Saga - 2006, Síða 133
pophagi, mannætur sem samkvæmt Pliníusi mátti stundum finna í
Afríku; Epiphagi, háls- og hauslausar manneskjur sem áttu að hafa
búið á Nílarsvæðinu og höfðu auga á öxlinni; Troglodytes, ómálga
holumenn sem Pliníus talar um að eigi að vera í eyðimörk Eþíópíu.
Alexander mikli talar jafnframt um ethopians sem svarta menn sem
lifa í fjöllum.46 Einnig er iðulega minnst á Pygmía í textum en
Hómer minntist fyrst á þá í sambandi við ferðalag sitt til innviða
Afríku. Í riti Ktesiusar og Megasþenesar búa þeir í miðju Indlands.
Umfjöllun Biblíunnar um fordæmingu Kams, eins þriggja sona
Nóa, varð mikilvægari í aldanna rás. Biblían segir svo frá að Kam
hafi horft á nekt föður síns þegar hann var sofandi af völdum
drykkju. Bræður hans, Jafet og Sem, lögðu hins vegar klæði yfir
föður sinn án þess að líta á hann. Finnski guðfræðingurinn Martti
Nissinen bendir á í túlkun sinni á þessari frásögn að þegar orðalag
textans í heild er skoðað, megi sjá að hér er í raun átt við að Kam
hafi nauðgað föður sínum á meðan hann var ofurölvi.47 Þegar Nói
komst að því hvað Kam hafði gert, fordæmdi hann þennan son sinn
og afkomendur hans með þeim orðum að hann ætti að þjóna
bræðrum sínum og afkomendum þeirra. Í frásögn Biblíunnar er
ekki minnst á ákveðinn húðlit eða Afríku. Á tímabilinu frá 4. til 12.
aldar var hins vegar bætt við þessa frásögn, m.a. í Babýlóníu Talm-
uð48 gyðinga frá 6. öld, að afkomendur Kams hefðu verið bann-
færðir eða fordæmdir með því að fá svartan húðlit. Þannig er Kam
tengdur svörtum húðlit og ákveðnum óæskilegum eiginleikum.49
Jordan bendir þó á að sagnir, sem tengdu dökkan húðlit við Kam,
birtust í auknum mæli meðal kristinna höfunda á 16. öld, þrátt fyr-
ir að slík tenging hafi líklega verið mörgum kunn fyrir þann tíma.
Hér er auðvitað um áhugaverða samsvörun að ræða, þ.e. að slíkum
sögnum fjölgar um leið og fólk af afrískum uppruna verður sífellt
stærri hluti þræla í Evrópu.50
Kain var einnig oft talinn vera forfaðir svarts fólks og héldu sum
rit því fram að afkomendur hans hefðu dáið í flóðinu og Kam tekið
Þ R I Ð J I S O N U R N Ó A 133
46 Friedman, The Monstrous Races.
47 Martti Nissinen, Homoeroticism in the Biblical World: A Historical Perspective,
ensk þýðing: Kirsi Stjerna (Minneapolis 1998), bls. 52–53.
48 Talmuð er safn munnlegra geymda og útskýringa við þær.
49 Sanders, „The Hamitic Hypothesis,“ bls. 522; einnig Robin Blackburn, „The
Old World Background to European Colonial Slavery,“ bls. 91–92.
50 Winthrop Jordan, „First Impressions,“ Theories of Race and Racism: A Reader,
ritstj. Les Back og John Solomos (London og New York 2000), bls. 46.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 133