Saga - 2006, Side 83
og lýsingar fólks sem kemur að framleiðslu kvikmynda, dreifingu,
sýningu þeirra og upplifun er aftur á móti grunnur sem fræðimenn
um kvikmyndir verða að byggja á í umfjöllunum sínum að okkar
mati. Rússneski sagn- og kvikmyndafræðingurinn Yuri Tsivian,
sem skrifaði bók um upphafsár kvikmyndasýninga í Rússlandi
1896–1920, hefur til dæmis haldið því fram að til þess að skilja þátt
kvikmynda í hugmyndalegu samhengi sé nauðsynlegt að líta á
reynslu fólks af kvikmyndasýningum, en ekki eingöngu að einblína
á kvikmyndina sjálfa sem texta.5 Í svipaðan streng hafa aðrir fræði-
menn tekið og bent á að upplifun fólks af sjónrænu efni eins og
kvikmyndum þurfi að skoða í víðara samhengi hversdagslegra at-
hafna og umræðu.6 Upplifun á kvikmyndum er ekki einvörðungu
bundin skynjun hvers og eins á meðan kvikmyndin flöktir á tjald-
inu. Hún verður einnig til og tekur á sig ný tilbrigði í félagslegum
samskiptum innan sem utan veggja kvikmyndahússins. Félagsleg
samskipti í tengslum við kvikmyndahúsin, kvikmyndasýningar og
hvað staðirnir hafa upp á að bjóða eru jafnframt mikilvægur þráð-
ur í að skilja hvaða þátt kvikmyndirnar eiga í menningu og samfé-
lagi fólks.7
Á þennan hátt viljum við nálgast kvikmyndasýningar Upplýs-
ingaþjónustu Bandaríkjanna og MÍR, sem voru í fararbroddi við að
kynna menningu stórveldanna hér á landi. Með því að skoða starf-
semi þeirra og rýna í hvað fór fram á þessum sýningum kemur í ljós
önnur mynd en sú sem talsmenn hugmyndarinnar um „menning-
arstríð“ hafa dregið upp.
Bandarísk stjórnmál og kvikmyndaframleiðsla
Bandarísk stjórnvöld hafa allt frá þátttöku sinni í fyrri heimsstyrj-
öldinni notað kvikmyndamiðilinn til að koma á framfæri pólitísk-
um skoðunum sínum. Kvikmyndaiðnaðurinn í Bandaríkjunum
K A L D A S T R Í Ð I Ð O G K V I K M Y N D A S Ý N I N G A R 83
5 Yuri Tsivian, Early Cinema in Russia and Its Cultural Reception (Chicago, 1994),
bls. 125.
6 David Morley, Home Territories. Media, Mobility and Identity (London og New
York, 2000). — Nick Couldry, The Place of Media Power. Pilgrims and Witnesses of
the Media Age (London og New York, 2000).
7 Brian Larkin, „Materializing Culture. Cinema and the Creation of Social
Space“, Media Worlds. Anthropology on New Terrain. Ritstj. Faye Ginsburg, Lila
Abu-Lughod, Brian Larkin (Berkeley, 2002), 319–336.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 83