Saga - 2006, Qupperneq 37
töldu þó æskilegra fyrir Ísland að njóta verndar Bandaríkjanna
fremur en Bretlands, eins og stjórnin hafði ályktað um með leynd
eftir innrásina í Finnland 1939. Sú niðurstaða stjórnarinnar, að
vernd Bandaríkjanna, „hlutlauss“ stórveldis, veitti þjóðinni meira
öryggi en hernám styrjaldaraðila, Bretaveldis, sýndist jafnvel hafa
styrkst á umliðnum tíma. Bretaveldi átti nú sjálft yfir höfði sér inn-
rás og virtist hæglega geta orðið undir í ófriðnum. Vanmáttur Breta
við að uppfylla kröfur þjóðstjórnarinnar um vörukaup ýtti líka
undir áhuga á bandarískri hervernd. Í kreppunni miklu á fjórða
áratugnum höfðu ráðamenn farið að líta á Bandaríkin sem fyrir-
heitna landið fyrir íslenskan útflutning. Nú hafði Bretland tekið
þennan sess, en ráðamenn vissu að valt gat verið að treysta á breska
markaðinn og sterlingspund í bráð og lengd. Innflutningur frá
Bandaríkjunum hafði þegar forðað Íslendingum frá sárum skorti,
eins og í fyrra stríði, en dollara skorti til að fullnægja eftirspurn eft-
ir bandarískum varningi. Útflutningur vestur átti sér erfitt upp-
dráttar, m.a. vegna þess að fyrirheitna landið var umlukt háum toll-
múrum. Sú hugmynd hafði vaknað á meðal íslenskra áhrifamanna,
að vænlegast væri að komast yfir tollmúrana með því að semja við
Bandaríkjamenn um viðskiptahlunnindi gegn því að þeir fengju
hér hernaðaraðstöðu. Nægtabúr Nýja heimsins virtist eiga sér ör-
ugga framtíð og geysimikils um vert að tryggja sér aðgang að því
ásamt óheftum viðskiptum vestur, á meðan gamli heimurinn, Evr-
ópa, væri enn einu sinni í heljargreipum stríðs, skorts og einræðis.41
Sá ljóður var þó á öllum ráðagerðum um slíka vernd, að foringjar
Bandaríkjahers töldu sig enga þörf hafa fyrir landið til varnar.
Bandaríkjastjórn fylgdi enn, a.m.k. að nafninu til, svokallaðri Mon-
roe-kenningu frá 1823. Í kenningunni fólst m.a. að Bandaríkin skiptu
sér ekki af átökum ríkja í Evrópu, en þyldu enga landvinninga
Evrópuríkja í Vesturálfu. Markalína álfunnar hafði verið dregin um
Grænland, svo að Ísland taldist utan við þetta aðalöryggissvæði
Bandaríkjanna.42
hlutleysi íslands á hverfanda hveli 37
41 UR, Ýmis skjöl. Vilhjálmur Þór til Hermanns Jónassonar, 10. des. 1939, 27. jan.,
19. júní 1940. — „Leið viðskipta vorra liggur í vesturátt“, Morgunblaðið 19.
mars 1940, bls. 3. — „Þýðing aukins sambands milli Íslands og Ameríku“, Al-
þýðublaðið, 19. mars 1940, bls. 1, 4.
42 Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi, bls. 248–261. — Stetson Conn o.fl., United
States Army in World War II. The Western Hemisphere. Guarding the United States
and its Outposts (Washington D.C. 1964), bls. 462–463. Sama ritröð, The
Framework of Hemisphere Defence (Washington D.C. 1960), bls. 34–35.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 37