Saga - 2006, Page 232
Mikið hefur verið lagt í bókina sem er fagurlega skreytt ljósmyndum.
Mynd á kápu er lýsandi fyrir umhverfi kvennanna og viðfangsefni þeirra.
Nafn bókarinnar, Huldukonur í íslenskri myndlist, er vel valið og kallast á við
grein Ingu Láru Baldvinsdóttur um Þóru Pétursdóttur Thoroddsen, „Þóra
„huldukona“ í íslenskri myndlist“, sem birtist í Veru 1986 (bls. 8–10), og
saknaði ég greinarinnar í tilvísanaskrá.
Í formála gerir Hrafnhildur stuttlega grein fyrir upphafinu að endur-
skoðun listasögunnar á Vesturlöndum, leitinni að listiðkun kvenna sem
hófst á áttunda áratug tuttugustu aldar með grein Lindu Nochlin „Why
have there been No Great Women Artists?“ (Arts News, vol. 69, no. 9, Jan.
1971). Ég sakna þess að Hrafnhildur skuli ekki nefna í formála ágæta rit-
gerð Dagnýjar Heiðdal listfræðings, Aldamótakonur og íslensk listvakning,
Ritsafn Sagnfræðistofnunar 31 (Reykjavík 1992), þar sem Dagný setti vakn-
andi listáhuga og listsköpun íslenskra kvenna á 19. öld í sögulegt samhengi
við eflingu borgarastéttar og þjóðlega endurreisn.
Hrafnhildur rökstyður ekki valið á konunum tíu sem hún fjallar um,
þótt vitað sé um „hátt á annan tug íslenskra kvenna“ sem sóttu myndlist-
arnám erlendis á tímabilinu 1873–1909 (bls. 18). Hverjum sleppir hún og af
hverju? Er ekkert vitað um þær? Hafa engin verk varðveist eftir þær?
Spyrja mætti hvort umfjöllun um Svövu Þórhallsdóttur eigi við í þessu
samhengi. Svava er yngst kvennanna tíu og af þeirri kynslóð sem sótti til
Danmerkur í starfsnám skömmu eftir aldamótin 1900. Hún getur því ekki
talist til frumherjanna. Hún stundaði ekki nám í listaskóla, hélt aldrei
myndlistarsýningu, og þótt hún hafi verið prýðilega listfeng og postulíns-
málun hennar hreinasta listaverk, þá er staða hennar í menningarsögulegu
samhengi annars eðlis en hinna.
Um og eftir aldamótin 1900 urðu ungar konur sýnilegri en áður. Íslensk
borgarastétt var frjálslynd og leyfði dætrum sínum að ferðast, fara í teikni-
skóla, læra tungumál, sumar fengu jafnvel að læra ljósmyndun. Þótt fæstar
kvennanna tíu yrðu sjálfstæðir atvinnurekendur og engin starfandi lista-
maður, nýttist menntun þeirra og listfengi við hannyrðir, kennslu, barna-
uppeldi og verslunarrekstur. Þær sinntu menningar- og líknarmálum,
unnu að almennri listkynningu og lögðu þannig fram krafta sína til samfé-
lagsins og gerir Hrafnhildur þeim þætti góð skil. Hrafnhildur rekur á skil-
merkilegan hátt sögusviðið í Danmörku í lok 19. aldar, námsmöguleika,
fjölgun einkaskóla sem einkum voru ætlaðir konum og aðdraganda þess að
konum var loks veittur aðgangur að Listakademíunni í Kaupmannahöfn
árið 1888, eða um það leyti sem akademíunni var farið að hnigna og karl-
menn sóttu á önnur og frjálsari mið.
Hrafnhildur leggur ekki dóm á hæfileika kvennanna tíu, en að öðrum
ólöstuðum eru það verk þeirra Þóru Pétursdóttur Thoroddsen og Kristín-
ar Þorvaldsdóttur sem vekja spurningar og bjóða upp á nánari athuganir.
Kristín var bráðefnilegur teiknari og skissubækur Þóru eru einstakar hér á
landi, því að fáir Íslendingar fengust á þessum tíma við að mála og teikna.
R I T D Ó M A R232
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:27 Page 232