Saga - 2006, Page 144
Íslenskar hugmyndir um litarhátt og Afríku
Hugmyndir íslenskra miðaldamanna um litarhátt tengdan Afríku
eru athyglisverðar í ljósi þeirrar neikvæðu merkingar sem dökkur
litarháttur fékk síðar í Evrópu.103 Þetta efni var trúlega fyrst tekið
fyrir í grein eftir Eið S. Kvaran árið 1934 og þá var nýlega gerð
nokkuð ítarleg grein fyrir því í áhugaverðri grein Jenny Jochens.104
Þrátt fyrir að greinarnar séu ólíkar að mörgu leyti virðist Jochens þó
gera ráð fyrir, eins og Eiður S. Kvaran, að kynstofnar séu líffræðileg
fyrirbæri. Eiður segir að hugtakið svartur sé notað til að vísa í ann-
an „kynstofn“ í íslenskum fornbókmenntum. Jochens talar um að
norrænir menn hafi kynnst „negrum“ í ferðum sínum og kallað þá
blámenn, og að norrænir menn hafi gert „greinarmun á svertingj-
um og þeim sem voru dökkir“.105 Af lestri þessara greina mætti
halda að hugtökin „negrar“ og „svertingjar“ hafi staðlaða og ósögu-
lega merkingu. Þótt greinarhöfundar geri þannig ráð fyrir að sú
flokkun sem við styðjumst við nú sé á einhvern hátt náttúrleg, gefa
rannsóknir þeirra engu að síður til kynna hvaða gildi ólíkir litatón-
ar húðarinnar höfðu á miðöldum.
Jochens heldur því fram að á meðan fólk með dökkan húðlit hafi
verið kallað blámenn, merki „maðr svartr“ í norrænum ritum ein-
faldlega einstaklinga sem eru dekkri en aðrir. Sverrir Jakobsson
bendir t.d. á að skrælingjum hafi verið lýst sem svörtum mönnum
og illilegum.106 Jochens virðist því gera ráð fyrir að hugtakið blá-
maður hafi vísað til þrengri og dekkri hóps fólks heldur en hugtak-
ið „maðr svartr“. Í neðanmálsgrein bendir Jochens einnig á að í
riddarasögum sé orðið blámaður notað yfir „allskonar kynlegt fólk
í útlöndum.“ Einnig voru jötnar, risar, tröll eða þursar oft tengdir
hinu dökka eða taldir ábyrgir fyrir dökkleitum afkomendum.107
Samkvæmt þessu birtist hér mjög áhugaverð skörun á hugtökum;
K R I S T Í N L O F T S D Ó T T I R144
103 Rannsókn mín beindist þó ekki sérstaklega að litarhætti í heimildum mið-
alda heldur leitaði ég fyrst og fremst eftir vísunum til Afríku og litarháttar í
tengslum við hana.
104 Eiður S. Kvaran, „Um mannfræðilegt gildi forníslenskra mannlýsinga,“
Skírnir 108 (1934), bls. 83–102. — Jenny Jochens, „Þjóðir og kynþættir á fyrstu
öldum Íslandsbyggðar,“ Saga XXXVII (1999), bls. 179–217.
105 Jochens, „Þjóðir og kynþættir á fyrstu öldum Íslandsbyggðar,“ bls. 182.
106 Sverrir Jakobsson, „Hvers konar þjóð voru Íslendingar á miðöldum?“ bls.
94.
107 Jochens, „Þjóðir og kynþættir á fyrstu öldum Íslandsbyggðar,“ bls. 182–183.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 144