Saga - 2006, Page 43
Aldrei, hvorki fyrr né síðar, hafa Íslendingar verið í sterkari að-
stöðu gagnvart stórveldunum eins og á þessum örlagatíma í sögu
heimsstyrjaldarinnar í júní 1941. Þeir gátu sett þau skilyrði sem þeir
kærðu sig um fyrir samþykki sínu við herverndarboði Roosevelts,
og gerðu það óspart. En þjóðstjórnarráðherrarnir skynjuðu líka vel
þá þungu ábyrgð sem á þeim hvíldi, og vildu greiða Bandaríkjun-
um leið inn í styrjöldina til hjálpar Bretum og sigurs yfir Þýskalandi
Hitlers. Þeir vissu að þeir yrðu að víkja frá „ævarandi hlutleysi“
landsins til að svo mætti verða, og gerðu það í trausti þess að frá-
vikið þjónaði öryggi og lífshagsmunum Íslands í bráð og lengd.58
Allt fram á okkar daga, 65 árum eftir komu Bandaríkjahers til
landsins, virðast hins vegar ótrúlega margir Íslendingar enn standa
í þeirri trú að Roosevelt hafi boðið Íslandi hervernd vegna þess að
Bretar hafi þurft á setuliði sínu að halda annars staðar, eins og þeir
fullyrtu við þjóðstjórnina. Það hefur ekki komist hér nægjanlega vel
til skila, að herverndarsamningurinn var mikilvægasta framlag ís-
lenskra stjórnvalda til heimsstjórnmála á stríðsárunum og þar með
á gjörvallri 20. öld, vegna þess að samningurinn opnaði Bandaríkja-
forseta greiða leið inn í orrustuna um Atlantshaf. Annar algengur
misskilningur um stríðssöguna (sem líklega hlaust af hinum fyrr-
nefnda) er sá, að Bandaríkjaher hafi leyst hér af hólmi allan bresk-
an herafla 1941–1942. Svo var alls ekki, eins og hér hefur þegar
komið fram, og raunar voru það Bretar sem héðan herjuðu öðrum
fremur á sjó og í lofti til stríðsloka, þó að Bandaríkjamenn sæju um
landvarnir frá 1942.59
hlutleysi íslands á hverfanda hveli 43
58 Viðtal. Höfundur við Eystein Jónsson, 14. sept. 1972. — Vilhjálmur Hjálmars-
son, Eysteinn í eldlínu stjórnmálanna, bls. 291–292. — Stefán Jóhann Stefánsson,
Minningar I, bls. 202.
59 Svanur Kristjánsson heldur því fram í greininni ,,Forsetinn og utanríkisstefn-
an. Bandaríkjaför Sveins Björnssonar árið 1944“ (Ný saga XIII (2001), bls. 4–16)
að Sveinn Björnsson hafi ráðið mestu um gerð herverndarsamningsins. Þó að
Sveinn hafi á allan hátt gegnt lofsverðu hlutverki við að greiða fyrir málum
með Howard Smith, mótaði hann hvorki efni samningsins né átti hann
nokkurn þátt í að marka þá vestursókn íslenskra stjórnvalda sem hér hefur
verið lýst og hófst 1938. Fullyrðing Svans um að ,,enginn flokksforingi eða
þingmaður hafi haft jafnmikil áhrif á utanríkisstefnu landsins og Sveinn
Björnsson“ 1941–1952 fær ekki staðist, enda engin haldbær rök færð fram fyr-
ir henni í áðurnefndri grein. Sveinn kom í raun lítt eða alls ekki nærri afdrifa-
ríkustu ákvörðunum á sviði utanríkismála 1941–1952, eins og auðveldlega
má ganga úr skugga um með því að kynna sér efni helstu rita sem fyrir liggja
um utanríkissögu þessa tímabils. Bandaríkjaför Sveins 1944 hafði hvorki áhrif
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 43