Saga - 2006, Side 185
ófi, talaði fyrir varðveislu húsanna í kappræðu í sjónvarpinu og var
kjörinn í stjórn Torfusamtakanna við stofnun þeirra árið 1973.15
Vegna yfirburðaþekkingar sinnar á íslenskri byggingarsögu varð
Hörður sjálfkrafa lykilmaður í þeirri vakningu sem varð í hús-
verndarmálum á 8. áratugnum. Var hann meðal annars fenginn til
að flytja fyrirlestra um byggingararfinn og varðveislu hans víða um
land.
Í tengslum við skipulagningu hátíðarhalda í tilefni af 1100 ára
afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 kom fram sú hugmynd innan
undirbúningsnefndar að fá Hörð Ágústsson til að mæla fyrir um
gerð tilgátulíkans af sögualdarbæ er byggðist á rannsóknum hans á
fornum húsakosti.16 Frá upphafi var stefnt að því að reisa bæinn í
fullri stærð á merkum sögustað í tæka tíð fyrir hátíðarhöldin. Hug-
myndin mæltist vel fyrir og var efnt til sýningar á líkaninu vorið
1972. Fræðilegar forsendur tilgátuhússins skýrði Hörður í bæklingi
sem fylgdi sýningunni.17 Helsta heimild hans var skálarústin á
Stöng í Þjórsárdal sem danski fornleifafræðingurinn Aage Roussell
gróf upp árið 1939. Eldgosið í Vestmannaeyjum í janúar 1973 varð
til þess að bygging bæjarins tafðist. Síðla sama ár veitti Alþingi þó
fé til að hefja framkvæmdir og var Þjóðveldisbærinn formlega opn-
aður 24. júní 1977.18 Honum var valinn staður á Skeljastöðum í
Þjórsárdal, skammt frá Búrfellsvirkjun og rústinni á Stöng. Hörður
vann allar útfærsluteikningar og hafði yfirumsjón með smíði húss-
ins. Tilgátubærinn á Skeljastöðum hafði á sínum tíma þá sérstöðu
meðal íslenskra bygginga að vera „niðurst[aða] rannsóknar birt í
formi húss í stað orða“, bær reistur gagngert til að miðla þekkingu
um tiltekið skeið íslenskrar húsagerðarsögu.19
Enn urðu þáttaskil á ferli Harðar Ágústssonar um 1977 er hann
kaus að draga sig alfarið í hlé frá myndlistinni til að geta unnið úr
því mikla efni sem hann hafði safnað að sér um íslenska húsa-
sögu.20 Um það leyti var honum falið að búa til prentunar yfirlits-
H Ö R Ð U R Á G Ú S T S S O N L I S T M Á L A R I 185
15 Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð II, bls. 225–236.
16 Indriði G. Þorsteinsson, Þjóðhátíðin 1974 I–II, (Reykjavík 1986); I. bindi, bls.
19–20.
17 Hörður Ágústsson, Hér stóð bær: líkan af þjóðveldisbæ (Reykjavík 1972).
18 Indriði G. Þorsteinsson, Þjóðhátíðin 1974 II, bls. 255–256.
19 Árni Johnsen, „Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal“, [viðtal], Morgunblaðið, 24. júní
1977.
20 Á.B. [Árni Bergmann], „Tveir menn í einum. Samtal við Hörð Ágústsson, list-
málara og fornhúsafræðing“, Þjóðviljinn, 5.–6. nóvember 1983.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:26 Page 185