Saga - 2006, Page 231
hátignar. Breskur skipherra kemur á herskipi hans hátignar, rekur breska
kaupmenn frá völdum og endurreisir danska stjórn á meðan Danmörk og
Bretland eiga í stríði. Mér finnst Ragnar komast ansi nálægt sennilegri skýr-
ingu á hátterni Jones er hann skrifar: „Ummæli greifans [Trampe] styrktu
það álit hans [Jones] að eldfjallalandið hlyti að vera lítils virði, hvort held-
ur fyrir Dani eða Breta, og svaraði varla kostnaði að leggja það undir sig.
Verslunarhagsmuni varðaði skipherrann lítið um.“ (bls. 235).
Að lokum má nefna að Jones hneykslaðist mjög á þeim búningi sem
Jörgensen klæddist þegar hann kom á fund hans. Jones segir: „það er hreint
ekki við hæfi að hann sé klæddur eins og hver annar póstmeistari ofan úr
afdölum.“ (bls. 221). Það sem Jörundur klæddist var „the undress uniform
of a post-captain“, en post-captain er tign innan flotans og hefur ekkert með
póstmeistara að gera. Er þetta eitt af fáum dæmum þar sem skáldið misskil-
ur heimildirnar. Hneykslun Jones fólst í þeim fáránleika að danskur stríðs-
fangi skyldi leyfa sér að klæðast slíkum búningi í hans viðurvist.
Að öllu þessu sögðu er ljóst að lestur Eldhugans mun skemmta mörgum
og fræða þá um ógleymanlegan atburð í Íslandssögunni.
Anna Agnarsdóttir
Hrafnhildur Schram, HULDUKONUR Í ÍSLENSKRI MYNDLIST. Mál
og menning. Reykjavík 2005. 199 bls. Tilvísana- og myndaskrá, myndir.
Það er ánægjulegt að fá í hendur svo fallega og vandaða bók. Hrafnhildur
Schram listfræðingur segir frá lífi og listmenntun tíu íslenskra kvenna fyr-
ir og eftir aldamótin 1900. Texti hennar og fjöldi ljósmynda veitir góða inn-
sýn inn í heim betri borgara í Reykjavík, því allar áttu stúlkurnar ættir að
rekja til efstu laga þjóðfélagsins. Engin kvennanna gerði list að ævistarfi,
aðeins tvær héldu sýningar á verkum sínum og flestar lögðu listiðkun til
hliðar fljótlega eftir að þær gengu í hjónaband. Þær elstu voru samt frum-
herjar að því leyti að þær stunduðu myndlistarnám á undan þeim Þórarni
B. Þorlákssyni, Ásgrími Jónssyni, Jóni Stefánssyni og Kjarval, sem hafa ver-
ið nefndir frumherjar í íslenskri myndlistarsögu (Fjórir frumherjar, Reykja-
vík 1985).
Í kynningartexta að sýningu Þjóðminjasafnsins, sem var haldin í tengsl-
um við útkomu bókarinnar, segir að Hrafnhildur leitist við að svipta hul-
unni af gleymdum eða lítt þekktum konum. „Lítið hefur sést af verkum
þeirra enda eru þau að mestu í eigu ættingja og afkomenda sem hafa opn-
að einkasöfn sín til rannsóknar og góðfúslega lánað þau á sýninguna.“
(www.thjodminjasafn.is). Sameiginlegt markmið bókar og sýningar er því
fyrst og fremst að koma verkum kvennanna á framfæri, gera þau sýnileg,
og finna þeim stað í menningarsögulegu samhengi.
R I T D Ó M A R 231
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:27 Page 231