Saga - 2006, Síða 23
tilkynnir jafnframt, að Ísland lýsi yfir ævarandi hlutleysi sínu
og að það hafi engan gunnfána.5
Það hefur lengi verið viðtekin skoðun, að Íslendingar hafi lýst þannig
yfir hlutleysi sínu og herleysi af einskærum friðar- og sjálfstæðisvilja.
Umræður á Alþingi og blaðaskrif sýna þó, að íslenskir ráðamenn
gerðu sér engar grillur um að smáþjóðir gætu sloppið undan ágangi
stórvelda með því einu að blessa friðinn. Íslendingar höfðu lært það
af reynslunni, sérstaklega í Napóleonsstríðunum snemma á 19. öld
og í heimsstyrjöldinni fyrri, að breski flotinn drottnaði á Atlantshafi.
Öryggi landsins væri því aðeins hætta búin, að Bretar teldu sig til
knúna að taka landið í stað þess að veita því óbeina vernd gegn
fjandmönnum sínum á meginlandinu og banna Íslendingum alla
verslun við þá á stríðstímum. Á lokaári fyrri heimsstyrjaldar, 1918,
óttuðust ýmsir íslenskir áhrifamenn að Danmörk væri ósjálfrátt að
dragast inn í styrjöldina við hlið Þjóðverja. Því þyrftu Íslendingar að
lýsa sig hlutlausa án tafar til að forðast hernám Breta eða jafnvel til-
kall Bretakonungs til yfirráða yfir landinu að stríði loknu.6 Vald Breta
hér byggðist á því að þeir gátu lokað öllum samgönguleiðum til
landsins og þjóðin var þeim háð um utanríkisverslun og síðar lánsfé
til framkvæmda. Hlutleysisyfirlýsingunni var því í raun einkum
beint að Bretum, þar sem engin önnur stórþjóð gat hugsanlega ógn-
að öryggi landsins. Íslenskir ráðamenn voru sáttir við stöðu landsins
á bresku valdsvæði, m.a. vegna þess að breska stjórnin skipti sér lítt
eða ekki af málefnum landsins nema á stríðstímum og Bretar töldust
forystuþjóð þingræðis og lýðræðis í Evrópu.7
Utanríkisstefnan sem Íslendingar tóku með fullveldinu 1918
byggðist þess vegna á raunsæju viðhorfi til hernaðar, stjórnmála og
hlutleysi íslands á hverfanda hveli 23
5 Stjórnartíðindi 1918 A, bls. 75–79 (Nr. 39/1918).
6 Það hnykkir á þessu, að í fyrstu uppköstum af sambandslagasamningnum var
að finna þetta orðalag: „Þótt annað hvort bandalagsríkið hefji ófrið eða þurfi
að verjast ófriði, þá tekur það eigi til hins ríkisins, og skal það mega hafa full-
an frið fyrir því. Og heimilt skal hvoru ríki um sig, án þess að til þurfi sam-
þykki bandalagsríkisins, að ná föstu hlutleysi og alþjóðaviðurkenningu á því.“
(Matthías Johannessen, Ólafur Thors. Ævi og störf I (Reykjavík 1981), bls.
318–319.) Ákvæðið um „ævarandi hlutleysi“ verður að skoða í þessu sam-
hengi, eins og Matthías Johannessen hefur bent á. Því var einkum ætlað að skilja
í eitt skipti fyrir öll á milli afstöðu Íslands og Danmerkur í styrjöldum sem
Danir kynnu að eiga aðild að.
7 Sbr.: Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi. Ísland í síðari heimsstyrjöld (Reykjavík
1980), bls. 16–22, 26–30.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 23