Saga - 2006, Page 61
áður ein aðalbækistöð breska flughersins og sjóhersins í átökunum
á Atlantshafi. Bretar voru staðráðnir í því að halda tengslum sínum
við Íslendinga en veita Bandaríkjamönnum hlutdeild í þeim til
frambúðar til að treysta öryggi sitt og Vestur-Evrópu. Íslenskir
ráðamenn litu stöðu landsins frá 1941 svipuðum augum og Bretar.
Þeir töldu að Ísland væri á sameiginlegu öryggis- og hagsmuna-
svæði Breta og Bandaríkjamanna og fögnuðu því að hafa náð
traustum tengslum við stórveldið í vestri, eins og að hafði verið
stefnt fyrir stríð.104
Herverndarsamningurinn reyndist að sönnu lausn á öllum
þeim höfuðvanda sem þjóðstjórnin íslenska hafði staðið frammi
fyrir í upphafi stríðs: Samningurinn tryggði öflugar varnir gegn
Þjóðverjum, einstaka hagsæld í landinu og nægar siglingar. Ráða-
menn töldu að sannast hefði að fráhvarf frá hlutleysi hefði reynst
nauðsynlegt til að tryggja lífshagsmuni þjóðarinnar, þó að vonir
stæðu til að endurvekja það í breyttri mynd innan ramma nýrra al-
þjóðlegra öryggis- og viðskiptasamtaka að styrjöld lokinni.
Þegar nýsköpunarstjórnin stóð frammi fyrir því að taka loka-
skrefið inn í ófriðinn með stofnaðild að Sameinuðu þjóðunum, neit-
aði hún að lýsa yfir stríði á hendur Þjóðverjum beint eða óbeint. Þá
ítrekaði stjórnin að hún teldi að hlutleysisyfirslýsingin frá 1918 væri
enn í gildi sem grundvallarviðmið íslenskrar utanríkisstefnu:
Formlega séð væri Ísland hlutlaust ríki. Rök hníga að því að þess-
ari lögformlegu stöðu hafi Ísland haldið öll styrjaldarárin. Þetta
breytir hins vegar engu um það, að í raun voru Íslendingar hlut-
drægir. Þeir unnu náið með Bretum og Bandaríkjamönnum í þágu
eigin öryggis og viðskiptahagsmuna í vissu þess að þeir ættu frelsi
sitt og stjórnskipulag undir sigri Vesturveldanna í styrjöldinni.
hlutleysi íslands á hverfanda hveli 61
104 Þór Whitehead, „Lýðveldi og herstöðvar“, bls. 126–131, 135–136, 141–142. —
Gögn Thors Thors í vörslu höfundar. Ólafur Thors, minnisblöð handa Thor
Thors um herstöðvabeiðnina. — Kristinn E. Andrésson, „Minnisblöð um
leynifundi þingmanna um herstöðvarmálið 1945“, bls. 5–13. — Hermann
Jónasson, „Leiðin til öryggis“, Tíminn 31. ágúst 1945, bls. 3, 6.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 61