Saga - 2006, Page 109
leika sér að semja einhverja revíuþætti og þetta var stundum
haft með líka.86
Áhorfendur í Fagrahvammi virðast hafa verið mjög áhugasamir
um það sem þeir sáu á tjaldinu. Ólafur Sveinsson segir til dæmis frá
því að fólk hafi spekúlerað og rætt sín á milli það sem það sá og
voru atriði sem vöktu sérstakan áhuga fólks oft endurtekin á tjald-
inu. Fólk virðist því hafa borið saman skilning og túlkun sína á at-
burðunum á tjaldinu á meðan á sýningu stóð og á eftir í umræðum
eða í kaffispjalli.87 Kvikmyndasýningarnar gáfu sveitungum tæki-
færi til að hittast og hafa einhverja skemmtun af. Þær gerðu sam-
komur þeirra fjölbreyttari og auðguðu umræðuefnin og sjónarhorn
fólks. Þær gáfu fólki sem var tiltölulega bundið heimahögunum og
hafði lítil tök á að ferðast möguleika á að kynna sér hvað væri að
gerast annars staðar í heiminum eða eins og Páll segir:
Málið var það að þetta var fólk sem langaði til að vita, skilja og
sjá. Þetta var fólk sem bara ólst upp við rollujarm og það þurfti
bara meira. Það vissi að það var meira til í heiminum og það
var bara að reyna að komast í samband við það. Þetta var
gluggi að umheiminum, virkilega.88
Ólafur, líkt og Páll, segir að fólk hafi oftar en ekki komið sér saman
um hvernig myndir það vildi sjá. Það hafi haft lista yfir kvikmynd-
ir MÍR og því getað óskað eftir ákveðnum myndum fremur en öðr-
um.
Við vorum að reyna að velja úr þessu og reyna að fá einhverj-
ar skemmtilegar myndir fyrir okkur hérna. […] hvernig fólk
bjó og framkvæmdir á einhverju og eitthvað þess háttar. Alls
konar myndir […] Þetta voru bara svona myndir sem höfðuðu
til alþýðunnar, má segja, hversdagsleikans.89
Kvikmyndirnar voru álitnar gluggi að umheiminum, og víkkuðu
sjóndeildarhring íslenskra áhorfenda. Þetta sjónarmið var til að
mynda hvatinn að því að Þorbjörn Bjarnason, skólastjóri Barna-
skólans á Borðeyri, skrifaði MÍR bréf árið 1961. Þar fer hann þess á
leit við félagið að fá sendar kvikmyndir til sýninga fyrir nemend-
ur sína á aldrinum 8–13 ára. Hann biður sérstaklega um eftirtalið
efni: 1) Landslagsmyndir frá Sovétríkjunum, eða öðrum löndum,
K A L D A S T R Í Ð I Ð O G K V I K M Y N D A S Ý N I N G A R 109
86 Viðtal við Ólaf Sveinsson, 24. júní 2001.
87 Viðtal við Ólaf Sveinsson, 24. júní 2001.
88 Viðtal við Pál Sigurðsson, 17. júlí 2001.
89 Viðtal við Ólaf Sveinsson, 24. júní 2001.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 109