Saga - 2006, Blaðsíða 238
Í seinni bindunum, II. og III. bindi, eru Íslandslýsingarnar í forgrunni.
Lunginn í öðru bindi eru skrif Hans Kuhns og Reinhards Prinz, en einnig
margra annarra Þjóðverja sem hér komu á millistríðsárunum. Þá eru nokkr-
ar frásagnir venslaðar þessu efni sem sérstaklega voru skrifaðar fyrir útgáf-
una og styttri greinar birtar úr prentuðum ritum. Í bókarauka er umfjöllun
um vinnu Hans Kuhns fyrir Þjóðfræðasafnið í Hamborg, myndir úr skissu-
bók hans og kort sem sýna ferðaleiðir þeirra Prinz um Ísland. Aftast er svo
ferðadagbók Eriks Consemüllers sem mun hafa fundist þegar verkið var
komið í umbrot, en Consemüller ferðaðist með Kuhn og Prinz um Ísland
árið 1924.
Magnús Kristinsson á mikið og gott verk í þessu bindi, hann skrifar um
þúsund ára samskipti þjóðanna, æviágrip Prinz- og Kuhns-hjónanna ásamt
skýringar- og milliköflum og flesta myndatexta. Hann hefur kynnt sér
rækilega leiðir sem þau fóru og margvíslegan fróðleik er einnig að hafa um
staði og fólk sem varð á vegi þeirra. Jafnframt þýðir Magnús alla texta út-
lendinganna — fyrir utan eina grein sem Prinz skrifaði sjálfur á íslensku.
Skrif þeirra Kuhns og Prinz geisla af ferðaástríðu og öræfarómantík. Þegar
Prinz er að leggja af stað frá Gígjarhóli í Biskupstungum áleiðis yfir Kjöl við
þriðja mann í lok júlí 1923 eru menn hræddir um að þeir félagar ráði ekki
við vatnsföll og aðrar torfærur á öræfunum. Tónninn hjá Prinz er þó allur
annar:
[V]ið erum í himnesku skapi. Framundan eru fáfarnar slóðir, hálendi
Íslands með jökulskjöldum og svörtum hraunum, eyðiflæmum og
hópum söngsvana á fjallavötnum; með rjúkandi hverum og stórfljót-
um þar sem úðinn teygir sig upp af hrikalegum fossunum. (II, bls.
280)
Framan af millistríðsárunum var lítið um að Íslendingar færu í skoðun-
arferðir um hálendið og segja má að Þjóðverjarnir hafi verið ákveðnir
brautryðjendur, enda þurftu þeir stundum að leiðrétta villur á kortum sem
þá voru tiltæk. Þeir voru óhræddir við að vera einir á öræfum og komust
oft í hann krappan í viðureign sinni við jökulár. Kuhn var einu sinni talinn
af eftir að menn sáu á eftir honum niður Héraðsvötn í vexti, aldrei þessu
vant í hópferðalagi (II, bls. 330). Prinz og Kuhn gistu jafnan á sveitabæjum
og stofnuðu þannig til kynna við bændur og búalið sem leiddi til bréfa-
skrifta og eru í þessu bindi birt mörg bréf af því tagi þar sem greint er m.a.
frá heyskap, heilsufari og veðurfari. Víða er farið hástemmdum orðum um
íslenska gestrisni í skrifum þeirra. Hér skrifar Prinz um gestrisni Skagfirð-
inga þegar þeir félagar koma af Kili:
Við finnum til þess að þessi gestrisni kemur frá hjarta og af höfðings-
skap. Gestrisni er til um allan heim, en það er eitthvað sérstakt við ís-
lenska gestrisni sem mest ber þó á í sveitunum. Íslensk gestrisni er
eitthvað hátíðleg. — Hún á rætur að rekja beint til hinna göfugustu
hvata. (II, bls. 282)
R I T D Ó M A R238
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:27 Page 238