Saga - 2006, Page 128
úr höndum „villutrúarmanna“.18 Krossferðirnar fólu í sér tilvísun í
ákveðna tvípóla mynd af „okkur“ og „hinum“, „trúuðum“ og „trú-
leysingjum“. Þær juku jafnframt tengsl milli Evrópu og fjarlægra
landa. Evrópubúar komust í snertingu við fólk sem bjó við ólíka
lífshætti, menningu og trúarbrögð, ásamt því að kynnast nýju um-
hverfi og loftslagi.19 Þrátt fyrir að krossferðirnar hafi dregið upp
andstæðu á milli kristinna og „vantrúaðra“ væri engu að síður ein-
földun að líta svo á að sú tvískipting sé eini ás samsömunar og
framandleika á miðöldum. Í mörgum ritum frá þeim tíma er t.d.
ekki að finna mikla samúð með slavnesku fólki.20
Á miðöldum voru hugmyndir um heimshluta, sem Evrópubúar
höfðu ekki kannað, sóttar bæði í Biblíuna og arfleifð klassíska tíma-
bilsins.21 Á síðmiðöldum voru þó einnig til rit sem lýstu íbúum og
samfélögum í innviðum Afríku á nákvæman hátt því að þau byggð-
ust á beinum samskiptum við einstaklinga og samfélög, svo sem skrif
Ibn Battuta frá fyrri hluta 14. aldar og rit spænska gyðingsins Benja-
mins frá Tudela. Þessi rit voru hins vegar lítt þekkt í Evrópu á mið-
öldum.22 Í ritum með ímyndum skrímsla, hinu afskræmda og fram-
andi, mátti iðulega finna tilvísanir til fólks í Afríku. Joyce E. Salisbury
bendir á að vinsældir slíkra vera hafi aukist eftir 12. öld og fyrir þann
tíma megi jafnvel greina meiri efasemdir um tilvist þeirra en síðar
varð. Á hámiðöldum urðu skrímsli og furðuþjóðir mjög sýnilegar í
ritum og á kortum sem Salisbury telur að endurspeglist í auknum
vinsældum ferðasagna. Eftir 1450 fór áhugi á skrímslum hins vegar
minnkandi sem telja má að sé afleiðing af aukinni útþenslu evrópskra
nýlenduríkja og betri þekkingu þeirra á fjarlægum löndum.23
K R I S T Í N L O F T S D Ó T T I R128
18 Sjá: J. France, Western Warfare in the Age of the Crusades (London 1999).
19 Francesco Relaño, The Shaping of Africa: Cosmographic Discourse and Carto-
graphic Science in Late Medieval and Early Modern Europe (Hampshire 2002), bls.
12; Tyerman, „What the Crusades Meant to Europe,“ bls. 142.
20 Sjá: Albrecht Classen, „Introduction: The Self, the Other and Everything in
Between: Xenological Phenomenology of the Middle Ages,“ Meeting the For-
eign in the Middle Ages, ritstj. Albrecht Classen (New York og London 2002),
bls. xi–lxxiii.
21 Peter Jackson, „Christians, Barbarians and Monsters: The European
Discovery of the World Beyond Islam,“ The Medieval World , ritstj. Peter Line-
han og Janet L. Nelson (London 2001).
22 Rudolf Simek, Heaven and Earth in the Middle Ages: The Physical World before
Columbus (Woodbridge 1992; ensk þýðing 1996), bls. 64.
23 Joyce E. Salisbury, The Beast Within: Animals in the Middle Ages (New York
1994), bls. 149.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 128