Saga - 2006, Blaðsíða 74
útbreidd og allra síst í Bretlandi. Í inngangi sínum leggur Blackwell
þannig ríka áherslu á vandaða og nákvæma heimildarýni:
Í þessu erfiða verkefni sínu hefur ritstjórinn haft sem ófrávíkj-
anlega reglu að sannreyna allar yfirlýsingar höfunda, jafnvel
þeirra sem eru taldir þeir áreiðanlegustu í faginu, með því að
fletta upp í Eddukvæðum og Snorra-Eddu, Íslendingasögum
og Grágás […] Í stuttu máli sagt hefur hann með óþreytandi
nákvæmni og rækilegum rannsóknum kappkostað að gera
þetta eitt af vönduðustu ritum um norrænan menningaarf sem
til þessa hefur verið gefið út.17
En hið vísindalega viðhorf birtist ekki bara í kröfu Blackwells um
heimildarýni og hlutlægni heldur í hugtakanotkun og umfjöllun um
nýjar fræðigreinar. Þetta á bæði við um ýmiss rannsóknarsvið tungu-
málsins og rannsóknir á menningu og samfélögum manna en það
hlýtur að teljast meira en lítið athyglisvert að í bók sem fjallar um sögu
bókmennta, tungumála, réttarfars og samfélagshátta sé mannfræði
kynnt til sögunnar sem ný vísindaleg nálgun á slík viðfangsefni. Og
um það bil 25 árum áður en „faðir“ mannfræðinnar, Edward B. Tylor,
skilgreindi rannsóknarefni hennar sem menningu í merkingunni
mannlegt atferli. Skilgreining Tylors merkti þó ekki að menning sem
viðfangsefni mannfræðinnar væri afstætt fyrirbæri því að í verkum
hans er menning áfangi sem öll samfélög stefna að. Menningin var
mælanleg, vísindalegt viðfangsefni enda var mannfræði Tylors hluti
af pósitívisma 19. aldar og þeirri framfaratrú sem honum tengdist. Og
þannig telur Blackwell að hin unga fræðigrein muni ljá athugunum á
samfélagi manna vísindalegar forsendur: „Mannfræði, því miður,
hefur enn ekki slitið barnskónum. Enda þótt maðurinn hafi verið
rannsóknarefni víða um heim er það aðeins nýlega sem slíkar rann-
sóknir hafa verið framkvæmdar á vísindalegum grunni.“18
S I G R Ú N P Á L S D Ó T T I R74
17 „In the prosecution of his laborious task, the Editor has made it an invariable
rule to test the statements even of writers who are generally regarded as auth-
oritative on the subject, by referring to the Eddas, the Sagas, and the Grágás […]
In short, he has endeavoured, by unremitting attention and diligent research, to
make this one of the most complete works on Northern Antiquities hitherto
published.“ I.A. Blackwell, „The Editor’s preface“, Northern Antiquities, [1].
18 Anthropology, unfortunately, is still in its infancy. Man has certainly been
made the object of a special study in every quarter of the globe, but it is only
since a very recent period that this study has been conducted on scientific
principles. I.A. Blackwell, „Remarks on Bishops Percy’s preface“, Northern
Antiquites, bls. 25. (þýðing höfundar)
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 74