Saga - 2006, Page 21
Þ Ó R W H I T E H E A D
Hlutleysi Íslands á hverfanda hveli
1918–1945
Hvers vegna létu Íslendingar ekki af ,,ævarandi hlutleysi“, þó að innrás
Þjóðverja vofði yfir 1940? Hvað varð um hlutleysið, eftir að Bretar hernámu
landið og Íslendingar gerðu herverndarsamning við Bandaríkjamenn 1941?
Hvers vegna neitaði Alþingi að lýsa yfir styrjöld á hendur Þjóðverjum 1945,
þó að það væri skilyrði fyrir inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar, sem Íslend-
ingar byggðu á vonir sínar um hagsæld og öryggi að stríði loknu? Þetta eru
nokkrar þeirra spurninga sem hér er leitað svara við. Færð verða rök fyrir
því að í utanríkisstefnunni hafi falist tveir meginþættir, raunsæi og þjóðernis-
hyggja, sem ráðamönnum hafi reynst æ erfiðara að samræma þegar leið á
fjórða áratug 20. aldar, heimsstyrjöld hófst og kostir í utanríkisviðskiptum
þrengdust. Þrátt fyrir náið samstarf við Bandamenn hafi íslenskir ráða-
menn samt ekki hafnað hlutleysi sem grundvallarstefnu, því hafi landið
formlega haldið stöðu sinni sem hlutlaust ríki 1939–1945.*
Vorið 1940 var loft lævi blandið í Reykjavík. Níunda apríl réðust
Þjóðverjar inn í Danmörku og Noreg, og hætta á því að þeir eða
Bretar hernæmu Ísland hafði augljóslega stóraukist. „Hvað gerist
næst?“ var spurningin sem brann á vörum margra Íslendinga
næstu vikurnar.1 Noregur hafði átt að heita öruggur í skjóli breska
flotans, en í krafti nýs flughers hafði Hitler lagt landið undir sig.
Ráðamenn í Reykjavík og London óttuðust að Hitler væri að und-
irbúa slíka leifturinnrás hér og sá ótti var alls ekki ástæðulaus.2
Saga XLIV:1 (2006), bls. 21–64.
G R E I N A R
* Höfundur þakkar Gunnari F. Guðmundssyni sagnfræðingi og Magnúsi K.
Hannessyni sendifulltrúa fyrir að lesa yfir grein þessa, og Jóni Torfasyni skjala-
verði fyrir hjálp við gagnaöflun.
1 Sigríður Thorlacius, minnisblað til höfundar, 29. maí 1995.
2 Þór Whitehead, Milli vonar og ótta. Ísland í síðari heimsstyrjöld (Reykjavík 1995),
bls. 266–289, 301–304, 313–326, 353–354. — Þór Whitehead, Bretarnir koma. Ís-
land í síðari heimsstyrjöld (Reykjavík 1999), bls. 172–181.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 21