Saga - 2006, Blaðsíða 164
þekkingu til að geta farið með málefni líðandi stundar, eftir að örla
fór á lýðræðisbreytingum innan Danaveldis. Hér er greinilegt að ég
er ekki nógu skýr í framsetningu við að koma niðurstöðum mínum
á framfæri. Þá mætti kannski í þessu samhengi benda á að eins og
Guðmundur nefnir þá var stór hluti þjóðkjörinna þingmanna ein-
hvers konar embættismenn, en fáir tilheyrðu flokki háembættis-
manna.
Neðar á sömu síðu dregur Guðmundur í efa fullyrðingu mína
um að embættismenn hefðu gegnt „framträdande roll inom politi-
ken“ eftir 1851 (GH, bls. 221–222). Hér tel ég að Guðmundur hafi
slitið umfjöllun mína úr samhengi.29 Þetta kann þó að hafa að gera
með það að ég dreg í efa fullyrðingar Guðmundar um að embætt-
ismenn hafi horfið úr forystuhlutverki íslenskra stjórnmála á Ís-
landi eftir Þjóðfundinn 1851.30 Það sem Guðmundur nefnir ekki í
ritdóminum er að ég er ekki að eigna mér þessa fullyrðingu heldur
að benda á að stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson
hafi í doktorsritgerð sinni frá árinu 1970 fullyrt að hlutverk embætt-
ismanna í ákvarðanatöku á alþingi hafi verið umtalsvert.31 Það
hlýtur vissulega að teljast nokkur heiður að Guðmundur geri verk
Ólafs Ragnars að mínum en ég er ekki viss um að ég sé maður til að
standa undir slíku.
Á sömu síðu og Guðmundur gerir mér upp skoðanir Ólafs
Ragnars Grímssonar get ég þess skýrt hver sé tilgangur þessarar
rannsóknar, þ.e. að ég dragi í efa að það hafi aðeins legið stjórn-
málalegar ástæður að baki brottrekstri þeirra embættismanna sem
voru reknir eftir Þjóðfundinn 1851. Ég ítreka þó að ég telji að fram-
gangsmáti áðurnefndra embættismanna á Þjóðfundinum hljóti að
hafa skipt nokkru máli fyrir örlög þeirra, þó svo að ég telji að aðrar
ástæður hafi ennfremur legið þar að baki.32 Þar er þess jafnframt
getið að þessi rannsókn byggist töluvert á þeirri vinnuaðferð að
bera frumheimildir saman við eldri rannsóknir, til hægðarauka og
ekki síður vegna þess að þeir virtu fræðimenn sem rannsakað hafa
efnið, eins og til dæmis Ólafur Ragnar Grímsson og Guðmundur
Hálfdanarson, nálgast það á mjög ólíkan máta.33
E I N A R H R E I N S S O N164
29 Einar Hreinsson, Nätverk och nepotism, bls. 242.
30 Guðmundur Hálfdanarson, „Íslensk þjóðfélagsþróun á 19. öld“, bls. 32.
31 Einar Hreinsson, Nätverk och nepotism, bls. 196.
32 Einar Hreinsson, Nätverk och nepotism, bls. 230.
33 Einar Hreinsson, Nätverk och nepotism, bls. 196.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 164