Saga - 2006, Page 81
T I N N A G R É TA R S D Ó T T I R O G
S I G U R J Ó N B A L D U R H A F S T E I N S S O N
Kalda stríðið og kvikmyndasýningar
stórveldanna 1950–1975
Kvikmyndir og kvikmyndasýningar gegndu veigamiklu hlutverki í stjórn-
málum kalda stríðsins. Sovétríkin og Bandaríkin nýttu sér kvikmyndir til hins
ýtrasta til að koma á framfæri pólitískri hugmyndafræði sinni og jákvæðri
ímynd af stjórnskipulagi og menningu landanna. Hefur þessu starfi verið lýst
sem „menningarstríði“. Hér á landi voru það einkum Menningartengsl Ís-
lands og Ráðstjórnarríkjanna (MÍR) og Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna
(USIS) sem héldu reglulega kvikmyndasýningar og dreifðu kvikmyndum og
kvikmyndasýningarvélum sínum víða um land. Þótt hugmyndafræðilegt
stríð á vettvangi stjórnmálanna hafi ríkt milli stórveldanna, þar sem barist var
með vopnum menningarinnar eins og kvikmyndum, þá reynast það vafasam-
ar staðhæfingar með tilliti til reynslu fólks af þessum sýningum.*
Kvikmyndir og kvikmyndasýningar gegndu veigamiklu hlutverki í
stjórnmálum Sovétríkjanna og Bandaríkjanna á tímum kalda stríðsins.
Bæði stórveldin kappkostuðu að nýta sér kvikmyndamiðilinn til að
skapa hugmyndafræði sinni, stjórnskipulagi og menningu jákvæða
ímynd, ekki síst á erlendum vettvangi. Menningar- og hugmynda-
fræðileg útþensla stórveldanna á erlendri grund hefur stundum verið
kölluð „menningarstríð“ þar sem bæði ríkin kepptust við að tefla fram
margvíslegum menningarviðburðum, þar á meðal kvikmyndasýning-
um, í þeim tilgangi að hafa áhrif á hugmyndir fólks víða um heim.1
Saga XLIV:1 (2006), bls. 81–121.
* Við viljum þakka eftirfarandi aðilum fyrir margvíslegar upplýsingar og aðstoð:
Arnari Árnasyni, Eggerti Þór Bernharðssyni, Mörtu Jónsdóttur, Rósu Magnús-
dóttur, Guðrúnu Gylfadóttur, Sigríði Þorvaldsdóttur, Ívari H. Jónssyni, Þór-
unni Boulder og Bessí Jóhannsdóttur. Viðmælendur okkar fá einnig hjartans
þakkir fyrir skemmtileg viðtöl og viðkynningu.
1 The Cultural Cold War in Western Europe, 1945–1960. Ritstj. Giles Scott-Smith og
Hans Krabbendam (London, 2003). — Frances Stonor Saunders, Who Paid the
Piper? The CIA and the Cultural Cold War (New York, 1999). — Frances Stonor
Saunders, The Cultural Cold War. The CIA and the World of Arts and Letters (New
York, 2001). Sjá einnig: Rósa Magnúsdóttir, „Menningarstríð í uppsiglingu.
Stofnun og upphafsár vináttufélaga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á Ís-
landi“, Ný Saga (2000), bls. 29–40.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 81