Saga - 2006, Qupperneq 26
að gera ekki of mikið úr tilhneigingu ríkisstjórna til að teygja sig út
fyrir ramma hlutleysis í leit að öryggi og lausn frá kreppu. Ráða-
menn lifðu og hrærðust eftir sem áður í andrúmslofti þjóðernis-
hyggju, voru ekki með öllu lausir við tvískinnung í samskiptum við
stórveldin og skilgreindu hlutleysið á þrengsta veg þegar þeir töldu
það henta hagsmunum landsins eða taflstöðu sinni innanlands.12
En það verður einnig að hafa í huga, að menn voru að reyna að
bjarga íslensku þjóðarbúi af barmi gjaldþrots, orð og ákvarðanir
um utanríkismál gátu snert líf og dauða fjölda Íslendinga og vopn-
laust smáríkið hafði iðulega takmarkaða möguleika til að gera annað
en laga sig að aðstæðum.
Þess sjást merki, að haustið 1937 voru íslenskir ráðherrar farnir
að leita nýrra leiða við að styrkja öryggi landsins. Ríkisstjórn Fram-
sóknarflokks og Alþýðuflokks íhugaði hvort hugsanlegt væri að
afla trygginga annarra ríkja á hlutleysi Íslands og bað Svein Björns-
son, sendiherra í Kaupmannahöfn, að kanna það í flýti. Sveinn leit-
aði álits hjá fróðum mönnum og las sér sjálfur til um málið. Hann
taldi Sviss eina ríki heimsins sem nyti trygginga annarra þjóða á
hlutleysi sínu. Fyrir því væri gömul hefð, sem byggðist m.a. á því
að í landinu væru þrjú þjóðarbrot tengd nágrannaþjóðunum. Þar að
auki hefðu Svisslendingar sýnt og sannað að þeir hefðu bæði her-
styrk og fullan vilja til að hindra að ófriðarþjóðir gætu notfært sér
svissneskt yfirráðasvæði með nokkrum hætti. Eftir stofnun Þjóða-
bandalagsins árið 1919 hefðu Bandamannastórveldin, Bretar og
Frakkar, þó tekið að draga í efa að nokkur sú þjóð sem í bandalag-
ið gengi gæti talist hlutlaus. Allar hefðu þær gengist undir skuld-
bindingar um að grípa til aðgerða, þ.á m. hernaðaraðgerða, gegn
ríkjum er brytu sáttmála bandalagsins. Undan því yrði ekki skorast
í nafni hlutleysis. Þjóðabandalagsráðið hefði staðfest þessa afstöðu
sína í grundvallaratriðum þegar það samþykkti inngöngu Sviss í
bandalagið, en viðurkennt ævarandi hlutleysi landsins með því að
Þ Ó R W H I T E H E A D26
12 Til marks um þetta má hafa framkomu stjórnvalda við ýmsa landflótta gyð-
inga, saltfisksölur til Ítalíu Mússólínis í trássi við viðskiptabann Þjóðabanda-
lagsins, tilraunir til að hefta gagnrýni á Þriðja ríkið í dagblöðum, útvarpi, bók-
um og kvikmyndum, svo og umfangsmikla afurðasölu til Þýskalands eftir að
heimsstyrjöld hófst 1939. Sjá: Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi, bls. 50, 85–90,
93–97. — Þór Whitehead, Stríð fyrir ströndum. Ísland í síðari heimsstyrjöld
(Reykjavík 1985), bls. 59–71. — Þór Whitehead, Milli vonar og ótta, bls. 32–38,
144–149. — Sjá einnig: Þór Whitehead, Íslandsævintýri Himmlers 1935–1937 (2.
útgáfa, Reykjavík 1998).
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 26