Saga - 2006, Side 22
Walter Warlimont, ofursti í þýska yfirherráðinu og kunnur sam-
starfsmaður Hitlers, komst svo að orði í viðtali við bandarískan
liðsforingja að stríði loknu:
Hitler hafði sannarlega áhuga á því að hernema Ísland fyrir
hernám ykkar [sumarið 1941]. Í fyrsta lagi vildi hann koma í
veg fyrir „að nokkur annar“ gæti komist þangað; og í öðru lagi
vildi hann einnig nota Ísland sem flugbækistöð til að vernda
kafbáta okkar, sem herjuðu á þessu svæði.3
Íslenskir ráðamenn voru ekki í nokkrum vafa um að þýskir nasist-
ar kæmu hér á blóðugri ógnarstjórn ef þeir hremmdu landið. Þá
hlyti Ísland að verða að orrustuvelli, þar sem Bretar mundu beita
öllu afli til að losa landið úr höndum þýsks innrásarliðs. Jafnvel
þótt Ísland slyppi við þýska innrás væri hætta á því að sigur Þjóð-
verja í styrjöldinni gæti bundið enda á sjálfstæði, fullveldi og lýð-
ræði Íslendinga. Eins og mikill meirihluti þjóðarinnar höfðu ráða-
menn óskað þess einlæglega frá fyrsta degi stríðsins að Bandamenn
hefðu betur. En þegar ríkisstjórn Íslands, þjóðstjórnin, og þingmenn
tóku að ræða viðbrögð við innrás Þjóðverja í Norðurlönd höfðu að-
eins tveir menn, Jónas Jónsson frá Hriflu, formaður Framsóknar-
flokksins, og Thor Thors, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagt til að
Íslendingar leituðu verndar Bandaríkjamanna.4 Hvernig gátu ráð-
herrar hafnað þessari tillögu, þegar ljóst var orðið að einræðisríkin
notuðu sér hlutleysi smáríkja sem skálkaskjól til að leggja þau und-
ir sig? Þessari spurningu þarf að svara, en til þess verður að hverfa
til ársins 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki.
Raunsætt mat og þjóðernishyggja
Í 19. grein sambandslagasamnings Danmerkur og Íslands sagði:
Danmörk tilkynnir erlendum ríkjum, að hún samkvæmt efni
þessara sambandslaga hafi viðurkennt Ísland fullvalda ríki, og
Þ Ó R W H I T E H E A D22
3 Frumtexti hljóðar svo: „Hitler definitely was interested in occupying Iceland
prior to your occupation. In the first place, he wanted to prevent „anyone else“
from coming there; and, in the second place, he also wanted to use Iceland as
an air base for the protection of our submarines operating in that area.“ (RG
338, Department of the Army, Foreign Military Studies ETHINT-2. General
Walter Warlimont, viðtal 28. júlí 1945.) Engir þýskir kafbátar herjuðu reyndar
við Ísland vorið 1940, en með orðinu ,,svæði“ átti Warlimont trúlega við Norður-
Atlantshaf.
4 Þór Whitehead, Milli vonar og ótta, bls. 266–275. — Þór Whitehead, Bretarnir
koma, bls. 18–20, 56.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 22