást
„upp á óflekkaðan heiður skáldlegrar andagiftar“ (Þórbergur
Þórðarson 1938: 213).
Þótt hin móðgandi umsögn Þórbergs um skáldskap Stefáns sem
34 soffía auður birgisdóttir skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 12:59 Page 34