Saga - 2006, Síða 211
einkum notaðar til að jafna eignir hjóna, svo að jafnræði ríkti á milli
þeirra eftir brúðkaupið. Einungis mátti gefa fjórðung eigna sinna til
annarra en lögmætra erfingja, en aldrei mátti þó gefa meira en einn
tíunda hluta af arfi sínum til annarra en lögarfa. Þar af er hugtakið
tíundargjöf komið.6 Þessi ákvæði Jónsbókar höfðu mikil áhrif á
síðmiðöldum og þegar komið er fram á 16. öld finnast þessar gjafir
allar saman oftast undir heitinu löggjöf. Um er að ræða þær eignir
sem gefa mátti frjálst, en oftast nýttu gefendur sér að fá samþykki
erfingjanna fyrir gjöfunum, svo að ekki yrðu erfðaþrætur úr.
Þannig er ljóst að kirkjan hafði veruleg áhrif á það hvernig fólk
ráðstafaði eignum sínum á miðöldum og varð það meðal annars til
þess að margir fóru að gefa eignir sínar til kirkulegra stofnana, sér
og öðrum til sáluhjálpar.7
Fáir draga í efa áhrif kirkju á þróun eignarréttar á miðöldum.
Það sem er sérstaklega áhugavert í tengslum við rannsókn Bo
Rutströms, er að hann reynir að færa málfarsleg rök fyrir því að
þessi áhrif kirkju á eignarréttinn megi rekja langt aftur í elstu
ritheimildir, og þær vísi ennþá lengra aftur en áður hefur verið talið
eða allt til byrjunar 11. aldar. Í stuttu máli merkir þetta til dæmis í
íslensku samhengi að hugtakið land fer á 12. og 13. öld að fá þrengri
eignarréttarfarsmerkingu en það hafði til dæmis þegar Ísland var
numið. Hugtakið var þó ekki alls staðar notað í þessari þröngu
merkingu. Það finnst bara í íslenskum og norskum lögum en jorþ
verður ríkjandi hugtak um fastar eignir í dönskum og sænskum
lögum.
Bo Ruthström telur eins og áður en nefnt að aðalástæðuna fyrir
þessum málfarslegu breytingum megi rekja til þeirra breytinga sem
urðu á eignarréttinum í tengslum við eignatilfærslu til kirkna.
Latnesk heiti eins og res, terra, possessio og bona fengu í norrænni
þýðingu heitin koster, iorþ, eghn og goþs. Síðastnefnda hugtakið,
goþs, kemur inn í málið á 12. öld í tengslum við stórtæka eignatil-
færslu til kirkna og hugtakið er meðal annars að finna í sérstökum
skjölum sem kalla mætti gjafabréf til kirkna. Þannig nær latínan að
Þ R Ó U N E I G N A R R É T TA R Á M I Ð Ö L D U M 211
6 Sjá: Agnes S. Arnórsdóttir, „Death and donations. Different channels of prop-
erty transfer in late medieval Iceland“, The Marital Economy in Scandinavia and
Britan 1400–1900 (Altershot 2005), bls. 207–219, sjá einkum bls. 208–210.
7 Sjá: Agnes S. Arnórsdóttir, „Dødslejet, sjælemesser og donationskultur i mid-
delalderen“, Döden som katharsis. Nordiska perspektiv på dödens kultur- och men-
talitetshistoria. Ritstj. Yvonne Maria Werner. 25:e Nordiska historikermötet,
Stockholm den 4–8 augusti 2004, bls. 65–88, sjá sérstaklega bls. 69–72.
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:27 Page 211