Saga - 2006, Blaðsíða 239
Áhugavert er að sjá hvernig land og þjóð á þessum tíma koma útlending-
um fyrir sjónir. Þeir sem hafa áhuga á ferðaþjónustu á fyrri hluta 20. aldar
fá hér margt úr að moða. Það kom reyndar fyrir að Þjóðverjunum væri út-
hýst, á velmegandi bæjum, hröktum og hungruðum þó að ekki sé fjölyrt
um slíkt viðmót. Það er ekki heldur tóm rómantík í landlýsingum þýsku
gestanna samanber það sem Henrik von Bothmer segir um Reykjavík 1935:
„Reykjavík er hallærislegur bær, líkur því sem ég ímynda mér amerískar
borgir á öldinni sem leið. Húsin eru ljót og óskipulega hrófað upp hverju
við hliðina á öðru.“ (II, bls. 62)
Prinz og Kuhn höfðu með höndum margvíslegustu útréttingar fyrir ís-
lenska vini sína, m.a. milligöngu um Þýskalandsdvöl barna og ættingja svo
og að útvega hingað þýskt vinnufólk. Fyrir atbeina Kuhns varð til dæmis
Regine Dinse vinnustúlka á Breiðabólsstað á Skógarströnd. Seinna flutti
hún fyrirlestra um Ísland í Þýskalandi og byggði „Íslandshús“ í þorpinu
sínu, en þangað gátu íslenskar stúlkur sem vildu hleypa heimdraganum
komið, lært þýsku og fleira og fengið aðstoð við að finna vinnu.
Dr. Bruno Schweizer er aðalhöfundur þriðja bindis, bæði texta og mynda,
og Franz Gíslason aðalþýðandi. Magnús Kristinsson ritstýrir, skrifar ævi-
ágrip þeirra Schweizers-hjóna og skýringarkafla. Hann vinnur dagbækur úr
Íslandsferðum Schweizers saman við fyrirlestra hans og önnur skrif um Ís-
land. Lengstu Íslandsferðir sínar fór Schweizer 1935 og 1936. Sérkafli um
hvora þeirra er meginmál bókarinnar, en í bókarauka er sagt frá síðari ferð-
um hans. Jafnframt eru hér kaflar úr endurminningum Þorbjargar, konu
Schweizers, sonar hans Helga-Jóns og frásagnarþættir eftir tengdaföður
hans, Jón Árnason í Eintúnahálsi. Margir aðrir eiga frumsamið efni og þýð-
ingar í bindinu. Bruno Schweizer stundaði umfangsmiklar rannsóknir í þjóð-
hátta- og mállýskufræðum þar til bandamenn tóku hann til fanga í stríðslok
og héldu honum í varðhaldi án ákæru í 11 mánuði þó að hann hefði aldrei
verið í nasistaflokknum eða undirdeildum hans. Kona hans og synir fluttust
til Íslands og þangað fór hann sjálfur eins fljótt og hann komst. Þar sem lítið
var um atvinnu hér fór hann aftur til Þýskalands og þar sameinaðist fjöl-
skyldan síðar. Á seinni hluta ævi sinnar lagði Bruno m.a. grunn að alþjóðlegu
samskiptamáli „Pantal“, en höfuðstöðvar þess áttu að vera á Íslandi.
Bruno er ekki jafn illa haldinn af Íslandsrómantík og þeir Kuhn og Prinz
og á það til í lýsingum sínum á landinu að láta í ljós með sterkum orðum
vonbrigði sín með það hversu spilling nútímans hefur náð hér mikilli út-
breiðslu og að þjóðlegar hefðir séu á undanhaldi. Hér er lýsing Sweitzer á
harmoníkuballi sem hann lenti á í Hveragerði í ferð sinni 1935:
Músíkin var andstyggilega hvunndagsleg og dansinn viðlíka ljótur.
Sömu lögin voru endurtekin í sífellu þangað til maður var orðinn
sljór. „Ómerkilegir alþjóðaslagarar af versta tagi“ hugsaði ég með mér,
„og það hér á þessum stað, þar sem óbeisluð náttúruöflin geisa undir
fótum manns“. (III, bls. 60)
R I T D Ó M A R 239
Saga vor 2006-NOTA-2 26.4.2006 17:27 Page 239