Saga - 2006, Page 5
F O R M Á L I R I T S T J Ó R A
Umræða um tengsl Íslands við umheiminn er sífellt að aukast. Sú þróun
þarf ekki að koma á óvart þegar horft er til þess að tækninýjungar hafa
„stytt“ fjarlægðir og auðveldað samskipti fólks. Hnattvæðingin er ein birt-
ingarmynd þessara breytinga og hún knýr öll ríki, stór og smá, til virks
símats á stöðu sinni innan viðskipta-, menningar- og hernaðarbandalaga.
Þessi kvika breytinga, sem brennimerkir samtímann, verður hins vegar
vart útskýrð á árangursríkan hátt nema undir sögulegum sjónarhornum.
Fræðileg fagtímarit, þar sem framboðið efni er rýnt og ritstýrt af sérfræð-
ingum, eru ómissandi vettvangur slíkra umræðna og mikilvægt er að
metnaðarfullir höfundar gleymi ekki muninum á þeim og menningarsíð-
um fréttablaða.
Tengsl Íslands við umheiminn eru höfundum fjögurra aðalgreina þessa
heftis einmitt mjög hugleikin. Þór Whitehead fjallar um afstöðu Íslendinga
til hlutleysis frá 1918 til 1945. Hann færir rök fyrir því að afstaða þeirra hafi
við upphaf þessa tímabils stjórnast bæði af raunsæi og þjóðernishyggju, en
þegar leið á síðari heimsstyrjöld hafi hlutleysisstefnan einungis verið orðin
að tjáningarformi fyrir þjóðernishyggju nýfrjálsrar þjóðar. Þór telur að þótt
valkostir smáríkja séu oft takmarkaðir, þá hafi íslenskum valdhöfum tekist
í samskiptum sínum við stórveldin að ná samningum sem varðveittu sjálf-
stæði landsins og stórefldu efnahag þess. Síðan tók kalda stríðið við af síð-
ari heimsstyrjöld og teygði anga sína víðar en nokkur átök höfðu gert fram
að þeim tíma. Ísland fór ekki varhluta af þessu nýja „stríði“ vegna staðsetn-
ingar sinnar í Norður-Atlantshafi. Í grein Tinnu Grétarsdóttur og Sigurjóns
Baldurs Hafsteinssonar er rætt um eina birtingarmynd þessara átaka hér-
lendis, kvikmyndasýningar stórveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna,
einkum á landsbyggðinni. Færð eru rök fyrir því að þótt kvikmyndasýn-
ingar stórveldanna hafi oft verið allvel sóttar, þá hafi það ekki sjálfkrafa
leitt til þess að almenningur hafi gleypt við boðskapnum.
Á 19. öld jókst áhugi erlendra manna á Íslandi. Hér ræðir Sigrún Páls-
dóttir um endurútgáfu á verkinu Northern Antiquities á Englandi árið 1847.
Útgefandi að nafni Blackwell, lítt þekktur í fræðaheiminum, lagði með út-
gáfu sinni drjúgan skerf til kynningar á norrænum miðaldabókmenntum
og íslenskri menningu í hinum engilsaxneska heimi. Loks greinir Kristín
Loftsdóttir svo íslenskar ímyndir Afríku á miðöldum en vísanir til álfunn-
ar má finna í allmörgum miðaldahandritum. Kristín sýnir m.a. fram á að á
þeim tíma voru ímyndirnar fjölbreyttari og jákvæðari en þær sem eru ráð-
andi í kynþáttahyggju nútímans þar sem mikið ber á neikvæðum skírskot-
unum til álfunnar.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 5