Saga - 2008, Blaðsíða 152
stúdentar sem voru að mennta sig til þess að halda við sögulegum
menningararfi þjóðarinnar birtu þess konar grín.
Alkunnugt er líka að málsbætur fyrir danska stjórnendur Ís -
lands hafa þegar sett sterkan svip á fræðileg skrif í íslenskri sagn -
fræði. Má nefna sem dæmi nýlega doktorsritgerð Einars Hreins -
sonar, þar sem því er haldið nokkuð stíft fram að íslenskir embætt-
ismenn á Íslandi hafi hneigst meira til að skara eld að eigin köku en
danskir, og þar með er óneitanlega gefið í skyn að meiri og beinni
dönsk yfirráð hefðu komið sér betur fyrir íslenskan almenning.4 Ég
hef áður reynt að sýna fram á að Einar gangi fram af helst til miklu
kappi við að rétta hlut danskra embættismanna á Íslandi eftir það
ranglæti sem þjóðernishyggjusagan hafði viðhaft í garð Dana.5
Hér er ekki rúm til að fara langt ofan í einstök atriði, heldur ætla
ég að reifa það frá sem víðustu sjónarhorni — og þar með óhjá-
kvæmilega nokkuð yfirborðslega — hvort Íslendingar hafi goldið
eða notið sambandsins við Dani, hvort við eigum að harma þau
örlög þjóðarinnar að vera undir danskri konungsstjórn um aldir
eða kannski liggja þeim kynslóðum Íslendinga á hálsi sem slitu
sambandinu við þá. Ég spara mér að ræða hvað sé böl og hvað sé
blessun fyrir þjóð, geng aðeins út frá þeirri hversdagslegu skoðun
að það sé gott að fólki líði vel og vont að því líði illa og þeim mun
betra sem fleira fólki líður vel. Sömuleiðis spara ég mér að ræða þá
valkosti sem eru fyrir hendi ef við hugsum okkur að konungar
Norðmanna og Dana hefðu ekki náð völdum á Íslandi, en í máli
mínu kemur fram að ég hef einkum í huga þann kost að Íslending-
ar hefðu haldið áfram að mynda sjálfstætt samfélag um aldir.
Böl af stjórn Dana
Lykilhugtök í þjóðernissinnaðri sögu Íslendinga af framkomu
Dana við þjóðina voru arðrán, óstjórn og kúgun. Við getum, held ég,
strax sleppt kúguninni. Ég þekki engin dæmi þess úr sögu Íslend-
inga að Danir hafi kúgað þá sem slíka, kúgað þá vegna þess að þeir
voru Íslendingar en ekki Danir. Aldrei var gerð minnsta tilraun til
gunnar karlsson152
4 Einar Hreinsson, Nätverk och nepotism. Den regionala förvaltningen på Island
1770–1870 (Göteborg 2003), samantekt á bls. 236–237. — Einar Hreinsson,
„Íslands hæstráðandi til sjós og lands. Embættismenn á 18. og 19. öld,“ Þjóðerni
í þúsund ár? (Reykjavík 2003), bls. 84.
5 Gunnar Karlsson, „Syrpa um þjóðernisumræðu,“ Skírnir CLXXVIII:1 (vor
2004), bls. 167–171.
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 152