Skírnir - 01.04.2016, Blaðsíða 103
103„samkennd er … “
Frans de Waal (2002) segir til að mynda að samlíðan sé fremur
ósjálfráð viðbrögð en samúð sem sé fremur bundin hyggju og
stundum harla eigingjörn.
Við skýringar á orðunum sem ónefnd eru, compassion, emotion -
al contagion, mimicry og Theory of Mind, tökum við okkur sál -
fræðinginn Taniu Singer ekki síst til fyrirmyndar en hún hefur um
árabil rannsakað taugafræði, samlíðan og skyld hugtök (2004, 2005,
2008, 2009, 2013, 2014) — gert stafrænar segulómrannsóknir
(fMRI-rannsóknir) og meðal annars unnið með taugafræðingum.
Fyrst skal hugað að enska orðinu compassion sem kemur úr
frönsku inn í miðensku. Það á sér rætur í latneska orðinu com passio
sem merkir ,samþjáning‘ og er þekkt um aldir í klerklegum ritum
Vesturlanda. Við kjósum að þýða compassion sem samkennd og
skilgreinum að hætti Taniu Singer og Olgu M. Klimecki (2014):
„Einstaklingur upplifir ekki sömu líðan og annar heldur finnur svo
til með honum og lætur sér svo annt um hann að hann vill gera sitt
til að breyta líðan hans.“ Samkenndin er þar með ekki aðeins annað
fyrirbæri en samlíðan í okkar huga heldur teljum við hana vera til-
finningaástand fremur en afstöðu (t.d. Sprecher og Fehr 2005).
Samkenndin felur í sér hlýju og umhyggju fyrir þeim sem upp-
lifir líkamlegan sársauka og hugarraunir eða verður hart úti í félags-
legum samskiptum (Immordino-Yang, McColl, Damasio og Damasio
2009). Misjafnt er hvernig menn bregðast við sársauka annarra en
niðurstöður lítillar rannsóknar Mary Helen Immordino-Yang og
fleiri (2009) gefa vísbendingu um að samkennd manna vakni hraðar
andspænis líkamlegum sársauka annarra en hugarraunum þeirra og
kvölum vegna félagslegra samskipta, svo sem niðurlægingu.
Við vissar aðstæður virðist sjálft samspilið milli samlíðunar og
samkenndar skipta miklu, það er að segja þegar greinarmunurinn
sem menn gera á sjálfum sér og öðrum verður óljós og þeir yfirfæra
á sjálfa sig tilfinningarnar sem þeir upplifa í krafti samlíðunar. Það
gerist einkum þegar neikvæðar tilfinningar altaka þá. Singer og
Klimecki hafa bent á að finni einstaklingur til samlíðunar með
öðrum sem kveljist geti samlíðunin annaðhvort þróast í samkennd
eða samlíðunarálag (e. empathic distress). Þróist hún í samkennd
upplifi einstaklingur ekki sömu tilfinningar og sá sem hann hefur
skírnir
Skírnir vor 2016.qxp_Layout 1 18.4.2016 13:00 Page 103