Saga - 2006, Side 237
í að verða sér úti um vímugjafa á bannárunum þegar ekki var hægt að fá
áfengi keypt (I, bls. 200–203). Vissuð þið til dæmis að árið 1907 bar vinstri
umferð hærri hlut af hægri umferð í lagasetningu vegna tillitssemi við söðul-
ríðandi kvenfólk (I, bls. 70)? Eða að árið 1933 útvarpaði RÚV miðilsfundi (I,
bls. 191)?
Skyggð innskot eru samkvæmt formála brot úr bókum sem Örlygur
Hálfdanarson hefur valið (I, bls. 14). Yfirleitt er þetta smekklegt en þó finnst
mér orka tvímælis að setja inn í bók af þessu knappa tagi heila grein úr
Húnvetningi (um fyrstu póstferð sem farin var á bíl milli Reykjavíkur og
Akureyrar 1933) eins og gert er á bls. 159–165. Fleira en brot úr bókum er
skyggt, þá eru einnig tilvitnanir með smáu letri úti á spássíum, skáleturs-
og gæsalappakaflar inni í aðaltexta. Mikið er um hnyttinn kveðskap og
fróðleiksmola sem Árni hefur fundið til að krydda með hér og hvar, aðal-
textinn rennur vel og er skemmtilegur aflestrar. Góður fengur er að þessari
ágætu samantekt, enda lítið um að millistríðsárin séu til umfjöllunar í al-
mennum yfirlitsritum út frá öðru sjónarhorni en stjórnmálum og atvinnu-
vegum.
Í seinni hluta fyrsta bindis eru myndir af íslenskum gripum í þjóð-
fræðasafninu í Hamborg, Hamburgisches Museum für Völkerkunde und Vor-
geschichte. Safnið var stofnað formlega 1879 og þar eru nú rúmlega 400 grip-
ir af íslenskum uppruna. Hans Kuhn safnaði flestum, eða 378 þeirra, á Ís-
landi árið 1927 á vegum Þjóðfræðasafnsins. Um þann safnauka gerði hann
skrá með ítarlegum upplýsingum, en fremur lítið er skráð um aðra íslenska
gripi í Þjóðfræðasafninu. Kuhn má teljast forgöngumaður í vísindalegri
söfnun íslenskra nytjahluta en fram að henni höfðu safnarar hér fyrst og
fremst beint athygli að mjög fornum, óvenjulegum eða listrænum gripum.
Vandaðar teikningar sem Þjóðfræðasafnið lét gera af langflestum hlutanna
eru uppistaðan í þessum hluta bókarinnar. Árni notar texta sem fylgja
teikningunum, frumskrár Kuhns og styðst að auki við sérfræðinga um af-
mörkuð svið við gerð viðbótarskýringa. Hann velur að láta texta Kuhns
standa þó að í sumum tilfellum orki það tvímælis — eins og til dæmis þar
sem sagt er um kláru að hún sé notuð til að raka skarn af túni (I, bls. 319).
Það kann að vísu að vera svo í einstökum tilfellum en aðalhlutverk klár-
unnar var að mylja húsdýraáburð og hrífur voru hentugri áhöld til rakst-
ursins. Nafnorðið kríla sem þarna er notað nokkrum sinnum (I, bls.
379–380) um kríluð bönd finn ég ekki í nýjustu útgáfu íslensku orðabókar-
innar og Elsa E. Guðjónsson textílfræðingur kannast ekki við að hafa rekist
á það. Hins vegar kemur nafnorðið kríli fyrir í þessari merkingu í riti frá 18.
öld (sjá ritmálsskrá Orðabókar H.Í.). En þessar aðfinnslur — ef aðfinnslur
skyldi kalla — eru smámunir miðað við þær fróðleiksgnægðir sem felast í
myndunum og myndatextunum. Þessi hluti bókarinnar ætti að vera
skyldulesning fyrir safnafræðinema, þar sem námsefni um nytjahluti og
vinnubrögð sem þeim tilheyra er af skornum skammti en þekkingin nauð-
synleg öllum sem sinna íslenskum minjasöfnum.
R I T D Ó M A R 237
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:27 Page 237