Saga - 2006, Blaðsíða 206
alveg rétt,2 og finna má dæmi þess að tilvitnuð verk séu ekki með í
heimildaskrá, eins og Benediktsson 1969 og Særheim 1999. Segja
má þó að stærsti galli bókarinnar sé tengdur framsetningunni.
Rannsóknin er mjög skipulögð, nánast er um að ræða of mikla
nákvæmni í framsetningu, sem gerir að margar endurtekningar
tefja verulega fyrir lestri. Fyrsti kaflinn, sem er lýsing á efnistökum
og rannsóknarspurningum, er langur og það er fyrst á blaðsíðu 59
sem efnisuppbygging er kynnt. Bókin öll er þó ekki meira en rúm-
lega 200 blaðsíður og því er byrjunin mjög langdregin. Þessir
vankantar geta því miður auðveldlega fælt frá áhugasama
lesendur.
Með þessum ítardómi vil ég þó leggja áherslu á að verulegur
hluti rannsóknarinnar er í alla staði mjög merkur. Hér er að finna
mikilvægar nýjar niðurstöður um skilning okkar á eignarrétti
miðalda og hvernig kirkjuréttur hafði áhrif á réttarvitund. Hér er að
finna vísbendingu um hvernig nota megi betur miðaldalögin sem
textafræðilegar heimildir, ekki bara til að greina hvernig hinn nor-
ræni réttur breyttist vegna áhrifa frá suðri, heldur einnig hvernig
rétturinn þróaðist út frá „heimagerðum“ venjum. Rannsóknin nær
frá byrjun 11. aldar til byrjunar 14. aldar og eru íslensku lögin, bæði
Grágás, Jónsbók og réttarbæturnar, þar einnig meðtalin. Tel ég því
rannsóknina eiga töluvert erindi við íslenska fræðimenn, ekki síst
þar sem mikil þörf er á að skoða íslensk lög betur í erlendu samhengi.
Vil ég hér einkum taka fyrir merkustu niðurstöður hennar sem
skipta máli í sagnfræðilegu og sérílagi réttarsögulegu samhengi.
Heimildagildi Grágásar um fornan eignarrétt
Lítum fyrst á nokkrar niðurstöður sem sérstaklega varða Ísland. Í
Grágás eru mörg hugtök sem ekki eru til í samtíma norrænum
lögum, svo sem í þeim dönsku. Í Jósku lögunum frá 1241 er til
dæmis hugtakið góss/goþs eingöngu í staðinn fyrir fé yfir eignir
almennt, á meðan hugtakið fé er notað í Grágás (sjá töflu 3, bls. 62).
Orðið jörð/iorþ er ráðandi í öllum norrænu lögunum nema á Íslandi,
en þar er hugtakið land hins vegar allsráðandi í merkingunni föst
A G N E S S. A R N Ó R S D Ó T T I R206
2 Lagaumdæmi Frostaþings náði til dæmis lengra inn í Svíþjóð en kortið á
blaðsíðu 201 sýnir. Sjá betri mynd af lögsögu einstakra lagabálka í bókinni:
Janken Myrdal, Jordbruket under feodalismen 1000–1700 (Stockholm 1999), bls.
12.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:27 Page 206