Saga - 2008, Blaðsíða 183
Nú þurfa raunverulegar ritunarástæður Landnámabókar ekki
endilega að vera nákvæmlega þær sem látnar eru í veðri vaka í
þessum eftirmála, sem er settur saman að mælskufræðilegri hefð,
en engu að síður er rétt að taka fullt tillit til hans við mat á ritunar -
ástæðum, ekki síst þar sem hann kemur vel heim við efni heimild-
arinnar.
Skoðanir fræðimanna á 20. öld
Fræðimenn á 20. öld hafa reynt að geta sér til um ástæðurnar til þess
að Landnáma var samin. Hér skulu lauslega nefndar þrjár hugmynd-
ir eða tilgátur. Ein er sú að Landnáma sé samin vegna innleiðingar
tíundar, þ.e. allsherjarskatts, á Íslandi í lok 11. aldar, og þá gjarna í
tengslum við jarðamat sem fram hafi farið um leið. Innleiðing tíund-
ar var án efa merkilegur viðburður í sögu landsins og hefur því fylgt
mat jarðnæðis og lausafjár um allt land.4 Hlýtur Alþing við Öxará að
hafa komið þar við sögu auk kirkjunnar, eins og frásögn Ara fróða í
Íslendingabók bendir til. En annmarkinn á þessari hugmynd er sá að
í Landnámabók er ekkert það sem bendir sérstaklega til jarðamats eða
setningar tíundarlaga með skattheimtukvöðum á jarðnæði. Þvert á
móti er þar eindregið haldið fram óskoraðri eign landnámsmanna á
landinu. Þetta er því afar ósennileg tilgáta.
Önnur tilgáta er að ritun Landnámu tengist áformum um að
innleiða hér á landi óðalsrétt í einhverri mynd.5 Þeirri tilgátu hefur
verið andmælt, m.a. með þeim gildu rökum að í Landnámu sé ekki
sýnt hvernig jarðir gengu að erfðum frá landnámsmönnum fram á
ritunartíma hennar; ættartölurnar í henni eru alls ekki raktar með
það sjónarmið fyrir augum.6 Þegar Magnús Már Lárusson birti svo
grein sína um óðalsrétt árið 1967 og sýndi m.a. fram á að jarðeign-
arréttur á miðöldum hefur verið mjög svipaður í Noregi og á Ís -
landi samkvæmt hinum fornu lögum, varð ljóst að þessi hugmynd
um innleiðingu óðalsréttar var með öllu grundvallarlaus.7 Land -
hvað er landnámabók? 183
4 Einar G. Pétursson, „Efling kirkjuvalds og ritun Landnámu“, Skírnir 160
(1986), bls. 193–222, hefur reynt að renna stoðum undir þessa tilgátu, en áður
höfðu m.a. Halldór Hermannsson og Arnór Sigurjónsson lagt drög að henni.
5 Barði Guðmundsson, „Uppruni Landnámabókar“, Uppruni Íslendinga
(Reykjavík 1959), bls. 90 (upphaflega í Skírni 112 (1938), bls. 20).
6 Jón Jóhannesson, Gerðir Landnámabókar (Reykjavík 1941), bls. 219–220.
7 Magnús Már Lárusson, „Odelsrett“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelal-
der XII (Reykjavík 1967), dlk. 499–502.
Saga haust 2008 nota:Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2008 15:38 Page 183