Saga - 2006, Blaðsíða 161
gegnum, að ættarnöfn koma fyrst upp hjá aðli, síðar borgurum og
síðast almúga.24
Í mínum huga þjónar notkun kenninga í sagnfræðilegum rann-
sóknum tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi auðvelda þær fræðimönn-
um að bera fram rannsóknir sínar á fræðilegan hátt sem nýtist
öðrum fræðimönnum og gerir þeim um leið kleift að bera rann-
sóknarferlið og niðurstöðurnar saman við sambærilega hluti í
öðrum löndum eða menningarheimum. Í mínu tilfelli leitaðist ég
við að finna heppilegan kenningarlegan ramma sem væri nothæfur
til að meta á fræðilegan hátt viðbrögð íslenskra embættismanna, og
þeirra sem þeim tengdust, við umbótatilraunum danska miðstjórn-
arvaldsins. Rannsóknin sótti sér kenningarlegan grunn til Walters
Powells og hugtakið tengslanet var notað á kenningarlegan hátt til
að lyfta fram kjörmynd af óformlegum samskiptum elítunnar, sem
eins konar fallhlíf til neyðarnota þegar á reyndi. Sé horft framhjá
hinum kenningarlega ramma og rýnt í rannsóknina koma ýmsir
þættir í ljós sem falla illa innan ramma kenningarinnar. En eins og
áður sagði þá fellur veruleikinn aldrei algerlega að kenningunni.
Eins og Guðmundur Hálfdanarson hefur tekið sem dæmi í umræðu
um kenninganotkun í rannsóknum á íslensku samfélagi, þá var það
svo að þýski fræðimaðurinn Max Weber sneið aldrei kenningar sín-
ar að íslenskum veruleika og íslenskur veruleiki hefur aldrei lotið
lögmálum Webers.25 Þessi ábending Guðmundar snýst um það að
ætíð verður að taka tillit til aðstæðna hverju sinni, ekki er hægt að
heimfæra evrópskan veruleika yfir á íslenska fortíð án þess að gæta
að sérkennum þjóðfélags hér á landi. Þetta felur þó ekki í sér að
hafna beri erlendum kenningum um þjóðfélagsþróun, heldur að
nauðsynlegt sé að hafa í huga að kenningin er aðeins hjálpartæki.
Kenningin er viðeigandi til að skýra ferli sem á við þorra einstak-
linga en getur aldrei náð til þeirra allra.
Ég tel mig geta skilið gagnrýni Guðmundar á doktorsritgerð
mína á þá leið að hún sé réttmæt að stórum hluta þar sem hún
bendir á ýmsa vankanta sem sníða hefði mátt af henni, einkum og
sér í lagi ef ég hefði kosið að sníða mér vöxt eftir stakki, með því að
A Ð S N Í Ð A S É R V Ö X T E F T I R S TA K K I 161
24 Sjá t.d.: Pierre Bourdieu, Praktisk förnuft. Bidrag till handlingsteori (Göteborg
1995). — Lars Hermanson, Släkt, vänner och makt. En studie av elitens politiska
kultur i 1100-talets Danmark (Göteborg 2000). — Christer Winberg, Grenverket.
Studier rörande jord, släktskapssystem och ståndsprivilegier (Stockholm 1985).
25 Guðmundur Hálfdanarson, „„Kemur sýslumanni [það] nokkuð við …?“ —
Um þróun ríkisvalds á Íslandi á 19. öld“, Saga XXXI (1993), bls. 9.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 161